| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool fær Newcastle í heimsókn í fyrsta leik laugardagsins. Liverpool hefur byrjað tímabilið frábærlega og heldur vonandi uppteknum hætti eftir landsleikjahléið. 

Ég verð að viðurkenna að ég man ekki hvenær við töpuðum síðast fyrir Newcastle á Anfield, en síðasti tapleikurinn gegn Newcastle í deildinni kom á St. James´Park í desember 2015. En eins og ég klifa stöðugt á skiptir sagan engu máli þegar á hólminn er komið og alveg öruggt mál að leikurinn á laugardaginn verður erfiður. 

Newcastle er aðeins að rétta úr kútnum eftir erfiða byrjun og er skriðið upp í 14. sæti. Liðið vann baráttusigur á Tottenham í þar síðustu umferð, þannig að það er til alls líklegt. Steve Bruce þráir fátt heitar en að leggja Liverpool að velli og verður örugglega ekki í vandræðum með að brýna sína menn til dáða. 

Það eru dálítil meiðslavandræði á Newcastle, meðal annars er Andy Carroll meiddur sem kemur reyndar ekkert ofboðslega á óvart. Hjá okkar mönnum er staðan hinsvegar óvenju góð, það er enginn merkilegur leikmaður meiddur nema Alisson. Keita er að vísu tæpur, en telst því miður ekki með mikilvægustu mönnum okkar ennþá. Vonandi að hann fari bráðum að láta til sín taka, nóg eru gæðin svo mikið er víst.

Jürgen Klopp hefur gengið nokkuð vel að eyða umtalinu um fýlukast Mané í síðasta leik og báðir hafa lýst því yfir að allt sé um það bil í himnalagi. Sem er gott. Klopp virðist vera einstaklega laginn við að halda leikmönnum sínum sæmilega sáttum, sem er auðvitað meira en að segja það. Sérstaklega þegar breiddin er orðin jafn góð og raun ber vitni. Það er vonandi að allir séu sáttir og glaðir og liðið haldi áfram á sigurbraut. 

Ég á einhvernveginn ekki von á því að Klopp geri breytingar á liðinu frá síðasta leik, hann hefur sagt að meðan álagið er ekki orðið óbærilegt þá sé ekkert að því að láta menn spila nokkuð þétt. Haustdagskráin er að vísu að þéttast, Liverpool leikur 7 leiki á næstu 3 vikum þannig að það er öruggt að Klopp fer bráðum að rótera meira. En ég á alls ekki von á því að hann byrji á því strax, enda mikilvægt að byrja vel eftir landsleikjapásuna. 

Liverpool er á toppnum með fullt hús stiga og lífið leikur við okkur. Vonandi verður leikurinn á laugardaginn ekki eitthvað bévítans klúður, en maður veit vitanlega aldrei. Bananahýðin geta leynst víða. Newcastle spilar örugglega mjög stífa vörn, en ef eitthvað lið á að geta ráðið við svoleiðis rútubílastemningu þá er það Liverpool. 

Ég veit ekkert hvernig maður á að spá í spilin fyrir svona leik. Ef við skorum snemma þá getur leikurinn orðið þægilegur, en svo getur þetta orðið bölvað basl. Ætli maður spái ekki bara 0-0 til að jinxa nú ekkert. 

YNWA
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan