| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Eftir langa bið er komið að næsta leik og það er heldur betur stórleikur. Okkar menn rölta sér yfir Stanley Park og mæta Everton á Goodison Park klukkan 11:30 laugardaginn 17. október.

Taugarnar eru ávallt þandar fyrir þessa leiki og staðan sem er uppi núna er eitthvað sem við eigum ekki að venjast. Þó stutt sé liðið á tímabilið hafa Everton ekki tapað leik og sitja í efsta sæti deildarinnar. Liverpool hafa níu stig eftir 4 leiki og erfitt er að gleyma þessu 7-2 tapi fyrir Aston Villa í síðasta leik. Til að gera okkur svo enn taugaóstyrkari verður Adrián á milli stanganna í marki Liverpool þar sem Alisson er enn meiddur. Varnarleikurinn hefur verið slakur það sem af er tímabils og ekki eykur það á traustið að hafa kallgreyið hann Adrián sem aftasta mann.

En Jürgen Klopp kann vel þá list að mótivera sína menn og hann vill alveg ábyggilega ekki láta svona úrslit eins og á Villa Park líta dagsins ljós á ný. Varla þarf heldur að minna leikmenn á það að svona er ekki boðlegt. Hvað sem því líður þá fór Klopp yfir stöðu sinna manna fyrir leikinn á blaðamannafundi í gær. Byrjum á þeim sem eru pottþétt ekki með, Alisson (reyndar voru jákvæðar fréttir af endurhæfingu hans), Oxlade-Chamberlain, Keita (kórónavírus) og Tsimikas. Þá hafa þeir Sadio Mané og Thiago verið að æfa vel að undanförnu eftir að hafa klárað einangrun vegna kórónuveirunnar. Jordan Henderson spilaði með Englendingum í landsleikjahlénu og hlýtur að vera klár og þá hefur Joel Matip einnig náð sér af sínum meiðslum. Það er því gríðarlega mikilvægt að þeir séu klárir í slaginn. Hjá þeim bláu eru ansi margir skráðir á meiðslalista en þeirra helstu kanónur eru klárar í slaginn, einhver smávægileg meiðsli hafa verið að hrjá Yerry Mina, Seamus Coleman, Lucas Digne, Allan og Andre Gomes en þeir verða allir tilbúnir í leikinn samkvæmt því sem Carlo Ancelotti sagði á sínum blaðamannafundi.

Það hefur verið afskaplega lítið að frétta af síðustu leikjum þessara liða í Guttagarði undanfarin ár. Af síðustu sex leikjum liðanna þar hafa fjórir þeirra endað markalausir, einn endað með 1-1 jafntefli (Brendan Rodgers rekinn eftir leik) og einn með 0-1 sigri okkar manna (Sadio Mané með sigurmark í uppbótartíma í desember 2016). Síðasti sigur Everton á heimavelli var árið 2010 og er það svolítið óþægileg staðreynd að það var einmitt þann 17. október það ár. Vonandi endurtekur sagan sig ekki núna, lokatölur voru 2-0 en þess má reyndar geta að stjóri þennan dag var Roy nokkur Hodgson.

Spáin að þessu sinni er ekki létt verkefni. Þetta verður sennilega erfiðasti leikur gegn Everton í ansi langan tíma, eins og áður sagði er mjög langt síðan stressið var svona mikið fyrir leik við nágrannana. Carlo Ancelotti er einn af bestu þjálfurum í heimi og hann hefur komið mjög góðu skipulagi á sitt lið. Okkar menn hafa hikstað það sem af er og vörnin verið lek. En það er óskandi að unnið hefur verið í þeim málum á æfingasvæðinu þó svo það hafi vantað marga leikmenn vegna landsleikja verkefna. Enn eitt jafnteflið mun líta dagsins ljós en nú verður skorað, lokatölur 2-2 og að sjálfsögðu verður einhver dramatík, annað hvort liðið mun jafna metin á lokamínútunum, sennilega eftir að hafa misst mann af velli með rautt spjald.

Fróðleikur:

- Þetta verður í 237. skipti sem liðin mætast.

- Liverpool eru í 5. sæti deildarinnar með 9 stig eftir fjóra leiki.

- Everton sitja á toppnum með 12 stig eftir fjóra leiki.

- Mohamed Salah er markahæstur það sem af er með fimm mörk og öll hafa komið í deildinni.

- Hjá Everton hefur Dominic Calvert-Lewin skorað sex mörk í deildinni það sem af er.

- Roberto Firmino gæti spilað sinn 250. leik fyrir félagið.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan