| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Þá hefst næsta lota eftir fyrsta landsleikjahlé tímabilsins og okkar menn mæta Leeds United á útivelli. Leikurinn verður flautaður á sunnudaginn 12. september klukkan 15:30.

Eins og við höfum greint frá hér á vefnum verða Brasilíumennirnir ekki í banni og verður það að teljast mjög gott mál, maður hefði ekki alveg verið til í þá tilhugsun að vera án Alisson í markinu og Fabinho á miðjunni. Að sama skapi þýðir þetta þó það að Leeds geta notað einn af sínum bestu mönnum en Raphinha má auðvitað spila leikinn einnig.

Við byrjum eins og venjulega á því að fara yfir hvaða leikmenn eru tiltækir í þennan leik. Roberto Firmino er meiddur og sömu sögu er að segja af Takumi Minamino sem meiddist víst í leik með Japan og Neco Williams er víst ennþá meiddur. James Milner er byrjaður að æfa aftur og gæti mögulega verið í hópnum. Virgil van Dijk er klár í slaginn einnig en hann virtist hafa meiðst í leik Hollands og Tyrklands í vikunni en sem betur fer var það ekkert til að hafa áhyggjur af. Naby Keita sneri einnig aftur til Liverpool óskaddaður eftir vesen í Gíneu þar sem borgarastyrjöld virðist vera yfirvofandi. Harvey Elliott er svo klár í slaginn einnig eftir að hafa dregið sig úr landsliðshópi U-21 árs liði Englands vegna meiðsla. Samkvæmt Jürgen Klopp eru aðrir leikmenn sem voru í landsliðsverkefnum í fínu lagi. Það eru því þessir þrír fyrstnefndu sem verða ekki með um helgina.

Hjá Leeds er það víst aðeins Robin Koch sem er frá vegna meiðsla og nýjasti leikmaður þeirra, Daniel James, er klár í slaginn eftir að hafa komið yfir frá Manchester United. Eitthvað var óvíst með Stuart Dallas, Junior Firpo og Mateusz Klich fyrir þennan leik en Marcelo Bielsa, stjóri Leeds, sagði á blaðamannafundi fyrir helgi að þessir þrír væru allir tilbúnir í leikinn.

Liðin mættust síðast á Elland Road þann 19. apríl og enduðu leikar 1-1 eftir að okkar menn komust yfir, heimamenn jöfnuðu skömmu fyrir leikslok. Okkar menn voru í sjötta sæti deildarinnar eftir þennan leik og vonin um meistaradeildarsæti veiktist svolítið en við vitum nú hvernig sú saga endaði. Miðverðir í þessum leik voru Ozan Kabak og Fabinho og það er klárt mál að bæting er á þessum stöðum í næsta leik og gera má ráð fyrir að van Dijk og Matip byrji eins í öðrum leikjum á tímabilinu. Mohamed Salah byrjaði ekki þennan leik en ég tel það nú næsta víst að hann byrji að þessu sinni. Miðjan er alltaf sama spurningamerkið en það má tippa á að Henderson, Fabinho og Keita byrji, kannski vantar meiri sóknarbit í þessa miðju en við sjáum til hvernig Klopp stillir þessu upp.

Spáin að þessu sinni er sú að okkar menn ná að herja fram 1-2 sigur í hörkuleik. Heimamenn komast yfir snemma leiks en það tekst að snúa taflinu við og fagna þrem stigum í leikslok.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah og Diogo Jota eru markahæstir það sem af er með tvö mörk hvor í deildinni.

- Hjá Leeds hefur markaskorunin dreifst jafnt á milli fjögurra leikmanna, Ayling, Bamford, Raphinha og Klich eru allir með eitt mark.

- Liverpool eru í 5. sæti deildarinnar fyrir leikinn með sjö stig eftir þrjá leiki.

- Leeds eru í 15. sæti með tvö stig eftir þrjá leiki.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan