| Sf. Gutt

Stóra Parísarmálið!Eins og allir vita gat úrslitaleikur Liverpool og Real Madrid í Meistaradeildinni ekki hafist á tilsettum tíma á Frakklandsleikvanginum. En af hverju og hverju og hverjum var um að kenna?


Þegar leið að því að leikur Liverpool og Real Madrid færi að hefjast voru enn auð sæti í áhorfendapöllunum. Flest á því svæði sem stuðningsmenn Liverpool voru. Fyrsta skýring framkvæmdaaðila leiksins hljóðaði upp á að leikurinn gæti ekki hafist á réttum tíma vegna þess að áhorfendur hefðu verið svo seinir fyrir. Þetta var uppspuni. 

Leikurinn hófst loks rúmri hálfri klukkustund eftir að áætlað var. Fjöldi áhorfenda rétt komst inn á völlinn þó upphafi leiks væri frestað. Stærstur hluti af því fólki var löngu komið að leikvanginum. Sumt af fólkinu var komið tveimur klukkustundum fyrir leik. Í það minnsta löngu áður en til þurfti miðað við eðlilega framkvæmd þess að hleypa fólki inn.

Eftir leikinn byrjuðu Knattspyrnusamband Evrópu, framkvæmdaaðilar á Frakklandsleikvanginum og franska lögreglan að reyna að hagræða sannleikanum. Áður hefur verið minnst á þau ósannindi að fólk hafi  verið seint fyrir að leikvanginum. Svo komu til ásakanir um að tugir þúsunda áhorfenda hefðu komið til leiksins með falsaða miða. Örugglega einhverjir eins og á öllum stórviðburðum en ekki tugir þúsunda. Þessi ósannindi hafa líka verið afsönnuð. Eins hefur komið í ljós að rafrænir skynjarar sem áttu að taka við aðgöngumiðum fólks virkuðu illa eða ekki. 

En segjum sem svo að fólk hafi komið seint og miðar hafi verið falsaðir þá bætir það ekki úr því hvernig lögreglan og vallarverðir höguðu sér. Lögregla beitti táragasi og piparúða á saklaust fólk. Ekki nóg með að slíku hafi verið beitt gegn fullorðnu fólki heldur líka unglingum og börnum. Fólki var hrint og framkoma yfirvalda algjörlega óboðleg í alla staði. 

Fólk var látið bíða óratíma á þröngum svæðum og mörgum reyndist þetta erfið lífsreynsla. Þrengsli og troðningur var við hættumörk. Í raun og veru má teljst mesta mildi að fólk skyldi ekki farast. Margir hafa sagt að rólyndi og yfirvegun áhorfenda hafi bjargað því sem bjargað var. Fjöldi fólks var miður sín og í raun í áfalli þegar það komst loksins inn á leikvanginn og gat ekki notið leiksins á neinn hátt. Einhverjir líktu tilfinningum sínum við þær sem voru í gangi á Hillsborough þegar ósköpin áttu sér stað þar. 

Mestu vandræðin voru við þann enda leikvangsins sem stuðningsmenn Liverpool komu að. En það voru sömu vandræði við þann enda sem stuðningsmenn Real Madrid voru við. Spánverjar báru Frökkum ekkert betri söguna en Englendingar. 

Eftir leik tók ekki betra við. Gæsla var í molum og glæpagengi veittust að fólki sem var að yfirgefa leikvanginn. Sumir voru rændir og aðrir komust undan á hlupum. Einhverjir slösuðust. 


Knattspyrnusamband Evrópu bað fólk loks afsökunar á því að það hefði lent í óþægilegum aðstæðum sem hefðu skapað vanlíðan. Þessi afsökunarbeiðni kom seint. Í tilkynningunni kom fram að óháðir aðilar muni fara yfir gang mála. 

Forráðamenn Liverpool Football Club brugðust hart við strax að kvöldi úrslitaleiksins. Vísuðu ósannindum á bug og reyndu að koma sannleikanum á framfæri. Lögsóknum var hótað og hvergi gefið eftir. Liverpool FC hefur boðið stuðningsmönnum sínum áfallahjálp og hafa einhverjir þegið hana.  


Á tímum samfélagsmiðla komast menn illa upp með að ljúga til um atburði. Myndskeiðum úr símum sem er smellt út á veraldarvefinn strax eða þá eru send út beint um leið og atburðurinn gerist afhjúpa lygar ef reynt er að halda öðru fram um atburðarás. Sá er munurinn frá atburðum í París ef borið er saman við eftirleik harmleiksins á Hillsborough þegar lygar og yfirhalmingar yfirvalda komu í veg fyrir að sannleikurinn yrði viðurkenndur fyrr en löngu síðar. 

Sannleikurinn í stóra Parísarmálinu liggur fyrir. Það þýðir ekki fyrir framkvæmdaaðila leiksins og lögreglu að reyna að koma sök á stuðningsmenn Liverpool og Real Madrid! Það er á hinn bóginn alls óvíst hver niðurstaða þeirra sem verður falið að rannsaka málið verður. Lygum, blekkingum og óheiðarlegum vinnubrögðum hefur verið beitt hingað til og verður örugglega beitt áfram!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan