| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Það er komið að 63. og síðasta leik Liverpool á þessu frábæra keppnistímabili. Úrslitaleikur um Evrópubikarinn er sá síðasti. Hvað er hægt að biðja um meira? Ekki nema þá það að Liverpool vinni þennan síðasta leik og þar með Evrópubikarinn í sjöunda sinn!

Liverpool og Real Madrid brjóta blað í sögunni þegar liðin leika um Evrópubikarinn í þriðja sinn annað kvöld. Aldrei áður hafa sömu tvö liðin ekki leikið þrisvar sinnum til úrslita í keppni þeirra bestu í Evrópu. Liverpool vann 1:0 í París 1981 en Real Madrid hafði betur 3:1 í Kiev 2018. Nú má segja að Liverpool hafi fengið tækifæri til hefnda!


Þessi lið eru mjög áþekk að styrk og þetta keppnistímabil hefur verið sigursælt hjá báðum. Liverpool vann Deildarbikarinn og FA bikarinn og Real Madrid spænsku deildina. Þau hafa þrætt sig alla leiðina í úrslitaleikinn um Evrópubikarinn. Real Madrid hefur unnið hann oftast allra liða eða 13 sinnum. Liverpool hefur unnið bikarinn góða sex sinnum oftast allra enskra liða. 


Liverpool hefur alla sína bestu menn til taks ef frá er talinn Divock Origi. Í dag var endanlega staðfest að Fabino Tavarez og Thiago Alcântara væru tilbúnir í slaginn. Það eru sannarlega góðar fréttir enda báðir lykilmenn og hafa verið frábærir á leiktíðinni. Ekki er ólíklegt að báðir komi inn í byrjunarliðið og verði á miðjunni með Jordan Henderson. Það er ekki alveg á hreinu hvernig vörnin verður skipuð. Reyndar eru bakverðirnir og Virgil svo til sjálfvaldir. Það er spurning hver verður við hliðina á Virgil. Alisson verður að sjálfsögðu í markinu. Sadio Mané og Mohamed Salah verða í sókninni en það er spurning hver verður þriðji maður með þeim. 


Real Madrid er sterkt og ólseigt lið. Liðið hefur komið til baka í þremur síðustu umferðum Meistaradeildarinnar og það á ótrúlegan hátt. Gegn Paris Saint Germain, Chelsea og Manchester City leit út fyrir að Real væri á útleið en það komst í gegn og er komið í úrslitaleikinn. Það verður þrautin þyngri að leggja liðið að velli. 

Í úrslitaleiknum í Kænugarði fór allt úrskeiðis hjá Liverpool sem afvega gat farið. Allt féll fyrir Real. Nú trúi ég að blaðið snúist við. Liverpool liðið er mun reyndara en fyrir fjórum árum. Eins er liðshópurinn miklu breiðari og sterkari. Að auki verða þeir leikmenn Liverpool sem spiluðu í Kiev staðráðnir að láta ekki söguna endurtaka sig. Það gæti haft sitt að segja. Eins á eftir að muna mikið um hvatningu stuðningsmanna Liverpool. Ekki er gert lítið úr stuðningsmönnum Real Madrid en fylgismenn Liverpool hafa, ekki síður en leikmennirnir, verið frábærir á keppnistímabilinu. Ég spái því að Liverpool vinni 2:1. Sadio Mané og Mohamed Salah skora mörkin! París verður rauð annað kvöld. 

YNWA!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan