| Sf. Gutt

Jafnglími!Liverpool og Chelsea skilju jöfn án marka á Anfield Road í dag. Þetta þýðir að Liverpool er rétt ofan við miðju í deildinni. Tíu stig eru í að ná einu af fjórum efstu sætunum. 

Jürgen Norbert Klopp stjórnaði liði í 1000. sinn frá því hann stýrði Mainz 05 fyrst allra liða árið 2001. Hann verðlaunaði ungliðana sem stóðu sig vel gegn Wolves í vikunni. Harvey Elliott og Stefan Bajcetic hófu leikinn á miðjunni. Darwin Núnez var á bekknum eftir meiðsli.  

Kunnuglegt stef hljómaði eftir þrjár mínútur þegar Kai Havertz kom Chelsea yfir af stuttu færi eftir horn og stangarskot Thigo Silva. Markið var þó sem betur fer dæmt réttilega af eftir sjónvarpsskoðun og var rangstæða ástæðan.

Þremur mínútum seinna fékk Liverpool gott færi. Mohamed Salah sendi boltann út á Cody Gakpo en Hollendingurinn skaut yfir úr góðu færi. Á 20. mínútu gerði Cody vel. Hann náði boltanum af mótherja við vítateiginn en aftur fór skot hans yfir. Í bæði skiptin var Cody of fljótur á sér og greinilega ekki afslappaður í skottilraunum sínum. Chelsea ógnaði lítið utan að Alisson Becker varði vel skalla af stuttu færi frá  Benoît Badiashile nokkrum mínútum fyrir leikhlé. Markalaust þegar leikmenn gengu af velli í kuldanum á Anfield. 

Fyrri hálfleikur var rólegur en leikmenn Liverpol byrjuðu síðari hálfleik af krafti og mun betra að sjá til manna. Ekki náðist þó að skapa einhver almennileg færi. Eftir tíu mínútur kom Úkraínumaðurinn inn sem varamaður en hann var að koma nýkeyptur til Chelsea. Hann færði mikið líf í leik Chelsea og á 64. mínútu lék hann sig í færi með frábærri rispu en skot hans fór í hliðarnetið. 

Liverpool sendi Darwin Núnez til leiks og hann lífgaði upp á sóknarleik Liverpool. Á 69. mínútu gaf hann fyrir markið frá vinstri á Cody sem náði skoti á markið en botlinn fór beint á Kepa Arrizabalaga sem varði. James Milner átti í vandræðum með Úkraínumanninn og var skipt af velli eftir að hann var kominn með gult spjald. Trent Alexander-Arnold leysti James af en Trent hafði verið lítilsháttar meiddur dagana fyrir leik. 

Þegar sjö mínútur voru eftir gerði Darwin vel vinstra megin og gaf fyrir. Boltinn rataði til Trent en hann skaut upp í Kop stúkuna. Trent hefði getað gert betur því hann hafði tíma til að leggja boltann fyrir sig áður en hann skaut. Þegar komið var fram í viðbótartíma gerði Chelsea atlögu en Andrew Robertson komst fyrir skot á síðustu stundu og bjargaði í horn. Vel gert hjá Skotanum! Jafnglími varð því niðurstaðan og voru það sanngjörn úrslit. 

Liverpool náði ekki að skora sem er ekki gott. Liðið náði að halda hreinu sem er jákvætt. En þæfingurinn heldur áfram. Liverpool er um miðja deild og tíu stig eru í efstu fjögur sætin. Það er verk að vinna að koma liðinu almennilega í gang! 

Liverpool: Alisson, Milner (Alexander-Arnold 72. mín.), Konaté, Gomez, Robertson, Keïta (Núnez 63. mín.), Bajcetic (Fabinho 82. mín.), Thiago, Salah, Gakpo (Henderson 82. mín.) og Elliott (Jones 82. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Oxlade-Chamberlain, Tsimikas og Matip.

Gul spjöld: Stefan Bajcetic, James Milner og Curtis Jones.

Chelsea: Arrizabalaga, Chalobah (Azpilicueta 81. mín.), Thiago Silva, Badiashile, Ziyech, Jorginho, Hall (Mudryk 55. mín.), Cucurella, Gallagher, Mount (Chukwuemeka 82. mín.) og Havertz (Aubameyang 81. mín.). Ónotaðir varamenn: Bettinelli, Loftus-Cheek, Koulibaly, Fofana og Humphreys.

Gult spjald: Trevoh Chalobah.

Maður leiksins: Stefan Bajcetic. Kannski voru einhverjir betri en þessi ungi strákur stóð sig vel á miðjunni. Hann lofar góðu!

Jürgen Klopp: ,,Við áttum góðar rispur en náðum ekki að spila vel langtímum saman. Við verðum að vera tilbúin að taka lítil skref fram á við og þetta var lítið skref. Ég er sáttur við markalaust jafntefli því það er í sjálfu sér lítið skref í rétta átt. Við eigum að getað byggt ofan á þetta."

Fróðleikur

- Jürgen Norbert Klopp stjórnaði liði í 1000. skipti í keppnisleik. 

- Liverpool hefur ekki unnið deildarleik það sem af er á þessu Herrans ári 2023. 

- Liverpool og Chelsea hafa skilið jöfn í þremur síðustu deildarleikjum sínum. 

- Liðin hafa aðeins einu sinni áður í sögunni gert 0:0 jafntefli í deildarleik á Anfield. 

- Harvey Elliott spilaði sinn 50. leik með Liverpool. Hann hefur skorð fimm mörk í þessum leikjum og lagt upp tvö.

- Harvey er eini leikmaður Liverpool sem hefur tekið þátt í öllum 29 leikjum Liverpool hingað til á leiktíðinni.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan