| Sf. Gutt

Vonbrigði í fyrri leiknum!


Óhætt er að segja að Liverpool hafi valdið vonbrigðum í fyrri undanúrslitaleiknum við Arsenal. Liðin skildu jöfn án marka. Liverpool náði ekki að skora og það þrátt fyrir að vera manni fleiri frá því um miðjan fyrri hálfleik. 

Liverpool stillti upp sínu besta liði. Reyndar vantaði Sadio Mané og Mohamed Salah en það var löngu vitað um fjarveru þeirra vegna Afríkumótsins. Kannski kom það aðeins á óvart hversu liðið var sterkt því ungliðar hafa fengið að spila í keppninni hingað til. En liðið sem var valið sýndi að það á að vinna keppnina ef nokkur kostur er!

Arsenal var meira með boltann allra fyrstu mínúturnar en svo tók Liverpool öll völd. Eftir rúmlega tíu mínútur var Aaron Ramsdale heldur lengi að sparka frá markinu. Jordan Henderson sótti að honum. Aaron sparkaði boltanum í fyrirliðann. Boltinn fór í átt að óvörnu markinu en Aaron náði að bjarga. 

Um miðjan hálfleikinn sneri Liverpool vörn í sókn. Andrew Robertson fékk boltann vinstra megin og sendi langa sendingu fram á Diogo Jota sem bað um boltann. Portúgalinn fékk boltann á svo til auðum sjó rétt utan við vítateiginn en komst ekki lengra því Granit Xhaka  sparkaði hann niður. Dómarinn rauk Svisslendinginn umsvifalaust út af! 

Skiljanlega pakkaði Arsenal í vörn þegar þeir voru orðnir manni færri. Þeim gekk vel að verjast sóknum Liverpool fram að hálfleik. Liverpool náði ekki einu einasta skoti á rammann fram að leikhléi. 

Liverpool fékk færi strax í upphafi síðari hálfleik. Takumi Minamino fékk boltann vinstra megin og skaut að marki en boltinn fór rétt framhjá fjærstönginni. Liverpool sótti látlaust en hvorki gekk né rak. Sóknir Liverpool voru einhæfar og vörn Arsenal stórgóð. 

Það var svo Arsenal sem fékk allt í einu færi á 72. mínútu. Bukayo Saka fékk sendingu fram í vítateig Liverpool. Alisson Becker var vel vakandi, kom út á móti Bukayo, lokaði á hann og bjargaði málinu. Á síðustu mínútu leiksins kom loksins færið sem stuðningsmenn Liverpool höfðu beðið eftir allan leikinn. Varamaðurinn Alex-Oxlade Chamberlain sendi fyrir markið. Aaron kom út úr markinu en úthlaup hans var mislukkað og hann missti af boltanum. Boltinn féll fyrir fætur Takumi en hann mokaði boltanum yfir opið mark af stuttu færi og upp í Kop stúkuna.

Markalaust og mikil vonbrigði. Í raun var þetta einn versti leikur Liverpool hingað til á leiktíðinni og kannski sá versti. Liverpool átti að vinna leikinn og það jafnvel stórt. Liðið var jú manni fleiri í einn og hálfan hálfleik! En seinni leikurinn er eftir og í honum verður allt að ganga upp ef Liverpool á að komast til Wembley! 

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold (N. Williams 76. mín.), Matip (Gomez 76. mín.), van Dijk, Robertson, Henderson, Fabinho (Oxlade-Chamberlain 75. mín.), Milner (Jones 61. mín.), Jota, Firmino og Minamino. Ónotaðir varamenn: Kelleher, Konaté, Tsimikas, Gordon og Morton.

Gult spjald: Andrew Robertson.

Arsenal: Ramsdale, Cédric Soares (Chambers 11. mín.) White, Gabriel, Tierney, Saka (Tavares 81. mín.), Sambi Lokonga, Xhaka, Martinelli, Lacazette og Nketiah (Holding 28. mín.). Ónotaðir varamenn: Leno, Marí, Biereth, Oulad M'hand, Hutchinson og Patino.

Gult spjald: Gabriel Magalhães.

Rautt spjald: Granit Xhaka.

Áhorfendur á Anfield Road: 52.377.

Maður leiksins: Curtis Jones. Varamaðurinn færði líf í sóknarleik Liverpool og ekki veitti af.

Jürgen Klopp: Þetta er tveggja leikja rimma og nú er hálfleikur. Ég hef aldrei hugsað þegar það hefur verið markalaust í hálfleik í leik sem ég hef tekið þátt í að við ættum ekki möguleika.

Fróðleikur

- Þetta er í 18. sinn sem Liverpool leikur til undanúrslita í Deildarbikarnum.

- Aðeins Tottenham Hotspur hefur leikið oftar í undanúrslitum eða 19 sinnum.

- Liverpool og Arsenal leika saman í Deildarbikarnum þriðju leiktíðina í röð. Það hefur ekki áður gerst að Liverpool mæti sama liði þrjár sparktíðar í röð í þessari keppni.

- Arsenal komst áfram á síðustu leiktíð en Liverpool á þeirri á undan. Báðar viðureignir voru útkljáðar í vítaspyrnukeppnum. 

- Alisson Becker lék sinn fyrsta Deildarbikarleik á ferli sínum með Liverpool. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan