| Sf. Gutt

KjaftshöggAftur tapaði Liverpool á Anfield Road fyrir liði í neðri hluta deildarinnar. Annar deildarleikurinn á heimavelli í röð tapaðist þegar Brighton kom í heimsókn og vann 0:1. 

Helstu fréttirnar fyrir leikinn voru þær að Alisson Becker var veikur og gat ekki spilað með. Caoimhin Kelleher kom í markið í stað Brasilíumannsins. Sadio Mané og Fabinho Tavarez voru meiddir. Liverpool byrjaði leikinn vel og á 3. mínútu sendi Jordan Henderson langa sendingu yfir vörn Brighton. Mohamed Salah stakk sér inn fyrir og náði boltanum en skot hans fór hátt yfir. Þetta átti eftir að vera besta færi Liverpool í leiknum!

Liverpool hafði svo sem góð tök á leiknum en leikmenn Brighton börðust eins og ljón og gáfu ekki tommu eftir. Gestirnir voru líka óhræddir við að sækja þegar við átti og um miðjan hálfleikinn skapaðist hætta við mark Liverpool en Dan Burn skaut hátt yfir. Ekkert mark hafði verið skorað þegar flautað var til leikhlés. 

Sama sagan var framan af síðari hálfleik. Liverpool sótti en án þess að skapa sér eitt einasta færi. Brighton komst svo allt í einu yfir á 56. mínútu. Há sending kom fyrir frá hægri. Boltinn var skallaður til baka fyrir markið og þar náði Nathaniel Phillips ekki að hreinsa. Boltinn hrökk til tveggja leikmanna Brighton og á einhvern furðulegan hátt fór boltann af öðrum þeirra, Steven Alzate, og í markið. Furðulegt heppnismark en þau telja öll!

Skiljanlega tók við linnulaus sókn Liverpool en líkt og á móti Burnley um daginn gekk hvorki né rak. Liverpool spilaði reyndar betur en gegn Burnley en ekki mikið. Á 70. mínútu sendi Trent Alexander-Arnold fyrir á Mohamed en skot hans fór framhjá. Fjórum mínútum seinna átti Pascal Groß fast skot upp úr hornspyrnu en Caoimhin varði vel niðri í vinstra horninu. Hann hélt ekki boltanum en Jordan bjargaði. Þegar tíu mínútur voru eftir ógnaði Leandro Trossard í vítateignum en Caoimhin varði aftur vel.

Liverpool sótti til leiksloka en gestirnir vörðu forskot sitt með kjafti og klóm. Liverpool náði einfaldlega ekki að brjóta múr gestanna og það gerðist þriðja heimaleikinn í röð.

Eftir tvo góða útisigra í London kom þetta kjaftshögg í kvöld. Það má nú ljóst vera að það verður þrautin þyngri að verja Englandsmeistaratitilinn. Það dugar þó ekki annað en að halda áfram að reyna! 

Maður leiksins:
Jordan Henderson. Fyrirliðinn spilaði vel eins og venjulega. Því miður var hann ekki á miðjunni eins og hann þyrfti að vera. 

Jürgen Klopp: Við gerðum of mikið af einföldum mistökum. Við höldum áfram að reyna.  Fróðleikur

- Liverpool tapaði öðrum deildarleik sínum í röð á Anfield Road. Það gerðist síðast haustið 2012. 

- Liverpool hefur ekki skorað mark á Anfield frá þriðja degi jóla.

- Liverpool lék síðast þrjá leiki í röð á Anfield án þess að skora í október 1984.

- Þetta var fyrsti deilarsigur Brighton á Anfield frá því 1982. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan