| Grétar Magnússon

6. deildarsigurinn í röð

Liverpool vann sinn 6. deildarleik í röð þegar Dýrðlingarnir í Southampton komu í heimsókn á Anfield. Lokatölur voru 3-0 þar sem leikmenn tóku fótinn nokkuð vel af bensíngjöfinni í seinni hálfleik.

Liðsuppstilling Jürgen Klopp kom kannski á óvart en samt eiginlega ekki. Xerdan Shaqiri var í byrjunarliðinu á kostnað James Milner sem fékk að setjast á bekkinn. Klopp sagði í viðtali í vikunni að Shaqiri ætti svo sannarlega skilið tækifæri frá byrjun eftir að hafa staðið sig vel á æfingum og þegar hann hefur komið inná sem varamaður það sem af er tímabili. Að öðru leyti var liðið skipað sömu leikmönnum og byrjuðu í miðri viku gegn PSG, fyrir utan það að Joel Matip kom inn í vörnina í stað Joe Gomez.

Southampton fengu fyrsta færi leiksins þegar Shane Long skaut að marki á nærstöng en Virgil van Dijk var vel á verði og komst fyrir skotið. Eins og oft áður þurfti hinsvegar ekki að bíða lengi eftir því að Liverpool væri komið á blað. Hornspyrna var tekin frá vinstri en varnarmaður Southampton skallaði frá. Sadio Mané náði boltanum og lék út úr teignum. Hann beið aðeins og sendi svo frábæra sendingu innfyrir á Shaqiri vinstra megin. Shaqiri lék inná teiginn og þrumaði að marki. Skotið fór í Shane Long og þaðan inná markteig þar sem Wesley Hoedt fékk boltann í fótinn og hann lak í markið út við fjærstöngina. Heppnisstimpill yfir þessu marki en því var auðvitað vel fagnað.

Liverpool tóku eftir þetta flest völd á vellinum og 11 mínútum síðar léku Salah og Firmino vel saman við teiginn. Salah komst einn í gegn en varnarmaður Southampton tæklaði boltann aftur fyrir markið þegar Salah var við það að senda boltann í markið. Trent Alexander-Arnold tók hornið frá hægri og sendi háan bolta inná teiginn þar sem Joel Matip skallaði boltann glæsilega í markið. Fallegt mark staðan vænleg fyrir heimamenn. Þrem mínútum síðar fékk Højbjerg hjá Southampton ágætt skotfæri á teignum en hann náði ekki að nýta sér það. Liverpool brunaði í sókn og Salah lék varnarmenn grátt, komst inná markteig þar sem hann var kominn í þrönga stöðu en leysti það með því að taka létta hælspyrnu sem því miður fór rétt framhjá fjærstönginni. Salah hafði ekki skorað í síðustu þremur leikjum og hefur hann hingað til ekki verið markalaus í fjórum leikjum í röð fyrir Liverpool. Hann passaði uppá að láta það ekki gerast í dag því hann bætti við þriðja markinu rétt fyrir hálfleik. Frábær aukaspyrna Shaqiri af nokkuð löngu færi small í þverslánni, boltinn skoppaði niður og Salah var mættur til að ýta honum yfir línuna. Staðan 3-0 í hálfleik !Margir hváðu við í upphafi seinni hálfleiks þegar ljóst var að Klopp hafði skipt Shaqiri útaf og Milner kom inná í hans stað. Ekki virtist Shaqiri hafa meiðst í fyrri hálfleik en eftir leik sagði stjórinn að hann hefði einfaldlega viljað þétta miðjuna aðeins betur þar sem honum fannst ákveðin vandamál skapast þar þegar liðið var að verjast. Tíu mínútur voru svo liðnar af seinni hálfleik þegar van Dijk þurfti að fara af velli vegna meiðsla og supu margir hveljur þar. Hollendingurinn virtist finna mikið til í rifbeinunum og Joe Gomez kom inná í hans stað. Seinni hálfleikur var annars afskaplega tíðindalítill. Liverpool héldu boltanum vel og gestirnir náðu ekki að skapa sér nein færi. Andy Robertson komst nálægt því að skora þegar hann þrumaði boltanum að marki en boltinn fór yfir og Salah kom reyndar boltanum í markið seint í leiknum en það var dæmt af vegna rangstöðu. Fyrsta og eina skot Southampton sem hitti á markið kom í uppbótartíma. Charlie Austin skaut en Allison varði vel. Lokatölur 3-0 og Liverpool er þar með búið að vinna fyrstu sex leiki sína í deildinni en það hefur aldrei gerst hjá félaginu síðan úrvalsdeildin var sett á laggirnar. Sé Meistaradeildarsigurinn í vikunni tekinn með eru sigurleikirnir orðnir sjö í byrjun tímabilsins og það er félagsmet.

Liverpool: Allison, Alexander-Arnold, Matip, van Dijk (Gomez, 55. mín.), Robertson, Henderson, Wijnaldum (Keita, 70. mín.), Shaqiri (Milner, 45. mín.), Mané, Salah, Firmino. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Moreno, Fabinho, Sturridge.

Mörk Liverpool: Sjálfsmark (10. mín.), Joel Matip (21. mín.) og Mohamed Salah (45. +3 mín.).

Southampton: McCarthy, Cédric Soares, Vestergaard, Hoedt, Bertrand, Romeu (Bednarek, 55. mín.), Redmond, Højbjerg, Lemina, Targett (Armstrong, 55. mín.), Long (Austin, 79. mín.). Ónotaðir varamenn: Gunn, Yoshida, Davis, Ward-Prowse.

Gul spjöld: Romeu og Lemina.

Áhorfendur á Anfield: 50.965.

Maður leiksins: Það er oft erfitt að taka einhvern einn leikmann út eftir svona frammistöðu. Shaqiri stóð sig mjög vel en fékk ekki tækifæri til að byggja á því í seinni hálfleik. Eigum við ekki að gefa Mohamed Salah nafnbótina núna þar sem hann komst loksins á blað í markaskorun á ný og stóð sig heilt yfir vel.

Jürgen Klopp: ,,Áætlun mín var að breyta um taktík en við höfðum ekki tíma til að æfa það útaf slæmu veðri í vikunni. Við skoruðum mörk úr föstu leikatriði og það var mjög flott, í seinni hálfleik þurftum við svo aðeins að stjórna leiknum. Að vinna sjö leiki í röð er flott en áskoranirnar verða bara erfiðari og erfiðari og nú höfum við fjóra daga til að búa okkur undir deildarbikarleik við Chelsea. Strákarnir eru í góðu formi og það hjálpar."

Fróðleikur:

- Joel Matip skoraði sitt fyrsta mark á leiktíðinni.
- Þetta var hans þriðja mark fyrir félagið á ferlinum og öll hafa komið í deildinni.

- Í þriðja sinn í sögu félagsins hafa fyrstu sex leikirnir unnist. Síðast gerðist það tímabilið 1990-91 þegar liðið endaði í öðru sæti deildarinnar að tímabili loknu og þar áður tímabilið 1978-79 þegar liðið stóð uppi sem sigurvegari í ensku deildinni.

- Liverpool hafa nú leikið 24 leiki í röð á Anfield án þess að tapa (16 leikir hafa unnist).

- Þetta var leikur númer 600 hjá Jürgen Klopp sem knattspyrnustjóri. 296 leikir hafa unnist, 158 endað með jafntefli og 146 tapast.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan