| Sf. Gutt

Kennslustund á Anfield!


Liverpool tók Manchester United í kennslustund í knattspyrnu á Anfield Road í kvöld! Skemmst er frá því að segja að Liverpool tók Manchester United í gegn í annað sinn á keppnistímabilinu og vann 4:0. Yfirburðir Liverpool voru algjörir og sigurinn hefði vel getað verið stærri. Sigurinn kom Liverpool í efsta sæti deildarinnar!

Liverpool fékk óskabyrjun og skoraði strax eftir fimm mínútur. Sókn Liverpool gekk fram hægri kantinn. Við miðjuna sendi Sadio Mané boltann fram. Trent Alexander-Arnold og Mohamed Salah stungu vörn Manchester United af. Mohamed fór svo framúr Trent og gaf fyrir markið. Við markteigslínuna var Lius Díaz mættur til að smella boltanum í markið. Allt sprakk af fögnuði hjá stuðningsmönnum Liverpool. Eldsnögg sókn og vörn United skilin eftir. 

Tveimur mínútum seinna, á sjöundu mínútu, risu áhorfendur úr sætum og klöppuðu til að sýna Cristiano Ronaldo, leikmanni Manchester United, og fjölskyldu hans samhug og stuðning. Kona hans fæddi tvíbura um páskana pilt og stúlku. Pilturinn lést við fæðinguna. Ronaldo var skiljanlega ekki með félögum sínum í kvöld. Stuðningsmenn Liverpool sungu líka You´ll Never Walk Alone! Falleg stund sem lengi verður minnst. 

Liverpool lék frábærlega en þó var Thiago Alcântara fremstur meðal jafningja. Það var ótrúlegt að fylgjast með því hvernig hann stjórnaði öllu á miðjunni. Sumir telja einn leikmann ekki hafa leikið betur fyrir Liverpool í einum leik í óratíma.

Liverpool bætti í 22. mínútu. Joël Matip sendi boltann fram að vítateignum á Sadio. Hann lyfti boltanum í fyrstu snertingu inn í vítateiginn á Mohamed Salah. Hann lagði boltann fyrir sig og sendi hann svo örugglega neðst út í vinstra hornið. Egyptinn fagnaði vel enda ekki skorað í síðustu leikjum.

Þegar betur var að gáð  hafði Liverpool átt 25 sendingar áður en Mohamed skoraði. Allir leikmenn liðsins utan Virgil van Dijk snertu boltann í þessari sókn. Fegurðin ein! Yfirburðir Liverpool voru algjörir fram að leikhléi þó svo ekki kæmu fleiri mörk.

Manchester United reyndi aðeins að klóra í bakkann í byrjun síðari hálfleiks en án þess að ógna verulega. Hafi einhver hætta verið á að Liverpool myndi ekki vinna sigur þá þurfti ekki að velta slíku meira fyrir sér eftir 68. mínútu. Andrew Robertson vann boltann á miðjum sínum vallarhelmingi. Hann æddi fram völlinn og gaf svo út til vinstri á Luis. Hann lék aðeins lengra og gaf svo fyrir á Sadio Mané og Senegalinn stýrði boltanum viðstöðulaust í markið utan úr vítateignum. 

Varamaðurinn Naby Keita var bókaður á lokakaflanum og sumum fannst að hann hefði átt að vera rekinn út af. Sömu sögu var að segja um Hannibal Mejbri varamann United. Hann var heppinn að ljúka leiknum eftir slæm brot. 

Kennslustund Liverpool lauk fimm mínútum fyrir leikslok. Aftur vann Liverpool boltann. Hann barst til Diogo Jota sem kom inn sem varamaður. Hann stakk boltanum í gegnum vörnina á Mohamed. David de Gea kom út á móti honum við markteiginn en Mohamed lyfti boltanum meistaralega yfir hann og í markið fyrir framan Kop stúkuna. Enn var stórglæsilegu marki fagnað. Litlu munaði svo á lokaandartökunum að Mohamed næði þrennunni en málinu var bjargað. Stórsigri Liverpool var þó ekki forðað!

Liverpool lék stórkostlega. Þó svo leikmenn Manchester United hafi verið lélegir og liðið ekki með skal ekki dregið úr frábærum leik Liverpool. Þetta var einn besti leikur Liverpool á leiktíðinni. Rauði herinn tók Rauðu djöflana í kennslustund í knattspyrnu! Liverpool fær hæstu einkunn en Manchester United fall einkunn! Liverpool fór á toppinn og draumurinn um Fernuna lifir!

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, van Dijk, Robertson, Henderson, Fabinho (Milner 86. mín.), Thiago (Keïta 80. mín.), Salah, Mané og Díaz (Jota 70. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Konaté, Gomez, Jones, Tsimikas og Origi.

Mörk Liverpool: Luis Díaz (5. mín.), Mohamed Salah (22. og 85. mín) og Sadio Mané (68. mín.).

Gult spjald: Naby Keita.

Manchester United: 
de Gea, Lindelöf, Jones (Sancho 45. mín.), Maguire, Wan-Bissaka, Pogba (Lingard 10. mín.), Matic, Dalot, Fernandes, Elanga (Mejbri 84. mín.) og Rashford. Ónotaðir varamenn: Henderson, Bailly, Mata, Telles, McTominay og Ferreyra. 

Gul spjöld: Hannibal Mejbri og Bruno Fernandes. 

Áhorfendur á Anfield Road: 52.686.


Maður leiksins: Thiago Alcântara. Það er langt síðan einn leikmaður Liverpool hefur sýnt annan eins leiks. Hann var stórkostlegur!

Jürgen Klopp: Þetta var mjög góð kvöldstund fyrir Rauðliða. Leikur okkar var í hæsta gæðaflokki og það var mjög mikilvægt. Við byrjuðum leikinn vel og enduðum hann sérstaklega vel. Já, leikur okkar var sannalega í hæsta gæðaflokki. 

Fróðleikur

- Luis Díaz skoraði fjórða mark sitt fyrir Liverpool.

- Markið hans var það 400. sem Liverpool skorar á Anfield á valdatíð Jürgen Klopp.

- Sadio Mané skoraði í 19. sinn á leiktíðinni. 

- Mohamed Salah er kominn með 30 mörk á keppnistímabilinu. 

- Liverpool vann fyrri leik liðanna 0:5 á Old Trafford í haust. Aldrei hefur áður gerst í sögunni að Liverpool hafi skorað níu mörk á móti Manchester United á einu keppnistímabili. 

- Liverpool hefur skorað 13 mörk í síðustu þremur deildarleikjum á móti United. 

- Jordan Henderson spilaði 400. deildarleik sinn á ferlinum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan