| Grétar Magnússon

Sætur sigur

Liverpool vann sætan og frábæran 1-4 sigur á nágrönnum sínum í Everton í 14. umferð úrvalsdeildarinnar. Gestirnir hefðu átt að skora fleiri mörk, engu að síður var þetta mjög gott kvöld.

Byrjunarlið Jürgen Klopp kom lítið á óvart og aðeins ein breyting var gerð frá síðasta leik, Joel Matip kom inní vörnina í stað Ibrahima Konaté. Fyrsta færi féll svo einmitt til Matip mjög snemma leiks. Hann fékk frían skalla í teignum eftir hornspyrnu en sneiddi boltann því miður framhjá markinu. Gestirnir voru mikið beittari í upphafi og færin héldu áfram að koma nánast á færibandi. Mohamed Salah fékk frábæra sendingu inná markteig frá vinstri en í stað þess að skalla boltann hoppaði hann upp með fótinn og sendi boltann yfir, dauðafæri alveg klárlega og Egyptanum var sennilega ekki skemmt, þó svo að hann brosti í kampinn. Næsta færi fékk Salah einnig þegar hann skaut í fyrsta en Pickford varði vel á nærstöng.


En ísinn hlaut að brotna fyrr en seinna og á 9. mínútu sá fyrirliðinn til þess að boltinn söng í netinu. Mané og Robertson léku vel saman vinstra megin í teignum og sá síðarnefndi sendi út í teiginn þar sem Henderson þrumaði að marki með vinstri fæti, skotið endaði í netinu alveg út við stöngina og var að sjálfsögðu vel fagnað. Tíu mínútum síðar lagði svo Henderson upp mark fyrir Salah. Boltinn vannst á miðjunni og fyrirliðinn sendi Salah skeiðandi upp hægri kantinn. Varnarmenn náðu ekki til hans og færið var kannski orðið pínu þröngt en það skiptir ekki máli fyrir menn eins og Salah. Hann einfaldlega lyfti boltanum í fallegum boga út við fjærstöng, gríðarlega snyrtileg afgreiðsla og staðan orðin 0-2.

Eftir þetta sóttu heimamenn í sig veðrið og gestirnir slökuðu kannski aðeins um of á klónni. Þegar lítið var eftir af hálfleiknum komst Gray einn í gegn og skaut boltanum undir Alisson sem kom vel út á móti. Allt trylltist á pöllunum við þetta því nú litu stuðningsmenn þeirra bláu þannig á málið að þeir væru að komast inní leikinn. En Liverpool menn stýrðu leiknum áfram og liðin héldu til búningsherbergja í stöðunni 1-2.

Þetta óþarfa stress sem skapaðist hjá okkur stuðningsmönnum við að fá á sig mark hélt áfram að gera vart við sig í upphafi seinni hálfleiks. Reyndar fengu Everton menn ekki nein góð færi og áfram voru færin að detta hinumegin á vellinum. Mané komst í fínt skotfæri í teignum en varnarmaður renndi sér fyrir skotið. Á 64. mínútu gerði Coleman fyrirliði Everton sig svo sekan um slæm mistök þegar hann hugðist taka við boltanum á miðjunni sem aftasti maður. Salah pressaði á hann og náði boltanum, tók á rás í átt að marki og renndi boltanum framhjá Pickford í markið. Mikið sem við stuðningsmenn gátum andað léttar við þetta mark ! Okkar menn bættu svo við einu marki í viðbót, Diogo Jota gerði þá vel í teignum, sneri af sér varnarmann og þrumaði boltanum uppí þaknetið. Geggjuð afgreiðsla. Fleira markvert gerðist nú ekki og öruggum og sætum 1-4 sigri siglt í höfn við mikil fagnaðarlæti í stúku aðkomuliðsins.

Everton: Pickford, Coleman, Godfrey, Keane, Digne, Townsend (Delph, 73. mín.), Doucouré, Allan, Gray (Tosun, 84. mín.), Richarlison, Rondón (Gordon, 59. mín.). Ónotaðir varamenn: Kenny, Begovic, Iwobi, Gbamin, Branthwaite, Dobbin.

Mark Everton: Gray (38. mín.).

Gul spjöld: Digne, Townsend, Allan, Gray.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, van Dijk, Robertson, Henderson (Oxlade-Chamberlain, 83. mín.), Fabinho, Thiago (Milner, 75. mín.), Salah, Jota (Minamino, 88. mín.), Mané. Ónotaðir varamenn: Kelleher, Konaté, Tsimikas, N. Williams, Morton, Origi.

Mörk Liverpool: Jordan Henderson (9. mín.), Mohamed Salah (19. og 64. mín.) og Diogo Jota (79. mín.).

Gul spjöld: van Dijk, Robertson og Thiago.

Maður leiksins: Það er erfitt að horfa framhjá Salah en við gerum það samt í þessu tilfelli því Jordan Henderson var frábær í leiknum. Skoraði fyrsta markið og lagði upp mark númer tvö. Frábær frammistaða !

Jürgen Klopp: ,,Þetta var klárlega besta frammistaða okkar hér síðan ég tók við liðinu. Við höfum átt marga góða leiki hér en aldrei eins góða og í kvöld. Við höfum aldrei verið eins rólegir og staðfastir eins og núna og þess vegna unnum við leikinn, ég er virkilega ánægður með kvöldið."

Fróðleikur:

- Mohamed Salah hefur nú skorað 13 deildarmörk á leiktíðinni.

- Diogo Jota skoraði sitt áttunda deildarmark.

- Jordan Henderson skoraði sitt annað mark í deildinni og sitt fyrsta á ferlinum gegn Everton.

- Liverpool eru í þriðja sæti deildarinnar með 31 stig eftir 14 umferðir.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan