| Sf. Gutt

Sögulegt mark lagði grunn að sigri!


Liverpool lagði dönsku meistarana Midtjylland 2:0 á Anfield Road í kvöld. Leikurinn var með þeim allra dauflegustu en Liverpool gerði það sem til þurfti. Fyrra mark Liverpool var sögulegt í meira lagi! 

Leikjadagskráin er stíf þessar vikurnar og sú staðreynd endurspelaðist í liðsvali Jürgen Klopp. Roberto Firmino, Sadio Mané og Moahmed Salah voru allir á bekknum. Divock Origi, Takumi Minamino og Diogo Jota leiddu framlínuna. 

Evrópukvöldin á Anfield eru víðfræg fyrir einstakt andrúmsloft. Í fyrsta skipti í sögunni var boðið upp á Evrópukvöld á Anfield fyrir tómu húsi. Veiran skæða stjórnar enn ferðinni hvað áhorfendaleysi á Englandi varðar!

Allir bjuggust við öruggum sigri Liverpool og jafnvel stórum. Reyndar sagði Jürgen Klopp fyrir leikinn að danska liðið væri mun betra en margir teldu vera. Danirnir gáfu svo tóninn strax í byrjun. Anders Dreyer komst einn inn í vítateig Liverpool á upphafsmínútunum eftir að hafa fengið langa sendingu fram völlinn. Alisson Becker kom út á móti, hélt ró sinni og varði skotið. Mjög vel varið!

Í hönd fór tíðindaminnsti hálfleikur sem hefur sést á Anfield í manna minnum. Liverpool átti ekki eitt einasta skot á rammann og þeir þrír sem fengu tækifæri til að leiða sóknina nýttu tækifærið illa. Einu tíðindi hálfleiksins voru þau að Fabinho Tavarez bættist á meiðslalistann. Hann tognaði aftan í læri og fór af velli. Rhys Williams kom inn á fyrir Brasilíumanninn og tó sér stöðu við hlið Joe Gomez í hjarta varnarinnar. Ungliðinn átti eftir að spila stórvel!

Georginio Wijnaldum leysti Jordan Henderson af í hálfleik. Liverpool spilaði heldur betur eftir hlé og eftir tíu mínútur lá boltinn allt í einu í marki danska liðsins. Trent Alexander-Arnold spilaði snöggan þríhyrning við Xherdan Shaqiri. Þegar hann fékk boltann frá Svisslendinginum sendi hann þvert fyrir markið á Diogo Jota sem var skyndilega frír fyrir auðu markið. Portúgalinn skoraði af öryggi fyrir framan Kop stúkuna og komst um leið í annála Liverpool. Markið var númer 10.000 frá upphafi vega í sögu Liverpool! Merkilegt augnablik! Skemmtilegt að nýjasti leikmaður Liverpool skyldi vera sá maður sem skoraði þetta sögulega mark.

Sadio Mané og Mohamed Salah komu til leiks efftir klukkutíma og hraðinn í leik Liverpool jókst aðeins. Liverpool hafði vissulega völdin en ekkert mátti út af bera. Þegar tvær mínútur voru eftir tók Trent rispu hægra megin og sendi svo fyrir markið á Roberto Firmino en hann mokaði boltanum yfir úr algjöru dauðafæri. Roberto kom inn á nokkrum mínútum áður. Danirnir fengu tækifæri til að refsa í næstu sókn. Anders, sem fékk færi í byrjun leiksins, lék snyrtilega á Joe í vítateignum og komst einn á móti Alisson. Hann náði að koma boltanum framhjá Alisson en boltinn fór í hliðarnetið. Liverpool slapp vel og refsaði þegar komið var fram í viðbótartíma. 

Trent sendi fram á Mohamed sem slapp inn í vítateiginn þar sem hann var sparkaður niður. Dómarinn dæmdi víti sem Moahmed skoraði sjálfur úr af miklu öryggi. Sigurinn í höfn!

Það var ekki mikil reisn yfir leik Liverpool en liðið gerði það sem til þurfti. Það er í raun ekki ástæða til að kvarta fyrst Englandsmeistararnir eru með fullt hús stiga í Meistaradeildinni!

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Fabinho (R. Williams 30. mín.) Gomez, Robertson, Shaqiri, Henderson (Wijnaldum 45. mín.), Milner, Jota (Firmino 81. mín.), Minamino (Salah 60. mín.) og Origi (Mané 60. mín.) Ónotaðir varamenn: Adrián, Kelleher, Jones, Cain og N. Williams.

Mörk Liverpool: Diogo Jota (55. mín.) og Mohamed Salah, víti, (90. mín.).

Gult spjald: James Milner. 

Midtjylland:  Andersen, Andersson, Sviatchenko, Scholz, Paulinho; Onyenka, Cajuste (Kraev 81. mín.), Dreyer, Sisto (Evander 71. mín.), Mabil (Anderson 65. mín.) og Kaba 6 (Pfeiffer 81). Ónotaðir varamenn: Cools, Thorsen, James, Vibe, Ottesen, Madsen, Dyhr og Isaksen.

Gul spjöld:
 Alexander Scholz, Frank Ogochukwu Onyeka, Jens Cajuste og Paulinho.

Áhorfendur á Anfield Road: Engir.

Maður leiksins: Trent Alexander-Arnold. Eftir misjafna leiki í upphafi leiktíðar sýndi Trent sitt rétta andlit í þessum leik. Þær fáu sóknir Liverpool sem gátu talist góðar komu eftir undirbúning hans. Hann átti stóran þátt í fyrra markinu og eins í vítaspyrnunni sem innsiglaði sigurinn. 

Jürgen Klopp: Þetta var erfiður leikur og það eru mismunandi ástæður fyrir því. Við breyttum liðinu talsvert og það er auðvitað mitt að ákveða slíkt. 

Fróðleikur

- Fyrra mark Liverpool, sem Diogo Jota skoraði, var númer 10.000 í sögu Liverpool í öllum keppnum. 

- Portúgalinn er búinn að skora þrjú mörk á leiktíðinni. Öll hefur hann skorað fyrir framan Kop stúkuna.

- Mohamed Salah skoraði sjöunda mark sitt á leiktíðinni. 

- Trent Alexander-Arnold átti 35. stoðsendingu sína á ferlinum.

- Enginn varnarmaður í Úrvalsdeildinni hefur átt fleiri stoðsendingar. 

- Fabinho Tavarez lék sinn 90. leik með Liverpool. Hann hefur skorað þrjú mörk. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan