| Grétar Magnússon

Nýr samningur !

Virgil van Dijk hefur skrifað undir nýjan langtíma samning við félagið.

Varnarmaðurinn sterki var keyptur í janúar árið 2018 frá Southampton og hefur síðan þá verið einn besti, ef ekki sá besti, varnarmaður heims. Hann hefur til þessa spilað 130 leiki fyrir félagið, skorað 13 mörk og unnið úrvalsdeildina, meistaradeild Evrópu, ofurbikar Evrópu og heimsmeistaratitil félagsliða.

Til viðbótar við þessa stærstu titla sem í boði eru hefur van Dijk verið valinn leikmaður ársins af leikmannasamtökum Englands, leikmaður ársins hjá UEFA og varnarmaður tímabilsins 2018-19 hjá UEFA. Árið 2019 var hann svo annar í kjörinu um gullknöttinn (Ballon d’Or), sama ár var hann einnig í öðru sæti í vali á besta knattspyrnumanni ársins hjá FIFA.

Hollendingurinn hafði þetta að segja þegar hann var spurður um hvernig honum liði eftir að hafa skrifað undir: ,,Ótrúlega. Þetta er eitthvað til að vera stoltur af, ég og fjölskylda mín erum í skýjunum. Öll sú erfiðisvinna sem við höfum unnið í sameiningu heldur áfram og ég hlakka mikið til framtíðarinnar hjá Liverpool. Ég er ótrúlega ánægður og stoltur."

,,Frá fyrsta degi mínum hér hef ég fundið fyrir svo mikilli trú frá stuðningsmönnunum, liðsfélögunum og öllum sem vinna hjá félaginu að ég geti verið mikilvægur hluti af félaginu. Allt hefur gengið vel, því miður var síðasta tímabil persónulega eitthvað sem ég vill helst gleyma, en ég lærði mikið af mótlætinu. Ég hef notið tímans hér og held áfram að njóta á næstu árum með ykkur öllum."

Endurhæfing van Dijk hefur gengið vel og eftir strangt undirbúningstímabil, þar sem hann tók þátt í þremur æfingaleikjum, segist hann vera tilbúinn í slaginn.

,,Mér líður vel. Auðvitað hef ég bara spilað æfingaleiki en maður kemst í leikform og það er gott að æfa sömu hlutina aftur og aftur. Mér finnst ég vera klár í fyrsta leik og við sjáum hvað stjórinn segir. Við munum berjast fyrir stigunum og vonandi getum við náð góðum úrslitum."

Virgil van Dijk bætist í hóp góðra manna sem hafa framlengt samningum sínum við félagið að undanförnu en þeir Trent Alexander-Arnold, Fabinho og Alisson hafa allir skrifað undir nýjan samning á undanförnum vikum.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan