| Grétar Magnússon

Darwin Nunez til Liverpool

Kaupin á Darwin Nunez hafa nú loks verið staðfest af Liverpool FC. Úrúgvæinn hefur skrifað undir langtíma samning við félagið.


Læknisskoðun kláraðist í dag í AXA æfingaaðstöðu félagsins og í kjölfarið var skrifað undir samninginn sem talinn er vera til næstu sex ára. Nunez, sem er 22 ára gamall, kemur frá Benfica en hann hafði verið á mála hjá þeim síðastliðinn tvö tímabil, spilað 85 leiki í öllum keppnum og skorað 48 mörk. Hann hefur svo til þessa leikið 11 landsleiki fyrir Úrúgvæ eftir að hafa leikið sinn fyrsta landsleik í október 2019.

,,Ég er virkilega ánægður með að vera hér hjá Liverpool. Þetta er risastórt félag," sagði Nunez í sínu fyrsta viðtali við opinbera heimasíðu Liverpool.

,,Ég vil nota tækifærið og þakka unnustu minni, foreldrum og syni mínum en ég er alveg ótrúlega stoltur af honum. Mitt nánasta fólk hefur verið mér mikilvægt á öllum stigum ferilsins. Ég er stoltur af þeim og því sem þau leggja á sig, ég og unnusta mín erum gott teymi og ég er henni þakklátur fyrir að vera kominn hingað."


,,Ég hef spilað gegn Liverpool og hef séð marga leiki með þeim í Meistaradeildinni, þeir henta mínum leikstíl vel. Það eru frábærir leikmenn hér og þeir passa vel við hvernig ég vil spila. Eins og ég segi, þá hef ég fylgst ansi mikið með liðinu, þetta er stórt félag og ég vonast til að geta lagt mitt af mörkum til að hjálpa liðinu."

Nunez hóf ferilinn hjá Club Atletico Penarol í heimalandinu og fór upp í gegnum unglingastarf félagsins. Fyrir tímabilið 2018-19 gekk hann til liðs við Almeria á Spáni sem léku þá í næst efstu deild en vakti þar strax athygli útsendara Benfica og var keyptur þangað eftir eitt tímabil á Spáni.

Nunez verður í treyju númer 27 en það er gamla treyjunúmerið hans Divock Origi og ef við förum lengra aftur í tíma þá var Haukur Ingi Guðnason einnig með þetta númer á bakinu á sínum tíma.

,,Þegar ég mætti á æfingasvæðið kom það mér á óvart hvað allt er flott hér og margir bikarar. Það er auðvelt að ímynda sér að lyfta fleiri bikurum, koma svo aftur nokkru síðar og geta þá sagt að ég hafi tekið þátt í því að vinna til þeirra hér."

,,Þetta er ein ástæða þess að ég kom til Liverpool, að vinna titla og bikara. Ég vil vinna marga bikara hér."

Nunez er þriðji Úrúgvæinn sem spilar með Liverpool en á undan honum voru það þeir Luis Suarez og Sebastian Coates.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan