| Sf. Gutt

Endað á fimm sigrum í röð!


Liverpool endaði erfitt keppnistímabil með því að vinna fimm leiki í röð. Liverpool vann Crystal Palace 2:0 á Anfield Road í dag og náði þriðja sæti í deildinni og þar með sæti í Meistaradeild á næsta keppnistímabili. Vel viðunandi miðað við hvað hefur gengið á síðustu mánuði! 

Jürgen Klopp tefldi fram sama liði og á móti Burnley og var það í fyrsta sinn á leiktíðinni að liðið var óbreytt milli leikja. Helstu tíðindin hvað varamenn áhrærði voru þau að Jordan Henderson var á bekknum eftir að hafa verið meiddur frá því í febrúar. Það var mikil og góð stemmning á og í kringum Anfield því áhorfendur voru mættir á svæðið í fyrsta skipti á árinu. Þeir létu til til sín heyra strax fyrir leikinn og þjóðsöngurinn var sunginn af krafti áður en flautað var til leiks. Georginio Wijnaldum leiddi Liverpool til leiks sem fyrirliði líkt og í síðustu leikjum. Mál flestra fyrir leik var að þetta myndi vera síðasti leikur hans fyrir Liverpool. 

Liverpool skartaði nýjum aðalbúningum sem hafa verið umdeildir þar sem appelsínugult er í stað hvíta litarins. Hvernig sem á því stóð þá byrjaði Liverpool illa og á 4. mínútu lék Wilfried Zaha sig í færi vinstra megin í markteignum og átti svo skot sem Alisson Becker varði. Færið var þröngt en Alisson var vel á verði. Rétt á eftir fékk Palace aukaspyrnu hægra megin við vítateiginn. Andros Townsend skaut beint á markið en Alisson sló boltann yfir. Enn ógnuðu gestirnir á 14. mínútu. Andros slapp þá aleinn í gegnum um vörn Liverpool. Þegar hann var kominn fram að vítateignum skaut hann en boltinn fór rétt framhjá. Þarna slapp Liverpool vel svo ekki sé meira sagt.  

Það var loks á 20. mínútu sem Liverpool fékk færi. Eftir hornspyrnu frá vinstri fékk Rhys Williams algjört dauðafæri en hann skallaði óvaldaður yfir. Liverpool réði nú gangi mála og þremur mínútum seinna sendi Thiago Alcantara inn fyrir vörn Palace á Mohamed Salah. Egyptinn komst inn í vítateiginn og átti skot sem markmaður Palace varði. Þarna hefði Mohamed átt að skora en færið var reyndar þröngt. Mohamed var markahæstur í deildinni ásamt Harry Kane famherja Tottenham. Báðir höfðu skorað 22 mörk þegar flautað var til leiks.

Eftir rétt rúman hálftíma lagði Georginio upp færi fyrir Sadio Mané en skot hans fór hátt yfir. Yfirburðir Liverpool skiluðu loks marki á 36. mínútu. Andrew Robertson tók hornspyrnu frá vinstri. Rhys skallaði boltann áfram fyrir markið. Þar féll boltinn fyrir fætur Roberto Firmino. Hann náði ekki valdi á boltanum sem hrökk af honum til Sadio Mané sem teygði sig í boltann í markteignum og skóflaði honum í markið. Ísinn brotinn í kulda og vindgusti og því var vel fagnað af stuðningsmönnum Liverpool!

Liverpool lék stærstan hluta af síðustu mínútum hálfleiksins manni færri eftir því Rhys þurfti að fara til búningsherbergja vegna þess að hann fékk skurð á augnabrún. Áður hafði þurft að huga að og búa um skurð á höfði Nathaniel Phillips. Báðir ungliðarnir héldu áfram og sýndu hvað í þeim býr. Magnaðir! Liverpool leiddi í hálfleik. 

Liverpool réði lögum og lofum í síðari hálfleik. Leikmenn liðsins léku skynsamlega og hleyptu gestunum ekki upp með neitt. Fátt var tíðinda þar til Sadio Mané gerði út um leikinn á 74. mínútu. Mohamed og Georginio léku saman fyrir utan vítateiginn. Mohamed sendi svo út til vinstri á Sadio. Hann lagði boltann fyrir sig og skoraði við vítateiginn. Boltinn rakst í varnarmann á leiðinni og kom markverðinum úr jafnvægi en markið var vel þegið því það innsiglaði sigur Liverpool og honum var vel fagnað í leikslok!


Þegar 12 mínútur voru eftir fór Georginio Wijnaldum af velli fyrir James Milner. Hver einasti maður á Anfield stóð á fætur og klappaði fyrir Hollendingnum sem þarna endaði feril sinn hjá Liverpool. Hann er búinn að reynast frábærlega frá því hann kom til Liverpool og hans verður saknað. 

Leicester City og Chelsea töpuðu bæði sínum leikjum og það varð til þess að Liverpool endaði í þriðja sæti deildarinnar. Meistaradeildarsæti í höfn og í raun magnaður árangur ef mið er tekið af öllu mótstreyminu á leiktíðinni. Frábær endasprettur kom liðinu alla leið upp í þriðja sætið. Á páskum var ekki útlit á Meistaradeildarsæti en á hvítasunnu var sæti í deildinni tryggt!

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Phillips, R. Williams, Robertson (Oxlade-Chamberlain 90. mín.), Thiago, Fabinho, Wijnaldum (Milner 78. mín.), Salah, Firmino (Jota 90. mín.) og Mané. Ónotaðir varamenn: Adrián, Henderson, Jones, Tsimikas, Shaqiri og N. Williams.

Mörk Liverpool: Sadio Mané (36. og 74. mín.)

Gul spjöld: Trent Alexander-Arnold og James Milner.

Crystal Palace: Guaita, Ward, Tomkins (Schlupp 58. mín.) Cahill, Mitchell, Kouyaté (Kelly 89. mín.), McCarthy (van Aanholt 88. mín.), Riedewald, Townsend, Zaha og J. Ayew. Ónotaðir varamenn: Butland, Mateta, Clyne og Rak-Sakyi.

Gul spjöld: Jordan Ayew og Jairo Riedewald.

Áhorfendur á Anfield Road: 9.901.

Maður leiksins: Sadio Mané. 

Jürgen Klopp: Okkur langaði í þessa tilfinningu, þennan leik og þetta andrúmsloft. Það er ótrúlegt að enda keppnistímabilið í þriðja sæti. Ég trúi því ekki. Strákarnir eiga mikið hrós skilið. Ég trúi þvi ekki hversu vel hefur gengið upp á síðkastið.

Fróðleikur

- Liverpool endaði í þriðja sæti í deildinni. Manchester City er Englandsmeistari og Manchester United varð í öðru sæti. 

- Sadio Mané skoraði 16 mörk á leiktíðinni. Hann varð annar markahæsti leikmaður Liverpool.

- Mohamed Salah varð markakóngur með 31 mark. Hann varð næst markahæsti leikmaður deildarinnar en Harry Kane skoraði 23 mörk.

- Sadio skoraði í áttunda leiknum í röð á móti Crystal Palace. 

- Aðeins Andrew Robertson og Georginio Wijnaldum spiluðu alla 38 deildarleikina. Andrew spilaði alla frá byrjun til enda. 

- James Milner lék sinn 250. leik með Liverpool. Hann hefur skorað 26 mörk. 

- Georginio Wijnaldum lék síðasta leik sinn fyrir Liverpool. Hann spilaði 237 leiki með Liverpool og skoraði 22 mörk.

- Roy Hodgson, fyrrum framkvæmdastjóri Liverpool, lauk ferli sínum sem framkvæmdastjóri á einum af sínum gömlu heimavöllum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan