| Sf. Gutt

Niðurtalningin er hafin. - 1. kapítuli.


Það er alltaf góðs viti að hafa unnið sér þátttökurétt til að keppa um Samfélagsskjöldinn. Sæti í þessum árlega opnunarleik leiktíðarinnar þýðir yfirleitt að á síðustu leiktíð hefur liðið okkar unnið til verðlauna eða að minnsta kosti náð góðum árangri í deildinni. Um árabil var Liverpool svo að segja árlegur gestur í leiknum. Sem dæmi um það má nefna að á sínum tíma lék Liverpool 13 sinnum um Góðgerðarskjöldinn á 16 árum.


Á laugardaginn mætir Liverpool Manchester City í leiknum um Samfélagsskjöldinn á King Power leikvanginum í Leicester. Þó svo að Samfélagsskjöldurinn teljist ekki til stórtitla er alltaf gott að hefja leiktíðina með því að ná yfirráðarétt yfir gripnum.

Liverpool og Manchester City ganga á hólm á laugardaginn og berjast um yfirráðarétt yfir Samfélagsskildinum. Það verður örugglega ekkert gefið eftir frekar en í rimmum liðanna síðustu árin. Það er því mikil spenna í loftinu í Liverpool og hjá stuðningsmönnum liðsins okkar hvar sem þeir eru til sjós og lands. Til að magna spennuna, hefst í dag, niðurtalning fyrir leikinn á Liverpool.is. Í niðurtalningunni verður margt til fróðleiks um leikinn og árangur Liverpool í honum í gegnum árin svo eitthvað sé nefnt.

+ Skjaldarleikurinn á laugardaginn verður sá 100. í röðinni.

+ Tilgangurinn með leiknum hefur alltaf verið að alfa tekna til góðgerðarstarfsemi og líknarmála.

+ Fyrst var keppt um Góðgerðarskjöldinn árið 1908. Manchester United lagði þá Queens Park Rangers í aukaleik eftir jafntefli í fyrri leiknum. Aldrei hefur aftur verið leikið tvisvar um gripinn á sama árinu.

+ Árið 1912 léku Blackburn Rovers og Q.P.R um Skjöldinn. Blackburn vann 2:1. Ágóðinn af leiknum var 265 sterlingspund og fór til þeirra sem áttu um sárt að binda eftir að Titanic sökk.

+ Mismunandi reglur voru framan af árum um hvaða lið fengu þátttökurétt í leiknum. Til dæmis léku lið atvinnumanna gegn áhugamönnum í nokkur ár. Áhugamönnum vegnaði ekki vel í þessum leikjum! Oftast voru þó Englandsmeistarar hvers árs annað liðið sem boðið var þátttaka.

+ Frá upphafi og til ársins 2001 var verðlaunagripurinn nefndur Góðgerðarskjöldurinn. Árið 2002 var nafninu breytt og nú kallast gripurinn Samfélagsskjöldurinn.

+ Nú um langt árabil hafa Englandsmeistarar og F.A. bikarmeistararnir jafnan leikið saman. Undantekning á þessu er þegar lið vinnur tvöfalt. Þegar svo ber undir leika tvöfaldir meistarar jafnan gegn því liði sem hafnaði í öðru sæti í deildinni.+ Liverpool mætir nú til leiks sem bikarmeistari í fyrsta sinn frá 2006. Reyndar tvöfaldur bikarmeistari en það er FA bikarinn sem gefur þátttökurétt. Manchester City er Englandsmeistari.  + Liverpool leikur um Skjöldinn í þriðja skipti á fjórum árum. Liðið tapaði í vítaspyrnukeppni fyrir Manchester City 2019 og aftur árið eftir fyrir Arsenal. Aftur var tap í vítaspyrnukeppni. 


+ Liverpool vann Skjöldinn síðast 2006 en þá vann liðið Chelsea 2:1 á Árþúsundaleikvanginum í Cardiff.


+ Lengi vel var leikurinn leikinn á mismunandi völlum en þó oftast á heimavelli annars liðsins. Árið 1974 fór leikurinn fyrst fram á Wembley. Liverpool og Leeds United léku þá saman. Liðin skildu jöfn 1:1 en Liverpool vann 6:5 í vítaspyrnukeppni. Það var í fyrsta sinn sem úrslit í Skjaldarleik voru útkljáð í vítaspyrnukeppni.


+ Leikið var á gamla Wembley til ársins 2000 en frá 2001 til 2006 fóru Skjaldarleikirnir fram á Árþúsundaleikvanginum í Cardiff. Liverpool vann Skjöldinn 2001 og 2006 í Cardiff.  


+ Nýi Wembley hefur verið vettvangur Skjaldarleikja frá 2007 en frá er talið árið 2012. Þá var leikið á Villa Park þar sem nýi Wembley var upptekinn vegna Ólympíuleikanna í London.  

+ Ef lið skilja jöfn eftir 90 mínútur fer fram vítaspyrnukeppni. Ekki er framlengt og sigurvegarinn í vítaspyrnukeppninni varðveitir Skjöldinn næsta árið.

+ Liverpool hefur leikið 23 sinnum leikið um Skjöldinn og leikurinn gegn Manchester City verður 24. leikur liðsins um þennan merka grip.

+ Liverpool hefur því tekið þátt í 24% af Skjaldarleikjunum sem er magnað!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan