| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Það gefur á bátinn. Jürgen Klopp og lærisveinar hans eru í ólgusjó. Það þarf að ná betri stjórn á skútunni áður en það verður um seinan. 


Evrópuvegferð Liverpool hefði varla getað byrjað verr en hún gerði í Napólí. Stórt tap og slæmur leikur. Liverpool gerði reyndar vel í næsta leik og vann baráttusigur á Ajax á Anfield Road. Liðið er því í þokkalegri stöðu fyrir leikinn á móti Glasgow Rangers annað kvöld. Liverpool mætir svo Rangers í næstu umferð. Flestir telja Rangers slakasta lið riðilsins og liðið er án stiga eftir fyrstu tvo leikina. Takist Liverpool að vinna báða leikina við skoska liðið er það gott nesti fyrir síðustu tvo leikina. 

En það er ekki á vísan að róa. Rangers er seigt lið og stóð lengi vel í Napolí í síðustu umferð. Ítalska liðið hafði ekki erindi sem erfiði í Glasgow fyrr en liðið var orðið manni fleiri. En þó svo skosku bikarmeistararnir séu sýnd veiði en ekki gefin á Liverpool að vinna annað kvöld. 

Liverpool hefur flesta sína bestu menn til taks. En bestu mennirnir hafa einfaldlega ekki verið upp á sitt besta það sem af er leiktíðar. Þeir verða að ná sér á strik. Annað dugar ekki. Liverpool er með betri leikmenn og sterkara lið en Rangers. Liverpool verður að vinna þessa Bretlandsorrustu og gerir það! Ég spái því að Liverpool vinni 3:0.

YNWA!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan