| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur er í 16-liða úrslitum FA bikarsins. Norwich mæta í heimsókn á Anfield og hefst leikurinn klukkan 20:15 miðvikudaginn 2. mars.

Leikmenn liðsins hafa ekki haft mikinn tíma til að fagna Deildarbikar sigrinum á sunnudaginn og nú er fókusinn settur á hina elstu og virtustu eins og FA bikarkeppnin er stundum kölluð. Reyndar hefur virðing keppninnar kannski aðeins minnkað undanfarin ár og erfitt er að útskýra hvað veldur nákvæmlega. En sú tilfinning að lyfta bikar eftir sigur í úrslitaleik er engu lík og væntanlega vilja leikmenn liðsins upplifa hana á ný í maí. Jürgen Klopp sat fyrir svörum á blaðamannafundi fyrir leik og fór yfir hverjir eru klárir í slaginn eftir maraþonleik sunnudagsins. Hann sagði að Thiago hafi meiðst aftaní læri í upphitun og ljóst að Spánverjinn verður ekki með. Þá staðfesti Klopp einnig að Kelleher muni ekki vera í markinu, hann sé ekki vanur að spila 120 mínútur og vera hetja leiksins, því sé engin ástæða til að setja meiri pressu á hann. Þá verður Firmino einnig eitthvað lengur frá en að öðru leyti eru aðrir leikmenn klárir í slaginn. Hjá Norwich er töluvert um meiðslavandræði og þá aðallega hjá varnarmönnum. Grant Hanley, fyrirliði þeirra er í leikbanni og fyrrum leikmaður Liverpool, Ozan Kabak er meiddur ásamt Andrew Omobamidele og Adam Idah. Þá eru þeir Max Aarons og Brandon Williams tæpir á að ná sér fyrir leikinn.

Við gerum ráð fyrir því að Klopp geri nokkrar breytingar á liðinu í þessum leik enda er þétt spilað þessar vikurnar. Alisson kemur í markið eins og áður sagði og svo er spurning hvernig vörnin verður. Það má fastlega gera ráð fyrir að Joe Gomez og Kostas Tsimikas komi inní bakvarðastöðurnar og Ibrahima Konaté verður væntanlega með í stað Joel Matip. Hvort að Virgil van Dijk byrji leikinn verður svo að koma í ljós en Joe Gomez gæti auðvitað leyst miðvarðastöðu með Konaté og Trent Alexander-Arnold byrjað. Á miðjunni tippa ég á að Oxlade-Chamberlain og Curtis Jones komi inn í stað Henderson og Keita, James Milner gæti einnig byrjað þá á kostnað Fabinho. Diogo Jota hlýtur að byrja og svo er spurningin hver af Luis Díaz, Sadio Mané og Mohamed Salah fái að setjast á bekkinn. Harvey Elliott gæti mögulega leyst einhvern þeirra af hólmi. Svo eru auðvitað fimm skiptingar leyfðar í leiknum og því alls ekki ólíklegt að Klopp nýti sér þær allar. En þetta kemur alltsaman í ljós og hvernig sem liðinu verður stillt er ljóst að okkar menn eru sigurstranglegri aðilinn í leiknum, en í bikarleik getur auðvitað allt gerst. Ekki er langt síðan að Norwich spiluðu á Anfield og þrátt fyrir að lokatölur hafi verið 3-1 þá var erfitt að brjóta þá á bak aftur.

Liðin hafa sex sinnum mæst í FA bikarnum í sögunni. Fyrsti leikurinn var þann 6. febrúar árið 1909 þar sem Kanarífuglarnir unnu 2-3. Þeir unnu einnig næstu tvær viðureignir liðanna (árin 1937 og 1951) en fyrsti sigur okkar manna kom í janúar árið 1986 í þriðju umferð keppninnar. Lokatölur 5-0 og Liverpool fóru alla leið til sigurs í keppninni þetta ár. Liðin þurftu svo tvo leiki til að útkljá fjórðu umferð keppninnar árið 1990, fyrri leikurinn var markalaus á Carrow Road en Liverpool vann svo 3-1 á Anfield. Það er því töluvert langt síðan að liðin hafa mæst í þessari ágætu keppni.

Spáin að þessu sinni er sú að Liverpool tryggja sig í 8-liða úrslit keppninnar með 2-0 sigri. Fyrra markið kemur snemma í fyrri hálfleik og það seinna sömuleiðis snemma í þeim síðari. Það væri virkilega gaman að sjá liðið fara svo enn lengra í keppninni en við tökum einn leik í einu.

Fróðleikur:

- Fabinho er markahæstur leikmanna liðsins í FA bikarnum með tvö mörk.

- Þeir Milot Rashica og Kenny McLean hafa skorað sitt markið hvor fyrir Norwich í keppninni.

- Norwich hafa sigrað Charlton og Úlfana á leið sinni í fimmtu umferð keppninnar. Báðir sigrarnir voru á útivelli 0-1.

- Sadio Mané gæti spilað sinn 250. leik fyrir félagið í öllum keppnum. Mané hefur skorað 110 mörk í 249 leikjum til þessa.

- Þetta er í fjórða sinn sem Liverpool og Norwich mætast á tímabilinu og hafa okkar menn unnið tvo leiki 3-0 og einn 3-1.

- Vinni Liverpool sigur verður það í fyrsta sinn síðan árið 2015 að liðið kemst í 8-liða úrslit FA bikarsins.

- James Milner gæti spilað sinn 50. FA bikarleik á ferlinum.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan