| Sf. Gutt

Öruggur sigur í Bretlandsorrustunni!


Liverpool vann öruggan sigur í Bretlandsorrustunni við Glasgow Rangers. Rauði herinn vann 2:0 sigur á Anfield Road og staðan í Meistaradeildinni er orðin mun betri en eftir fyrstu umferðina. 

Leikskipulaginu á miðjunni var breytt frá leiknum við Brighton um helgina. Aðeins Jordan Henderson og Thiago Alcântara voru eiginlegir miðjumenn. Fjórir voru svo í framlínunni! Moahmed Salah, Diogo Jota, Luis Díaz og Darwin Nunez.

Fyrir leikinn var einnar mínútu þögn vegna harmleiksins í Indónesíu. Það var reyndar langt frá því þögn þegar Meistaradeildarlagið var leikið. Stuðningsmenn Liverpool bauluðu duglega og voru greinilega að senda Knattspyrnusambandi Evrópu skilaboð vegna ruglsins fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor!

Steven Gerrard var uppi í stúku og fylgdist með gömlu liðunum sínum. Hann var auðvitað framkvæmdastjóri Rangers þar til á síðasta keppnistímabili og gerði liðið að Skotlandsmeisturum 2021. Rangers mætti til leiks sem skoskur bikarmeistari. Ryan Kent og Ben Davies fyrrum leikmenn Liverpool voru í byrjunarliði Rangers. Reyndar spilaði Ben aldrei með Liverpool. 

Leikmenn Liverpool fengu harða gagnrýni eftir leikinn við Brighton og þeir mættu því ákveðnir til leiks. Liverpool tók strax öll völd sem ekki kom á óvart enda skosku liðin ekki nærri því jafn sterk og bestu lið Englands. 

Strax á annarri mínútu átti Darwin Nunez skot, eftir að boltinn barst til hans í vítateignum, sem Allan McGregor varði. Liverpool komst svo yfir á 7. mínútu. Trent Alexander-Arnold skoraði þá beint úr aukaspyrnu. Hann skaut boltanum yfir varnarvegg Rangers og upp í vinstra hornið. Frábært mark hjá bakverðinum sem hefur legið undir mikilli gagnrýni það sem af er leiktíðar. Svo vildi til að aukaspyrnan var dæmd á brot Ben Davies fyrrum leikmanns Liverpool.  

Á 34. mínútu sendi Jordan Henderson inn í vítateiginn á Darwin en Allan varði skot hans. Á 40. mínútu sendi Mohamed Salah á Darwin hægra megin í vítateignum en Allan varði. Aftur átti Darwin skot rétt fyrir hálfleik en sá gamli í markinu varði enn og aftur. Darwin skaut rétt utan vítateigsins eftir undirbúning Diogo Jota. Allan, sem stendur á fertugu, var búinn að halda markatölunni niðri á ótrúlegan hátt. Frábær leikur hjá Skotanum þrautreynda!

Liverpool bætti í forystu sína á 53. mínútu. Brotið var þá á Luiz Díaz í vítateignum og það tvisvar frekar en einu sinni. Mohamed Salah tók vítið og skoraði örugglega í mitt markið. Sex mínútum seinna fékk Diogo sendingu inn í vítateiginn. Hann náði föstu skoti sem stefndi upp í hornið en sá gamli í markinu sló boltann yfir. 

Liverpool hafði öll tök á leiknum en færin voru fá þegar leið á hálfleikinn. Sex mínútum fyrir leikslok skallaði Joël Matip hárfínt framhjá eftir horn frá vinstri. Þar munaði litlu að hann endurtæki leikinn frá því á móti Ajax!

Rangers náði varla almennilegri sókn í leiknum fyrr en fimm mínútum fyrir leikslok. Þá kom Rabbi Matondo boltanum framhjá Alisson Becker en Kostas Tsimikas bjargaði á línu á ótrúlegan hátt. Eftir hornið sem var dæmt rataði boltinn til Fashion Sakala en Alisson varði frá honum af stuttu færi. Þetta var það síðasta markverða sem gerðist í leiknum og stuðningsmenn Liverpool gátu fagnað öruggum sigri í þessari Bretlandsorrustu. 

Liverpool lék vel og hafði fullkomna stjórn á leiknum frá upphafi til enda. En þess ber að geta að Rangers er lið sem Liverpool á að vinna. Það voru batamerki á ýmsum sviðum hjá Liverpool og vonandi halda þau áfram í næstu leikjum!

Mörk Liverpool: Trent Alexander-Arnold (7. mín.) og Mohamed Salah, víti, (53. mín.).

Gult spjald: Trent Alexander-Arnold.

Gul spjöld: John Lundstram.

Áhorfendur á Anfield Road: 49.512.

Maður leiksins:
Luis Díaz. Kólumbíumaðurinn var að allan leikinn og ógnaði hvað eftir annað með hraða sínum og leikni. Hann virðist gersamlega þindarlaus! 

Jürgen Klopp: Góður leikur. Reyndar alveg eins og við vildum spila. Við stilltum varnarkerfinu öðruvísi upp og vörnin var mjög góð. Við sköpuðum okkur fullt af færum en náðum ekki að nýta þau nógu vel. Markmaður Rangers varði nokkrum sinnum mjög vel og svo misnotuðum við færi að auki. En ég var mjög ánægður með liðið. 

Fróðleikur

- Þetta var í fyrsta sinn sem Liverpool og Rangers mætast í Evrópuleik. 

- Liverpool hefur nú leikið gegn fimm liðum frá Skotlandi í Evrópukeppnum. 

- James Milner spilaði sinn 300. leik með Liverpool. Hann hefur skorað 26 sinnum og lagt upp 44 mörk.

- Trent Alexander-Arnold skoraði þriðja mark sitt á leiktíðinni. 

- Mohamed Salah skoraði fimmta mark sitt á sparktíðinni.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan