| Grétar Magnússon

Kaupin á Konaté staðfest

Það hefur eiginlega ekki verið neitt leyndarmál að varnarmaðurinn Ibrahima Konaté sé leikmaður sem Liverpool vilji fá í sínar raðir. Kaupin voru staðfest opinberlega fyrr í dag.

Konaté kemur frá RB Leipzig í Þýskalandi og hefur samþykkt langtíma samning við Liverpool sem gildir frá og með 1. júlí, svo lengi sem að öll leyfi og s.s. atvinnuleyfi verði veitt. Hann hefur nú þegar staðist læknisskoðun.

Konaté er sem stendur með franska U-21 árs landsliðinu sem klárar nú Evrópukeppnina sem hófst fyrir tveim mánuðum síðan, en Frakkar mæta Hollendingum í 8-liða úrslitum á mánudagskvöldið. Hann hafði þetta að segja í sínu fyrsta viðtali við heimasíðu félagsins:

,,Ég er virkilega ánægður með að ganga til liðs við jafn stórt félag og Liverpool er. Þetta eru spennandi tímar fyrir mig og fjölskyldu mína og ég hlakka til að hitta liðsfélaga mína, þjálfarateymið og alla í kringum og byrja nýjan kafla á mínum ferli. Núna einbeiti ég mér að U-21 árs keppninni en þegar henni lýkur veit ég að ég mun ganga til liðs við eitt besta félagslið í heimi og tilfinningin er góð."

,,Ég hef lagt hart að mér í mörg ár til að komast á þennan stað, ég vil nota tækifærið og þakka öllum hjá RB Leipzig, þjálfurunum, liðsfélögunum, starfsfólkinu og sérstaklega stuðningsmönnunum kærlega fyrir mig. Stuðningur ykkar hjálpaði mér að vaxa og verða ekki bara betri leikmaður heldur líka betri manneskja og ég verð ykkur ávallt þakklátur."

Konaté spilaði alls 95 leiki með RB Leipzig á fjórum tímabilum þar og skoraði 4 mörk. Hann spilaði einnig átta leiki með félaginu í Meistaradeildinni. Hann hóf feril sinn í heimalandinu með Sochaux og lék með liðinu alveg þangað til að hann flutti sig yfir til Þýskalands. Landsleikir með U-21 árs liði Frakka eru orðnir 12 talsins.

Við bjóðum Ibrahima Konaté velkominn til félagsins !


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan