| Sf. Gutt

Tap fyrir toppliðinu



Þæfingur Liverpool í Úrvalsdeildinni heldur áfram. Liverpool tapaði í dag 3:2 fyrir toppliði Arsenal í London. Tvöföldu bikarmeistararnir eru nú um miðja deild og hvorki gengur né rekur!

Liverpool tefldi fram sama liði og vann sannfærandi sigur á móti Rangers í Meistaradeildinni á þriðjudagskvöldið. Eins var sama leikaðferð notuð. 

Arsenal hóf leikinn skiljanlega af miklum krafti. Það hefur hvað eftir annað gefið góða raun á móti Liverpool það sem af er leiktiðar. Liverpool hefur nefnilega lent undir í næstum hverjum einasta leik á keppnistímabilinu. Varla hafa bjartsýnustu Skytturnar varla búist við svona óskabyrjun eins og gafst. Hröð sókn endaði með því að Martin Ødegaard sendi inn fyrir vörnina vinstra megin. Gabriel Martinelli stakk sér í gegn og skoraði af öryggi. Sofandahátturinn algjör hjá vörn Liverpool. Alls voru 58 sekúndur liðnar! 

Arsenal var sterkara liðið á upphafskaflanum en leikmenn Liverpool náðu smá saman að vinna sig inn í leikinn. Á 34. mínútu jafnaði Liverpool verðskuldað. Luis Díaz kom boltanum fyrir markið frá hægri á Darwin Nunez sem stýrði boltanum í markið frá markteig. Leikmenn Liverpool vildu svo fá víti þegar leikmaður Arsenal handlék boltann augljóslega inni í vítategi en ekkert var dæmt. Algjörlega óskiljanlegt að ekki skyldi vera dæmt víti!

Liverpool varð fyrir áfalli stuttu fyrir hálfleik þegar Luis varð að fara af velli vegna meiðsla. Svo leit út fyrir að hann hefði meiðst á hné. En þetta var ekki síðasta áfall hálfleiksins. Rétt fyrir lok viðbótartímans náði Arsenal hraðri sókn. Hún endaði með því að Gabriel gaf fyrir frá vinstri og Bukayo Saka skoraði af stuttu færi. Algjört kjaftshögg þegar allt útlit var á að staðan yrði jöfn í hálfleik. 

Joe Gomez kom inn fyrir Trent Alexander-Arnold í leikhléi en Trent hafði lent í harðri tæklingu fyrir hlé og virtist vera meiddur á ökkla. Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn vel og á 53. mínútu gaf Diogo Jota fram á Roberto Firmino sem hafði leyst Luis af hólmi. Brasilíumaðurinn afgreiddi boltann neðst út í hægra hornið. Vel gert hjá Roberto sem hefur leikið vel á leiktíðinni.

Leikurinn var jafn í framhaldinu en þegar um 20 mínútur voru eftir setti Arsenal mikinn kraft í leik sinn. Liverpool stóð nokkrar harðar sóknir af sér þangað til Arsenal fékk víti. Mörgum þótti dómurinn harður og óljóst á hvað dæmt var. Thiago Alcántara og Jesus virtust bara sparka saman. Sjónvarpsdómgæslan skipti sér ekki af neinu og dómurinn stóð. Bukayo tók vítið og skoraði með föstu skoti. Heimamenn komnir yfir í þriðja sinn og 14 mínútur eftir. Liverpool náði ekki að jafna í þriðja sinn og tap varð staðreynd. 

Liverpool náði eins og oftast áður á leiktíðinni ekki að sýna sannfærandi leik. Liðið lenti undir í byrjun og þó svo það hafi í tvígang náð að jafna þá varð tap niðurstaðan. Staða Liverpool um miðja deild er ekki í lagi en engu að síður staðreynd! 

Mörk Arsenal: Gabriel Martinelli (1. mín .) og Bukayo Saka (45. og 76. ,víti, mín.). 

Gult spjald: Martin Ødegaard.

Mörk Liverpool: Darwin Nunez (34. mín.) og Roberto Firmino (53. mín.).

Gul spjöld: Luis Díaz og Joe Gomez.

Maður leiksins: 
Thiago Alcántara. Thiago spilaði vel á miðjunni og dreif liðið áfram.

Jürgen Klopp: Lið í formi mætti liði sem er ekki í formi. Svoleiðis var það nú bara. Við spiluðum býsna vel á köflum og hefðum ekki þurft að tapa. Mér fannst við verðskulda jafntefli. En við þurftum að fást við þessa niðurstöðu og það er allt í fínu með það. 

Fróðleikur

- Darwin Nunes skoraði þriðja mark sitt á leiktíðinni. 

- Roberto Firmino skoraði í sjötta sinn á keppnistímabilinu. 

- Ibrahima Konate lék sinn fyrsta leik á sparktíðinni. 

- Joe Gomez spilaði sinn 150. leik fyrir Liverpool. 

- Jordan Henderson lék sinn 550. leik á ferlinum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan