| Sf. Gutt

Sigur í Sheffield

Liverpool vann harðsóttan sigur í Sheffield í dag þegar liðið lagði Sheffield United að velli 0:1. Liverpool er ennþá með fullt hús stiga í efsta sæti deildarinnar.

Að sjálfsögðu var liðinu sem spilaði í Deildarbikarnum skipt út og á Bramall Lane var stillt upp sterkasta liði sem völ var á. Það var strax ljóst að heimamenn myndu gefa sig allan í leikinn. Þeir börðust út um allan völl og var barátta þeirr til fyrirmyndar. 

Fá færi sköpuðust en eftir rúman hálftíma sendi Virgil van Dikj langa sendingu fram völlinn. Sadio Mané fékk boltann á auðum sjó en skottilraun hans var misheppnuð og enginn hætta skapaðist. Rétt fyrir leikhlé náði Mohamed Salah boltanum eftir mistök heimamanna. Hann gaf á Roberto Firmino sem sendi á Sadio en fast skot hans small í stönginni. Þar eins og á undan hefði hann átt að skora. Markalaust í hálfleik. 

Síðari hálfleikur var eins og sá fyrri. Liverpool hafði undirtökin en gekk illa að skapa sér opin færi. Heimamenn náðu heldur ekki að ógna marki Liverpool að ráði. Þó kom John Fleck sér í gott skotfæri í vítateignum um miðjan hálfleikinn en Andrew Robertson henti sér fyrir skot hans og bjargaði frábærlega. Divock Origi kom inn á fyrir Jordan Henderson á 63. mínútu og hann færði líf í sóknina. 

Á 70. mínútu kom allt í einu mark. Fyrirgjöf Divock frá vinstri var skölluð út fyrir vítateig Sheffield. Boltinn fór beint til Georginio Wijnaldum sem tók hann viðstöðulaust á lofti og skaut að marki. Boltinn fór beint á Dean Henderson í markinu en á óskiljanlegan hátt missti hann boltann á milli fóta sér og boltinn rúllaði yfir marklínuna. Ótrúlegt en vel þegið mark!

Þegar 12 mínútur voru eftir komst Mohamed einn inn fyrir. Hann lék inn í vítateiginn en Dean bætti upp fyrir mistökin og varði vel. En Liverpool náði að verja markið sem eftir var leiksins og mikilvægur sigur náðist í höfn.

Liverpool lék ekki vel í leiknum og mótspyrna heimamanna var hörð. En liðið sýndi seglu og náði sitgunum þremur. Það skipti öllu þegar upp var staðið!

Sheffield United: Henderson; Basham, Egan, O'Connell; Baldock, Lundstram, Norwood (Clarke 72. mín.), Fleck, Stevens; Robinson (Mousset 60. mín.) og McBurnie. Ónotaðir varamenn: Luke Freeman, Jagielka, Osborn, Moore og Besic.

Gult spjald: Jack O'Connell.

Liverpool: Adrian; Alexander-Arnold, Matip, Van Dijk, Robertson; Wijnaldum, Henderson (Origi 63. mín.), Fabinho; Salah, Firmino og Mane (Oxlade-Chamberlain 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Lovren, Milner, Gomez og Lallana.

Mark Liverpool:  Georginio Wijnaldum (70. mín.).

Gult spjald: Adrián San Miguel.

Áhorfendur á Bramall Lane:
 31.774.

Maður leiksins: Joël Matip. Miðvörðurinn er búinn að vera einn besti leikmaður Liverpool á keppnistímabilinu. Hann var frábær í vörninni við hliðina á Virgil van Dijk í hjarta varnarinnar. 

Jürgen Klopp:
Mér fannst við ekki verðskulda að tapa en jafntefli hefði getað átt sér stað ef við hefðum ekki nýtt færin. En markið þýddi að við fengum þrjú stig og þess vegna er ég auðvitað býsna ánægður núna.

Fróðleikur

- Georginio Wijnaldum skoraði fyrsta mark sitt á leiktíðinni. 

- Liverpool vann sjöunda deildarleik sinn í röð frá upphafi leiktíðarinnar.

- Liðið hefur nú unnið 16 deildarleiki í röð ef taldir eru leikir með frá síðustu leiktíð. Það er metbæting frá síðasta leik. 

- Sigurinn var sá áttundi í röð í deildinni á útivelli. Það er metbæting frá síðasta leik. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan