| Sf. Gutt

Til hamingju!


Ron Yeats, fyrrum fyrirliði Liverpool, er 85 ára í dag. Hann var lykilmaður í vörn Liverpool á sjöunda áratug síðustu aldar þegar liðið komst upp í efstu deild og varð í framhaldinu mjög sigursælt. Ron er án efa einn merkasti af fyrrum leikmönnum Liverpool sem enn lifir. 

Ron fæddist í Aberdeen í Skotlandi þann 15. nóvember 1937. Hann hóf feril sinn hjá Dundee United 1957. Hann komst upp í efstu deild á Skotlandi með liðinu vorið 1960. Ron hafði áður en hann hóf feril sinn með Dundee United unnið í sláturhúsi.  

Bill Shankly nefndi Ron ,,Risann" enda Skotinn hávaxinn. Þegar Ron var kynntur sem nýr leikmaður Liverpool bauð hann blaðamönnum að ganga í kringum hann til að sjá almennilega hversu stór hann væri. Ron var keyptur frá Dundee United 1961 og Bill gerði hann fljótlega að fyrirliða. Framherjinn Ian St John var keyptur tveimur mánuðum áður og Bill sagði þessa tvo menn vera þá sem fullkomnuðu liðið þannig að það kæmist upp í efstu deild. Það gekk eftir og Liverpool vann aðra deild vorið 1962 með miklum yfirburðum.

Á næstu árum varð Liverpool sterkasta lið Englands og varð Englandsmeistari 1964 og 1966. Í millitíðinni vann liðið FA bikarinn í fyrsta sinn eftir 2:1 sigur á Leeds United í úrslitaleik á Wembley. Þrívegis hafði Liverpool hendur á Góðgerðarskildinum. Fyrst 1964 og 1965 eftir jafntefli en þá var Skildinum deilt en svo vannst hann 1966. Ron tók við öllum þessum titlum sem fyrirliði.


Ron yfirgaf Liverpool 1971 og gekk til liðs við Tranmere Rovers. Hann lék 454 leiki með Liverpool og skoraði 16 mörk. Í þessum 454 leikjum var hann fyrirliði í 416. Ron lék aðeins tvo landsleiki með skoska landsliðinu sem þótti lítið miðað við hversu góður hann var hjá Liverpool. 

Ron Yeats var seinna yfirmaður njósnamála hjá Liverpool þar til hann lét af störfum árið 2006. Því miður hrjáir heilabilun nú þennan magnaða kappa eins og svo marga leikmenn frá hans tíma. 

Ron kom til Íslands árið 2007 og var heiðursgestur á árshátíð Liverpool klúbbsins. Hann kom hér auðvitað áður sem fyrirliði Liverpool í ágúst 1964 þegar Liverpool mætti KR í Evrópukeppni meistaraliða. 

Liverpool klúbburinn á Íslandi óskar Ron Yeats til hamingju með afmælið. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan