| Sf. Gutt

Fyrsta Evrópukvöldið!

Fyrir 58 árum lék Liverpool sinn fyrsta leik í Evrópukeppni. Hin magnaða Evrópusaga Liverpool hófst á Laugardalsvellinum í Reykjavík og mótherjanir voru K.R. Liverpool hefur í sögu sinni unnið 13 Evróputitla. Evrópusaga liðsins er glæsilegur kafli í einstakri sögu þessa sigursælasta knattspyrnuliðs á Englandi. Einmitt þess vegna er þessi leikur talinn svo merkilegur í sögu Liverpool. Hann markar upphafið að Evrópusögunni. Við Íslendingar getum því verið stoltir af að eiga svona stóran þátt í upphafinu. Að auki markar leikurinn upphaf þátttöku íslenskra liða í Evrópukeppnum. Íslenskt félagslið hafði aldrei áður leikið gegn erlendu liði í opinberri keppni.

Leikur Liverpool og K.R. var í undankeppni Evrópukeppni meistaraliða. Leikurinn fór fram í kvöldsól og norðanvestan golu. Það kólnaði þó þegar þegar sólin gekk undir. Leikurinn þótti mikil tíðindi og 10.268 áhorfendur mættu á Laugardalsvöllinn. Var þessi kvöldstund líklega upphaf stuðnings margra Íslendinga við Liverpool. Liverpool byrjaði vel og á 3. mínútu kom fyrsta markið. Gordon Wallace skoraði þá rétt utan markteigs. Þetta fyrsta Evrópumark Liverpool var tímasett eftir 180 sekúndur. Með hörðum varnarleik náðu leikmenn K.R að koma í veg fyrir að Livepool skoraði fleiri mörk í fyrri hálfleik.

En á fyrstu mínútu síðari hálfleik skoraði Roger Hunt af markteig eftir undirbúning Gordon Wallace. Fimm varnarmenn K.R. gátu ekki stoppað þennan mikla markaskorara. Hættulegasta færi K.R. fékk Ellert B. Schram þegar staðan var 2:0. Hann átti góðan skalla að marki, Tommy Lawrence náði ekki til boltans en Ronnie Moran bjargaði á marklínu. Phil Chisnall kom Liverpool í 3:0 á 57. mínútu eftir fyrirgjöf Ian Callaghan. Gordon Wallace skoraði svo annað mark sitt þremur mínútum seinna. Skotinn skallaði þá fyrirgjöf Ian Callaghan í netið af markteig. Roger skoraði annað mark sitt og fimmta mark Liverpool tveimur mínútum fyrir leikslok. Hann skoraði þá með þrumuskoti af rúmlega tuttugu metra færi. Blaðamenn sögðu þetta fallegasta mark leiksins.

Greint var ítalega frá leiknum í Morgunblaðinu og Tímanum. Bæði blöð sögðu yfirburði Liverpool hafa verið mikla. Til dæmis kom Tommy Lawrence markvörður Liverpool aðeins þrisvar eða fjórum sinnum við boltann í fyrri hálfleik og alltaf eftir sendingar aftur frá sínum mönnum. Annað blaðið sagði Liverpoool hafa getað unnið 15:0. Leikmenn K.R. voru nokkuð gagnrýndir fyrir að leggjast í vörn og hugsa um það eitt að tapa með sem minnstum mun. Fréttamaður Morgunblaðsins hafði þetta að segja um leiknn. ,,Enginn samanburður kemur til greina á liðunum. Liverpool liðið var svo mörgum klössum ofar. Það gat gert það nákvæmlega það sem það vildi – en reyndi ekki mjög til að skora. Margir þeirra gerðu heiðarlegar tilraunir til að skemmta áhorfendum en þó enginn sem sem Thompson útherji með sínum snjöllu og fjölbreyttu einleikssyrpum. Íslensku áhorfendurnir – og liðsmenn K.R. horfðu á eins og góðir nemendur í skóla."

Í viðtali sem ég tók við Bjarna Felixson, og birtist í 1. tölublaði Rauða hersins 1995, spurði ég hann um hvað hefði verið minnisstæðast frá leiknum á Laugardalsvellinum. Bjarni svaraði. ,,Það var frammistaða Peter Thompson útherja Liverpool. Hann lék vel og var óstöðvandi á köflum. Hann var maður leiksins." Bjarni lék bakvörð og sagðist hafa leikið gegn Ian Callaghan. Ian átti líka mjög góðan leik.

K.R.: Gisli Þorkelsson, Heiðar Ársælsson, Bjarni Felixson, Þórður Jónsson, Hördur Felixson, Þorgeir Guðmundsson, Sveinn Jónsson, Gunnar Gudmannsson, Gunnar Felixson, Ellert Schram (Fyrirliði) og Sigurþór Jakobsson.

Liverpool: 1. Tommy Lawrence, 2. Gerry Byrne, 3. Ronnie Moran, 4. Gordon Milne, 5. Ron Yeats (Fyrirliði), 6. Willie Stevenson, 7. Ian Callaghan, 8. Roger Hunt, 9. Phil Chisnall, 10. Gordon Wallace og 11. Peter Thompson.

Áhorfendur á Laugardalsvelli: 10.268.

Hér má lesa grein um leikinn á LFChistory.net.

Hér er forsíða Morgunblaðsins daginn eftir leik.

Hér og hér má lesa frásögn Morgunblaðsins af leiknum.

Hér og hér má lesa frásögn Tímans af leiknum.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan