| Sf. Gutt

Liðið ofar öllu!


Pepijn Lijnders, aðstoðarframkvæmdastjóri Liverpool, segir að liðið og samtakamáttur þess sé alltaf ofar öllu hjá þjálfaraliði Liverpool. Liðsheildin hafi komið Liverpool í fremstu röð og til þess að liðið verði þar áfram verður að halda í þessi gildi. 

,,Þetta snýst, og hefur alltaf gert, um liðið. Liðið er ofar öllu. Liðsheildin er það sem hefur komið okkur þangað sem við erum. Reglan um að liðið sé ofar öllu er ófrávíkjanleg. Það eru alls konar möguleikar þess innan kerfis sem við notum en án þessarar reglu getum við ekkert gert."


,,Við viljum hafa leikmenn í okkar röðum sem eru fullir eldmóðs. Við viljum að leikmenn okkar gangist undir þær skyldur sem fylgja því að skrifa saman undir eins árs samning. Með því meinum við að í eitt ár ætlum við okkur að berjast saman af öllum kröftum til að ná einu takmarki. Við viljum vera liðið sem enginn vill spila á móti. Vera liðið sem getur unnið bestu liðin. Hvorki meira né minna!"






Pep, eins og hann er jafnan kallaður, kom fyrst til Liverpool 2014 en þá var Brendan Rodgers framkvæmdastjóri Liverpool. Hann kom frá Porto en þar hafði hann þjálfað frá 2006. Hann fór til Hollands, heimalands síns, í byrjun árs 2018 til að taka við stjórn NEC en kom aftur til Liverpool um sumarið eftir að liðið komst ekki upp í efstu deild eins og að var stefnt. Pep er talinn geysilega snjall þjálfari og er lykilmaður í þjálfaraliði Liverpool.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan