| Sf. Gutt

Spáð í spilinLiverpool gegn Real Madrid

Meistaradeildin er aftur komin á dagskrá. Liverpool mætir Spánarmeisturum Real Madrid og þar eru nokkur mál óuppgerð. Svona eins og tveir úrslitaleikir og að auki ein viðureign í útslætti. 


Það þarf ekki að fara mörgum orðum um lánleysi Liverpool gegn Real Madrid í úrslitaleikjum Evrópubikarsins 2018 og 2022. Færa má sterk rök fyrir því að Liverpool hafi átt að vinna báða þessa leiki. Svo mættust liðin í átta liða úrslitum á leiktíðinni 2020/21. Real vann þá 3:1 í Madríd en liðin skildu án marka í Liverpool. Liðin leiddu saman hesta sína í riðlakeppni Meistaradeildarinnar 2014/15. Þá vann Real 0:3 á Englandi og 1:0 á Spáni. Real hefur því haft yfirhöndina gegn Liverpool síðustu árin. 


En áður að kom að þessum leikjum hafði Liverpool haft betur. Liverpool vann Evrópubikarinn í París 1981 eftir 1:0 sigur á Real Madrid. Liðin mættust svo í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á leiktíðinni 2008/09. Liverpool vann þá báða leikina. Með eina marki leiksins á Spáni og svo stórsigur 4:0 á Anfield Road!


Gengi Liverpool það sem af er ársins hefur verið brösótt. Loksins eru batamerki að sjá eftir tvo deildarsigra í röð. Sjálfstraust er að aukast hjá mönnum og svo hefur fækkað á meiðslalistanum. Real Madrid er auðvitað Evrópubikarmeistari auk þess að hafa unnið Stórbikar Evrópu á síðasta ári. Á dögunum vann liðið svo Heimsmeistarakeppni félagsliða. Áður hefur komið fram að liðið er Spánarmeistari. Það eru því fjórir verðlaunagripir í geymslunni hjá Real Madrid núna. Það verður ekki neitt áhlaupaverk að slá þá Konunglegu úr leik. 

Fyrir utan að leikmenn hafa verið að snúa til baka og Liverpool hafi unnið tvo síðustu leiki binda menn, eins og svo oft áður, vonir við að Tólfti maðurinn muni gera gæfumuninn. Stuðningsmenn Liverpool munu ekki láta sitt eftir liggja og það má mikið vera ef leikmenn Real Madrid, þrátt fyrir alla reynslu þeirra, hafi upplifað annað eins og stuðningsmenn Liverpool eiga eftir að bjóða upp á annað kvöld. 


Ég spái því að komið sé að sigri Liverpool á móti Real Madrid. Það hlýtur bara að vera komið að því að Liverpool hafi lánið með sér gegn Real. Kraftar Anfield munu gera sitt. Liverpool vinnur 2:0!

YNWA!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan