| Sf. Gutt

Áfram í Deildarbikarnum


Liverpool komst í kvöld áfram í Deildarbikarnum eftir öruggan 0:3 sigur á Norwich City á Carrow Road. Nú er að vona að þessi sigur sé byrjunin á sigurgöngu í keppninni þessa leiktíðina! 

Níu breytingar voru gerðar á liði Liverpool frá sigrinum á Crystal Palace á laugardaginn og þrír ungliðar spiluðu í fyrsta sinn fyrir félagið áður en yfir lauk. Mestur áhugi var fyrir leik á Kaide Gordon sem varð fimmti yngsti leikmaður í sögu Liverpool. Fyrir leikinn var Jimmy Greaves eins besta framherja í sögu ensku knattspyrnunnar minnst. Hann lést um helgina. Jimmy lék með Chelsea, AC Milan, Tottenham Hotspur, West Ham United og Barnet. Hann lék 57 landsleiki með enska landsliðinu og skoraði 44 mörk. Jimmy er fjórði markahæsti leikmaður landsliðsins. 

Liverpool fékk óskabyrjun og komst yfir á 4. mínútu. Kostas Tsimikas tók horn frá vinstri. Divock Origi stökk manna hæst og skallaði boltann niður fyrir fætur Takumi Minamino. Japaninn sneri sér eldsnöggt við á hægra markteigshorninu og sparkaði boltanum beinustu leið í markið. Heimamenn voru næstum búnir að svara í næstu sókn en tveir leikmenn náðu ekki hættulegri fyrirgjöf frá vinstri. 

Markið gaf Liverpool góða fótfestu og heimamenn voru ráðalitlir en á 42. mínútu fengu þeir víti. Caoimhin Kelleher varði þá fast langskot en hélt ekki boltanum. Eftir frákastið braut Conor Bradley á leikmanni Norwich og dómarinn dæmdi víti. Christos Tzolis skaut vítinu á mitt markið en Caoimhin sá við honum og náði að krækja fæti í boltann þó hann hefði hent sér til hægri. Mikill atgangur fylgdi en Joe Gomez bjargaði málum. Vel varið hjá Íranum. Hann varði þar með hálfleiksforystu Liverpool sem var geysilega mikilvægt!

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleik vel. Conor missti boltann úti við hliðarlínu og í kjölfarið fékk Pierre Lees-Melou gott færi en hann skaut yfir markið. Liverpool refsaði á 50. mínútu. Kostas náði þá frábærri fyrirgjöf frá vinstri rétt áður en boltinn fór aftur fyrir endamörk. Boltinn fór beint á Divock Origi sem skallaði örugglega í markið. Belginn er ekki dauður í öllum æðum. Í næstu sókn komst Divock inn í vítateig eftir góða sendingu Kaide Gordon en skot hans fór framhjá. 

Sigurinn var svo til öruggur eftir þetta en hafi verið einhver vafi þá vék sá vafi tíu mínútum fyrir leikslok. Eftir atgang við hliðarlínuna hægra megin barst boltinn fram að vítateignum. Alex Oxlade-Chamberlain kom boltanum á Takumi sem skoraði snyrtilega frá hægra markteigshorninu. Vel gert hjá þeim japanska sem sannarlega minnti á sig!

Sigur Liverpool var í raun aldrei í hættu eftir að liðið komst yfir í byrjun. Nú er að vona að Liverpool fari alla leið í keppninni og vinni hana. Það er kominn tími á enskan bikartitil!

Mörk Liverpool: Takumi Minamino (4. og 80. mín.) og Divock Origi (50. mín.).

Áhorfendur á Carrow Road: 26.353.


Maður leiksins: Caoimhin Kelleher. Það var ekki mjög mikið að gera í markinu en það var lykilatvik í leiknum þegar hann varði vítaspyrnuna. Hann varði með því hálfleiksforystu Liverpool og lagði gruninn að öruggum sigri. Þar fyrir utan var Caoimhin mjög vel vakandi í markinu. 

Jürgen Klopp: Þetta var allt í fínasta lagi. Við náðum að skora annað og þriðja mark leiksins og stjórna leiknum sem var alveg frábært. Ég verð að segja að krakkarnir spiluðu alveg stórvel. 


Fróðleikur

- Takumi Minamino og Divock Origi skoruðu sín fyrstu mörk á leiktíðnni. 

- Takumi er búinn að skora sex mörk fyrir Liverpool. Öll hefur hann skorað á útivöllum. Það hefur ekki áður gerst í sögu Liverpool að leikmaður hafi skorað sex fyrstu mörk sín á útivöllum. 

- Conor Bradley, Kaide Gordon og Tyler Morton léku í fyrsta sinn fyrir hönd Liverpool.  James Balagizi var í fyrsta sinn í aðalliðshópi. 

- Kaide er nú fimmti yngsti leikmaðurinn í sögu Liverpool. Hann er 16 ára og 351. dags gamall. 

- Conor varð fyrstur leikmanna frá Norður Írlandi til að spila með Liverpool frá árinu 1954.

- Curtis Jones lék sinn 50. leik með Liverpool. Hann hefur skorað sjö mörk. 

- Caoimhin Kelleher lék sinn tíunda leik fyrir hönd Liverpool. Hann hefur haldið fimm sinnum hreinu. 

- Joe Gomez var fyrirliði Liverpool í fyrsta sinn. 

- Ozan Kabak, fyrrum lánsmaður Liverpool, var einn varamanna Norwich. Hann er nú í láni hjá Kanarífuglunum. 

- Liverpool vann í annað sinn 0:3 á Carrow Road á þessu keppnistímabili. Liverpool vann með þeim mun í fyrstu umferð deildarinnar.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan