| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Fyrsti leikur í riðlakeppni Meistaradeildar er gegn hollenska stórveldinu Ajax Amsterdam á útivelli. Eftir margföld vonbrigði helgarinnar verður fróðlegt að sjá hvernig okkar menn mæta til leiks.

Þetta verður jafnframt fyrsti leikur liðsins eftir meiðsli Virgil van Dijk og fróðlegt verður að sjá hvernig liðið bregst við í hans fjarveru. Það er auk þess áhyggjuefni að Joel Matip er ekki leikfær og því má búast við þeim Joe Gomez og Fabinho í miðvarðastöðunum. Thiago ferðaðist einnig ekki með liðinu til Hollands þar sem hann meiddist gegn Everton eins og kunnugt er. Jürgen Klopp er þó vongóður um að Matip verði klár í slaginn gegn Sheffield United um helgina.

Ajax frá Amsterdam er stórlið á evrópskan mælikvarða eins og flestir vita. Hafa unnið Meistaradeildina (Evrópukeppni meistaraliða eins og keppnin hét á árum áður) fjórum sinnum alls og komist í úrslitaleikinn sex sinnum. Þeir sigruðu keppnina síðast árið 1995 með 1-0 sigri á AC Milan en árið eftir fóru þeir einnig í úrslit og töpuðu þar fyrir Juventus eftir vítaspyrnukeppni. Félagið hefur einnig alið af sér nokkra af bestu knattspyrnumönnum Evrópu í gegnum tíðina og nánast er óþarfi að minnast á einn þann besta í sögunni, Johan Cruyff, sem ekki bara var einn sá besti þegar hann var leikmaður því þjálfaraferill hans var ekkert slor heldur. Eftir mörg ár í Evrópukeppnum þar sem lítið var að frétta af árangri hefur liðið nú náð betri árangri undanfarin ár. Úrslitaleikur í Evrópudeildinni var spilaður gegn ónefndu liði árið 2017 en tapaðist því miður fyrir Ajax. Allir muna svo eftir ævintýri þeirra í Meistaradeildinni í fyrra þegar liðið fór alla leið í undanúrslit og voru svo nokkrum sekúndum frá því að komast í úrslitin en Lucas Moura, leikmaður Tottenham, tryggði þeim sigur.

Eins og oft vill verða með hollensk lið eru bestu leikmenn liðanna keyptir til stærri deilda og eftir Meistaradeildar ævintýrið voru bestu mennirnir farnir annað. Það segir kannski sína sögu að á síðasta tímabili komust þeir ekki upp úr sínum riðli (með Lille, Valencia og Chelsea) og féllu svo út í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar gegn Getafe. Þeir eru ríkjandi meistarar í Hollandi en keppni var reyndar hætt vegna Covid-19 í vetur. Ajax voru efstir í deildinni ásamt AZ Alkmaar, voru með betri markahlutfall en ekkert lið var krýnt meistari enda voru níu umferðir eftir af deildinni þegar ákvörðunin var tekin.

Maður hefði haldið að saga viðureigna þessara liða í Evrópukeppni væri nokkuð mögnuð en sú er ekki raunin. Liðin hafa aðeins mæst tvisvar sinnum áður í opinberum leik, nánar tiltekið árið 1966 í 2. umferð Evrópukeppni meistaraliða. Fyrri leikurinn fór fram í Hollandi og ekki var ljóst fyrr en stuttu fyrir leik að hann færi fram þar sem gríðarlega mikil þoka var í Amsterdam. Bill Shankly var stjóri Liverpool á þessum tíma og ansi skemmtileg minning hans frá leiknum má finna í ævisögu hans (heimild tekin af lfchistory.net.)

,,Ajax voru með sitt lið í mótun á þessum tíma og voru ekki komnir á þann stall sem þeir náðu síðar. Við mættum þeim fyrst í Amsterdam en leikurinn hefði aldrei átt að fara fram. Þokan var hræðilega þétt. Við áttum leik við Manchester United á Old Trafford laugardaginn þar á eftir og það var mikilvægur leikur fyrir okkur. Við vildum ekki lenda í töf í Amsterdam, spila á fimmtudegi og komast ekki til Englands fyrr en daginn eftir. En ákvörðunin um að spila leikinn var ekki okkar. Leo Horne, eftirlitsmaður UEFA bar ábyrgð á því. Dómarinn, sem var ítalskur sagði að ef hægt væri að sjá á milli marka þá mætti leikurinn fara fram, annars ekki. En Leo Horne sagði að í Hollandi væri nóg að sjá frá miðlínu að marki og að leikurinn færi fram."

,,Við vorum 2-0 undir og ég fór inná völlinn til að tala við Willie Stevenson og Geoff Strong, leikurinn var ennþá í gangi og ég gekk um í þokunni. Ég sagði við Willie og Geoff að þetta væri nú bara fyrri leikurinn og það væri annar leikur í Liverpool, ekki fara því að gefa fleiri mörk, töpum þessu 2-0 og allt í góðu með það, takið því rólega. Ég ræddi við fleiri leikmenn inná vellinum og labbaði svo aftur útaf. Dómarinn sá mig aldrei !"

Leikurinn endaði með 5-1 sigri Ajax og leikurinn á Anfield endaði með jafntefli 2-2 sem þýddi auðvitað að okkar menn höfðu þar með lokið keppni þetta árið. Fleiri leiki hafa þessi lið ekki leikið í Evrópu í gegnum árin sem er nokkuð mögnuð staðreynd.

En hvað sem því líður er spennan mikil fyrir leik kvöldsins. Meistaradeildin hefur ávallt sinn sjarma í hjörtum okkar stuðningsmanna og spennandi verður að sjá hvernig okkar menn mæta til leiks. Spáin að þessu sinni er sú að það tekst að knýja fram sigur, 1-2 verða lokatölur eftir spennandi lokamínútúr.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah spilar að öllum líkindum sinn 160. leik fyrir félagið í öllum keppnum.

- Salah var að sjálfsögðu markahæstur leikmanna í Evrópu á síðasta tímabili með fjögur mörk.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan