| Sf. Gutt

Hinsta ferð Roger Hunt


Roger Hunt var lagður til hinstu hvílu í fyrradag. Anfield Road var viðkomustaður hans í síðustu ferð hans. Þar spilaði Roger sína bestu leiki, vann titla og varð goðsögn hjá stuðningsmönnum Liverpool. 


Líkbíllinn sem flutti kistu Roger Hunt síðasta spölinn stoppaði fyrir aftan Kop stúkuna. Þar voru nokkrir stuðningsmenn Liverpool komnir til að heiðra Riddarann með lófataki. Falleg og tilfinningaþrungin stund. Það var við hæfi að líkbíllinn skyldi staldra við fyrir aftan Kop stúkuna en Roger skoraði fjölda marka í markið fyrir framan The Kop. Eins fékk Roger aðalstign frá The Kop í kjölfar þess að hann varð heimsmeistari. Stuðningsmenn Liverpool kölluðu hann alla tíð síðan Sir Roger. 

Víða við leið líkbílsins til dómkirkjunnar í Liverpool var fólk samankomið til að votta Roger virðingu. Fjöldi stuðningsmanna Liverpool kom til útfararinnar. Nokkrir fyrrum leikmenn Liverpool voru viðstaddir og má sérstaklega nefna Ian Callaghan og Gordon Milne sem léku með Roger á sínum tíma. Ian Rush sem sló félagsmarkamet Roger Hunt var viðstaddur. Kevin Keegan fyrrum leikmaður Liverpool tók til máls ásamt fleirum. Kveðja var lesin frá Sir Geoff Hurst sem varð heimsmeistari með Roger 1966. Þeir voru miklir vinir. 

Hér má horfa á myndband sem sýnir kveðjustundina á Anfield.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan