| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur er gegn Newcastle United á Anfield. Flautað verður til leiks klukkan 20:00 fimmtudaginn 16. desember.

Eins og vant er byrjum við á meiðslafréttum en það eru aldrei þessu vant nokkuð góðar fréttir af þeim vígstöðvum. Roberto Firmino er kominn til æfinga að fullu og verður í leikmannahópnum fyrir þennan leik. Curtis Jones hefur einnig tekið þátt í æfingum, að hluta til, síðan á þriðjudag þannig að einhver bið verður á því að hann verði tiltækur en vissulega ánægjulegt að hann sé byrjaður að æfa meira. Fjórir leikmenn eru þá enn skráðir meiddir, Nat Phillips, Divock Origi, Adrián og Harvey Elliott. Hjá norðanmönnunum í Newcastle eru tveir meiddir, Federico Fernandez og Paul Dummett og ljóst að þeir verða ekki með.

Jürgen Klopp sagði á blaðamannafundi fyrir leikinn að allir leikmenn hópsins þyrftu að vera klárir í bátana því á næstu þrettán dögum eru fimm leikir. Væntanlega má búast við því að helstu kanónurnar fái frí gegn Leicester í Deildarbikarleik þann 22. desember en liðið má klárlega illa við því að misstíga sig í jólatörninni sem framundan er í deildinni. En fókusinn er ávallt á næsta leik og þó svo að hann virðist kannski vera auðveldur á pappír þá er ekkert gefið í þessari deild. Newcastle eru í fallsæti og munu berjast eins og ljón í þessum leik. Síðan þeir skiptu um stjóra og fengu Eddie Howe í stjórasætið hafa þeir bætt sóknarleikinn en varnarleikurinn er eitthvað sem þarf að lagast og vonandi er Howe ekki með neinar töfralausnir fyrir sína menn á Anfield. Liverpool hafa ekki tapað fyrir Newcastle á Anfield í úrvalsdeildinni síðan árið 1994 en á síðasta tímabili náðu Skjórarnir í 1-1 jafntefli í afskaplega pirrandi leik þar sem jöfnunarmarkið kom rétt áður en flautað var til leiksloka. Leikmenn Liverpool gerðu sig seka um að klúðra urmul dauðafæra í leiknum og jöfnunarmarkið lá því miður í loftinu. Þegar þau úrslit voru ljós töldu margir að möguleikinn á Meistaradeildarsæti væri orðinn að engu, en annað kom á daginn sem betur fer. Liðin gerðu einnig jafntefli á St. James Park á síðasta tímabili og því er klárlega kominn tími til að vinna sigur á Newcastle á ný.

Það þarf kannski ekki að gera ráð fyrir miklum breytingum á byrjunarliðinu en það er ekki ólíklegt að Klopp setji Ibrahima Konaté inn fyrir Joel Matip. Svo má alveg gera ráð fyrir því að Naby Keita komi inn í liðið einnig en ég spái því að Diogo Jota komi inní framlínuna og að Firmino setjist á bekkinn, tilbúinn til að koma inná í seinni hálfleik og ná sér í nokkrar mínútur. Semsagt í mesta lagi þrjár breytingar frá sigrinum á Aston Villa síðastliðinn laugardag.

Spáin að þessu sinni er sú að það Liverpool vinnur leikinn nokkuð örugglega 3-0. Fyrsta markið kemur seint í fyrri hálfleik og næstu tvö frekar snemma í þeim síðari. Þrjú stig í húsi og allt í syngjandi gleði á Anfield !

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur Liverpool manna í deildinni með 14 mörk.

- Callum Wilson hefur skorað mest Newcastle manna í deildinni, sex mörk.

- Virgil van Dijk spilar líklega sinn 150. leik fyrir Liverpool í öllum keppnum.

- Diogo Jota gæti spilað sinn 50. leik fyrir félagið í öllum keppnum.

- Liverpool eru í öðru sæti deildarinnar með 37 stig eftir 16 leiki.

- Newcastle eru í 19. sæti með 10 stig eftir 16 leiki.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan