| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Jólatörnin hefst á erfiðum útileik við Úlfana í kvöld, föstudagskvöldið 21. desember og verður flautað til leiks klukkan 20:00.

Það er ljóst að Jürgen Klopp mun breyta liðinu fyrir þennan leik enda eru margir leikir framundan. Vörnin velur sig reyndar að mestu leyti sjálf þar sem þeir Trent Alexander-Arnold, Joe Gomez og Joel Matip eru allir frá vegna meiðsla. Ég býst við óbreyttri varnarlínu frá sigrinum góða gegn United og Klopp vill líklega frekar setja t.d. Alberto Moreno inn í liðið gegn Newcastle heima annan dag jóla. James Milner ætti að vera búinn að ná sér góðum af smávægilegum meiðslum sem héldu honum frá gegn United og líklega kemur hann inná miðjuna. Gini Wijnaldum gæti svo alveg þegið smá hvíld og fyrirliðinn Jordan Henderson kemur þá inn í byrjunarliðið nú. Hvort það verði svo Naby Keita eða Fabinho sem haldi sínu sæti skal ósagt látið en fremstu þrír verða svo þeir Mané, Firmino og Salah. Xerdan Shaqiri á svo sannarlega tilkall til þess að byrja en ég held að Klopp sé frekar að hugsa um að nota hann gegn Newcastle.

Heimamenn í Wolves hafa verið á góðu skriði undanfarið og unnið síðustu þrjá leiki sína. Hjá þeim er aðeins einn leikmaður á meiðslalista, Diogo Jota en stjóri Úlfanna staðfesti það á blaðamannafundi fyrir leikinn að hann verður ekki með. Úlfarnir hafa svo það sem af er tímabils veitt hinum svokölluðu stóru liðum deildarinnar skráveifu en þeir hafa gert jafntefli heima við Manchester City, jafntefli úti við Manchester United og Arsenal og sigruðu svo Chelsea á heimavelli fyrr í þessum mánuði. Einnig voru þeir nálægt því að gera jafntefli við Tottenham á heimavelli, lentu 0-3 undir en minnkuðu muninn í eitt mark og voru ekki langt frá því að skora jöfnunarmarkið. Það er því ljóst að mjög erfiður leikur er fyrir höndum í kvöld.

Til að krydda þetta aðeins steig svo Dejan Lovren fram og sagði að Liverpool gæti vel komist í gegnum tímabilið taplaust. Svona yfirlýsingar hafa yfirleitt komið í bakið á mönnum og Lovren hefur oft komið fram með yfirlýsingar í ætt við þessa og fengið það beint í bakið eftirá. Við vonum að þessi yfirlýsing sé gleymd og grafin en hún var svo sannarlega ótímabær.

Viðureignir þessara liða á heimavelli Úlfanna eru ekki margar í Úrvalsdeild, nánar tiltekið fjórar talsins og allir fóru þeir fram í janúar. Liverpool hafa unnið síðustu tvo deildarleiki á Molineux 0-3, síðasti leikur var þann 31. janúar árið 2012 þegar þeir Andy Carroll, Craig Bellamy og Dirk Kuyt skoruðu allir í seinni hálfleik. Viðureignir liðanna í heild í úrvalsdeildinni eru átta talsins, Liverpool hefur unnið fimm, tveir hafa endað með jafntefli og eini sigur Úlfanna kom í desember árið 2011 þegar Roy Hodgson var við stjórnvölinn hjá Liverpool. Eftir þann leik voru Liverpool í 12. sæti deildarinnar ! Það er þó styttra síðan en árið 2012 þegar liðin mættust en margir muna eftir viðureign í FA Bikarnum árið 2017 á Anfield. Úlfarnir gerðu sér lítið fyrir þann dag og sigruðu 1-2. Þeir skoruðu strax á fyrstu mínútu leiksins og bættu svo við marki áður en fyrri hálfleikur var úti. Divock Origi minnkaði muninn fjórum mínútum fyrir leikslok en lengra komust Liverpool menn ekki.

Spáin að þessu sinni er sú að Liverpool nær í stigin þrjú með baráttu sigri 1-2. Gestirnir komast yfir en heimamenn jafna snemma í seinni hálfleik. Eigum við svo ekki að tippa á að sigurmarkið komi frá varamanni seint í leiknum ?

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur leikmanna Liverpool með 10 mörk í deildinni það sem af er.

- Raúl Jiménez er markahæstur Úlfanna með fimm mörk í deildinni.

- Liverpool sitja á toppi deildarinnar með 45 stig eftir 17 leiki.

- Úlfarnir eru í 7. sæti með 25 stig.

- Liðin mætast aftur í janúar á heimavelli Úlfanna, þá í FA Bikarnum, nánar tiltekið mánudagskvöldið 7. janúar.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan