| Sf. Gutt

Bakslag í Bournemouth


Eftir stórgóða rispu og sögulegan stórsigur á Manchester United um síðustu helgi kom bakslag í Bournemouth. Liverpool tapaði 1:0 og vonin um eitt af fjórum efstu sæti deildarinnar minnkaði aftur. 

Liverpool stillti upp sama liði og þegar liðið burstaði Manchester United nema hvað Jordan Henderson var á bekknum og kom Stefan Bajcetic inn fyrir hann. Jordan var búinn að vera veikur en hann var á bekknum. 

Liverpool byrjaði vel og á 6. mínútu sendi Trent Alexander-Arnold frá hægri. Virgil van Dijk stökk manna hæst og skallaði að marki en einn leikmanna Bournemouth bjargaði á línu. Um fjórum mínútum seinna slapp Dango Ouattara fram hægra megin. Hann komst framhjá Alisson Becker en þar á eftir varð skotfærið of þröngt og hann skaut framhjá.  

Heimamenn komust svo yfir á 28. mínútu.  Dango braust fram hægra megin og gaf fyrir markið á Philip Billing sem skoraði örugglega úr miðjum vítateignum. Óvænt staða enda heimamenn í neðsta sæti deildarinnar fyrir leikinn!

Liverpool var greinilega slegið út af laginu. En á 41. mínútu fékk Virgil annað skallafæri. Eftir fyrirgjöf Andrew Robertson fékk Virgil algjört dauðafæri en laus skalli hans fór framhjá. Heimamenn yfir í hálfleik. 

Diogo Jota kom inn í hálfleik fyrir Harvey Elliott. Portúgalinn lét strax til sín taka eftir nokkrar mínútur kom hann sér í skotfæri við vítateiginn en markmaður Bournemouth varði vel. Það var meiri kraftur í leik Liverpool en liðið var samt óravegu frá sínu besta. 

Sögulegur atburður gerðist á 69. mínútu en þá fékk Liverpool víti í fyrsta skipti frá því í apríl í fyrra. Skalli Diogo fór í hendi varnarmanns og eftir sjónvarpsskoðun var dæmt víti. Mohamed Salah tók vítið. Hann sendi markmanninn í vitlaust horn en skaut svo boltanum framhjá hinu megin! Hroðalegt að geta ekki nýtt sér víti loksins þegar það rak á fjörurnar. 

Liverpool sótti það sem eftir lifði leiksins en ekkert gekk. Heimamenn vörðust með kjafti og klóm og höfðu fram sigur sem kemur þeim vel í botnbaráttunni.

Liverpool var óþekkjanlegt frá síðasta sunnudegi þegar liðið burstaði Manchester United. Enn og aftur lék liðið skelfilega á móti liði í botnbaráttu. Ekki í fyrsta sinn sem það gerist á þessu keppnistímabili. Mark Bournemouth: Philip Billing (28. mín.).

Gult spjöld: Philip Billing og Jaidon Anthony.

Gult spjald: Ibrahima Konaté.

Áhorfendur á Dean Court: 10.536.

Maður leiksins: Cody Kakpo. Það gekk ekkert upp hjá Hollendingnum en það var þó líf og barátta í honum. 

Jürgen Klopp:  ,,Þetta var mikið högg. Þegar maður fær högg verður að taka því, sleikja sárin og halda áfram. Ég er mjög vonsvikinn. Leikur okkar var meira og minna andstæða við það sem við ætluðum okkur að gera."

Fróðleikur

- Liverpool fékk á sig deildarmark í fyrsta sinn í 497 mínútur.  

- Liverpool fékk víti í deildarleik í fyrsta sinn frá því í apríl í fyrra. 

- Mohamed Slaha misnotaði vítið. Þetta var 21. vítið sem hann tekur í deildarleik. Áður hafði hann skorað úr 18 af 20.

- Liverpool hefur ekki unnið hádegisleik á leiktíðinni. 

- Liverpool hefur ekki enn unnið í hvítu varabúningum sínum á þessu keppnistímabili.

- Liverpool vann sögulegan stórsigur 9:0 á móti Bournemouth í fyrri deildarleik liðanna!

- Diogo Jota spilaði sinn 100. leik með Liverpool. Hann hefur skorað 34 mörk og lagt upp 13.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan