| Grétar Magnússon

Jafntefli gegn Napoli

Okkar mönnum tókst ekki að tryggja sig áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar gegn Napoli. Lokatölur voru 1-1 í frekar bragðdaufum leik.

Byrjunarlið Jürgen Klopp kom ekki mikið á óvart. Joe Gomez fékk sæti í liðinu í hægri bakverði og Trent Alexander-Arnold settist á bekkinn enda var ljóst að einhverntímann þyrfti hann á smá hvíld að halda. Með Gomez í vörninni voru svo þeir Lovren, van Dijk og Robertson ásamt Alisson í markinu að sjálfsögðu. Miðjan var sannkölluð iðnaðarmiðja með Henderson, Fabinho og Milner og frammi voru eins og vanalega Mané, Firmino og Salah.

Það var nú nokkuð ljóst snemma leiks að Napoli voru mættir til þess að verja stigið sem þeir höfðu í hendi. Það var ekki mikið að frétta fyrr en á 18. mínútu þegar Fabinho þurfti að fara af leikvelli vegna ökklameiðsla. Ekki gott að missa þennan mikilvæga leikmann í meiðsli á þessum tímapunkti en Gini Wijnaldum kom inná í hans stað. Um miðjan hálfleikinn kom svo fyrsta mark leiksins og það var gestanna. Virgil van Dijk og Dries Mertens fóru upp í skallabolta á miðjunni sem van Dijk vann auðvitað en hann lenti í einhverju samstuði við Mertens og hélt ekki áfram. Napoli unnu boltann, Mertens tók á rás upp í svæðið sem var laust í fjarveru van Dijk, fékk sendingu innfyrir og lék inní teiginn hægra megin. Dejan Lovren reyndi að þrengja skotfærið sem var þröngt fyrir en náði ekki í tæka tíð áður en Mertens skaut hnitmiðuðu skoti framhjá Alisson og í fjærhornið. Sjónvarpsdómgæsla skoðaði atvikið tvisvar sinnum og staðfesti svo markið, Mertens var ekki rangstæður og ekki þótti ástæða til að dæma brot þegar van Dijk meiddist. Sem betur fer gat Hollendingurinn haldið leik áfram. Það hefði ekki verið falleg tilhugsun að missa bæði Fabinho og van Dijk af velli vegna meiðsla í svo mikilvægum leik, svo ekki sé nú talað um leikjaálagið sem framundan er.

Markið vakti leikmenn Liverpool ekki að ráði og hæg spilamennska einkenndi leik liðsins. Ítalirnir voru líka allir fyrir aftan bolta og vörðust þétt og skipulega. Menn náðu þó að koma boltanum á markið en ekki hægt að segja að um nein dauðafæri hafi verið að ræða. Staðan í hálfleik var 0-1 fyrir Napoli og ljóst að Klopp þyrfti að gera einhverjar áherslubreytingar í seinni hálfleik.

Byrjun seinni hálfleik benti þó ekki til þess að Liverpool þyrfti nauðsynlega að jafna leikinn því spilamennskan var áfram frekar hæg og ómarkviss. Á 55. mínútu kom þó ágætt færi eftir mistök Meret í markinu, hann hélt ekki boltanum eftir fyrirgjöf og Firmino náði að koma boltanum í átt að marki en þar bjargaði Koulibaly á línu. Alex Oxlade-Chamberlain kom inná á skömmu síðar fyrir Gomez sem þýddi að Henderson fór niður í bakvörðinn. Áfram héldu Liverpool menn að reyna að skapa eitthvað og það birti aðeins til í leik liðsins. Salah átti skot úr teignum sem fór beint í hendurnar á Meret og Firmino skallaði framhjá eftir fyrirgjöf. Á 65. mínútu tókst svo loksins að koma boltanum í netið þegar Milner tók hornspyrnu sem fór út í teiginn. Þar var Lovren mættur og skallaði boltann fallega í markið. Napoli menn vildu fá dæmt brot á Lovren þegar hann hoppaði upp í baráttunni við Mertens en eigum við ekki að segja að Karma hafi þar bitið Belgann til baka fyrir atvikið í marki Napoli í fyrri hálfleik.

Margir héldu nú að sigur myndi nást en Ítalirnir þéttu raðirnar enn frekar og ekki tókst að bæta við marki. Lokatölur 1-1 og ljóst að okkar menn fara til Salzburg í lokaleik riðilsins og mega ekki tapa þar, ætli þeir sér að fara áfram í 16-liða úrslit.

Liverpool: Alisson, Gomez (Oxlade-Chamberlain, 57. mín.), Lovren, van Dijk, Robertson, Henderson, Fabinho (Wijnaldum, 19. mín.), Milner (Alexander-Arnold, 78. mín.), Salah, Firmino, Mané. Ónotaðir varamenn: Adrian, Lallana, Shaqiri, Origi.

Mark Liverpool: Dejan Lovren (65. mín.).

Gult spjald: Andy Robertson.

Napoli: Meret, Maksimovic, Manolas, Kouliably, Mário Rui, Di Lorenzo, Marques Loreiro, Ruiz, Zielinski (Younes, 85. mín.), Mertens (Elmas, 81. mín.), Lozano (Llorente, 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Ospina, Callejón, Luperto, Gaetano.

Mark Napoli: Dries Mertens (21. mín.).

Gul spjöld: Koulibaly og Marques Loreiro.

Áhorfendur á Anfield: 52.128.

Maður leiksins: Gefum Dejan Lovren nafnbótina að þessu sinni fyrir jöfnumarmark sitt. Króatinn hefur komið sterkur inn í fjarveru Matip og staðið sig vel sem er alltsaman mjög gott mál.

Jürgen Klopp: ,,Það sem skapaði okkur flestu vandamálin var að þeir skoruðu mark og gátu svo varist mjög aftarlega eftir það. Napoli spila vanalega mun öðruvísi leik og eru meira sóknarsinnaðir. Í kvöld voru þeir mjög varnarsinnaðir og treystu á skyndisóknir og það er aldrei auðvelt og þegar gott lið eins og Napoli gerir það verða hlutirnir mjög erfiðir."

Fróðleikur:

- Dejan Lovren skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu.

- Liverpool hefur ekki enn tekist að halda markinu hreinu á Anfield það sem af er tímabili.

- Alls hafa 16 leikmenn liðsins komist á blað í markaskorun það sem af er tímabils.

- Liverpool hafði fyrir leikinn unnið 17 síðustu leiki á Anfield í öllum keppnum. Félagsmetið er 19 og er frá árinu 1972.

- Eftir leiki kvöldsins sitja okkar menn í efsta sæti riðilsins með 10 stig, Napoli eru í 2. með 9 stig, Salzburg í 3. með 7 stig og Genk reka lestina með 1 stig.

- Síðasti leikur okkar manna í riðlinum er á útivelli gegn RB Salzburg, þriðjudaginn 10. desember og hefst hann klukkan 17:55.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan