| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur okkar manna er gegn Úlfunum á útivelli. Leikurinn hefst kl. 20:00 í kvöld, fimmtudagskvöldið 23. janúar.

Úlfarnir eru alltaf erfiðir heim að sækja og skemmst er að minnast frækins 3-2 sigurs þeirra á Manchester City í lok desember. Frammistaða þeirra í næsta leik, gegn Liverpool á Anfield, var einnig góð og hefðu þeir með smá heppni getað náð jafntefli. Þeir hafa þó "aðeins" unnið fjóra heimaleiki af 11 á tímabilinu en hafa gert fimm jafntefli og tapað tveim leikjum. Leikjaálagið hefur verið mikið á liðið alveg síðan í sumar en þeir spiluðu í undankeppni Evrópudeildarinnar og komust þar í riðlakeppnina þar sem þeir gerðu vel og komust áfram í 32-liða úrslit. Okkar menn hafa einnig spilað marga leiki það sem af er en Úlfarnir hafa þó leikið einum leik meira og verður þetta leikur númer 40 hjá þeim á tímabilinu.

Þar sem næsti leikur Jürgen Klopp og hans manna er í bikarnum (Shrewsbury á útivelli) má búast við því að helstu kanónur verði hvíldar í þeim leik. Byrjunarliðið gegn Úlfunum ætti því að vera eins sterkt og mögulegt er. Það er ekki ólíklegt að Fabinho komi inn á miðjuna, þá líklega í stað Oxlade-Chamberlain. Vörnin verður líklega óbreytt þó svo að Matip sé heill heilsu og Lovren einnig byrjaður að æfa á fullu. Sú staðreynd að liðið hefur haldið hreinu í síðustu sjö deildarleikjum ætti að vera nóg til að Klopp breyti engu í varnar uppstillingunni. Framlínan verður svo líklega skipuð þeim sömu og vanalega. Á sjúkralistanum hjá okkar mönnum eru sem fyrr þeir Milner, Keita og Clyne og sennilega kemur þessi leikur of snemma fyrir Shaqiri einnig en hann er óðum að ná sér af enn einum meiðslunum. Staða hans hjá liðinu hefur mikið verið rædd að undanförnu og e-r lið í Evrópu hafa óskað eftir því að fá hann á láni. Klopp sagði hinsvegar að það kæmi ekki til greina og benti meðal annars á þá staðreynd að oftar en ekki hafa ungir leikmenn verið á bekknum í deildarleikjum og því mætti hópurinn alls ekki vera minni. Hjá Úlfunum eru þrír leikmenn á meiðslalistanum, Boly, Jota og Vinagre, af þessum þrem er talið að Jota eigi mestan séns á því að vera með en þó ólíklegt að svo stöddu.

Liverpool hefur ekki tapað á Molineux leikvanginum síðan árið 1981 en deildarleikirnir á þessum velli síðan þá eru reyndar ekki nema sjö talsins. Okkar menn hafa unnið síðustu þrjá leiki þarna í deild en í janúar í fyrra náðu Úlfarnir að slá Liverpool út úr FA bikarnum með 2-1 sigri. Það er alveg ljóst að leikurinn verður mjög erfiður fyrir Liverpool og Úlfarnir munu væntanlega fá aukið sjálfstraust ef þeir horfa aftur á leik liðanna á Anfield í lok síðasta árs. Nú, þegar farið er að glitta í lok tímabilsins ímynda ég mér einnig að mörg lið horfi til þess að vera fyrsta lið deildarinnar til að sigra Liverpool. Það hlýtur samt einnig að vera óhugnalegt að horfa á Liverpool sem mótherji, vitandi það að liðið hefur bara tapað tveim stigum allt tímabilið og til að bæta gráu ofan á svart hversu erfitt er að skora mark gegn þeim undanfarnar vikur.

Spáin að þessu sinni er sú að okkar menn berjast fyrir 1-2 sigri í hörku leik. Úlfarnir eru helst þekktir fyrir það að skora mörk í seinni hálfleik leikja og þeir jafna metin í seinni hálfleik en sigurmark okkar manna kemur á síðustu tíu mínútunum.

Fróðleikur:

- Sadio Mané og Mohamed Salah eru markahæstir Liverpool í deild með 11 mörk hvor.

- Raúl Jiménez er markahæstur hjá Úlfunum með 10 mörk í deildinni.

- Roberto Firmino spilar líklega deildarleik númer 160 fyrir Liverpool.

- Liverpool er sem fyrr í efsta sæti deildarinnar með 64 stig eftir 22 leiki.

- Úlfarnir sitja í 7. sæti með 34 stig eftir 23 leiki.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan