| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Næsta botnlið á dagskrá Liverpool er WBA. Liðin mætast á Anfield í FA bikarnum á dálítið óvenjulegum tíma, klukkan átta á laugardagskvöldið. 

Liverpool fær ekki mikla hvíld eftir þennan leik því næsti leikur er svo í deildinni strax á þriðjudagskvöld, þegar við mætum Huddersfield á útivelli. Það er þessvegna alveg viðbúið að Klopp hvíli slatta af leikmönnum.

Liverpool hefur alls ekki gengið vel í FA bikarnum frá því að Klopp tók við félaginu og hann hefur verið nokkuð harðlega gagnrýndur fyrir að stilla stundum upp algjörum varaliðum í keppninni, sem hefur ekki þótt til marks um mikla virðingu fyrir þessari elstu bikarkeppni heims.

Á sama tíma í fyrra var Klopp (kannski eðlilega) með hugann við deildarleik við Chelsea sem var handan við hornið, þegar Wolves kom á Anfield í 4. umferð FA bikarsins. 9 breytingar voru gerðar á liðinu og svo fór að Úlfarnir fóru með sigur af hólmi 1-2. Það var þriðji ósigur Liverpool á einni viku, sem er býsna vel af sér vikið. Þannig. 

Árið þar áður féll Liverpool líka út í 4. umferð eftir leik gegn West Ham á Upton Park. Þann leik spiluðu stórmenni á borð við Tiago Ilori, Pedro Chirivella, Kevin Stewart og Brad Smith. Upplitið á stjóranum var ekki bjart eftir þann leik.  
Liverpool hefur semsagt ekki komist lengra en í 4. umferð frá því að Klopp tók við liðinu. Vonandi verður breyting á því á laugardagskvöldið. Reyndar er Klopp alls ekki einn um það meðal stjóra Liverpool undangengin ár að hafa dottið snemma út úr bikarnum. Í 9 af síðustu 11 skiptum hefur liðið verið dottið út löngu áður en keppnin varð spennandi. Meðal liða sem hafa slegið Liverpool út síðustu árin má nefna Oldham, Reading og Barnsley.

Liðið vann keppnina 2006, undir stjórn Rafa Benítez, komst í úrslit 2012 undir stjórn Kenny Dalglish, en tapaði fyrir Chelsea, og komst svo í undanúrslit vorið 2015, en þá töpuðu lærisveinar Brendan Rodgers fyrir Aston Villa. Hin árin frá 2006 hafa verið vonbrigði í bikarnum.

Ef við höldum okkur aðeins lengur í sögubókunum þá er vert að geta þess að það eru 50 ár síðan Liverpool og WBA mættust síðast í FA cup, þá tapaði Liverpool og svo fór að WBA hampaði sjálfum bikarnum um vorið. Það er nýjasti FA bikarinn í safni WBA, en alls hefur liðið unnið keppnina 5 sinnum. 

Leikurinn á laugardaginn verður 150. viðureign Liverpool og WBA í sögunni. Hingað til er Liverpool með yfirhöndina, hefur unnið 68 leiki á móti 38 sigrum WBA. 43 sinnum hafa liðin skilið jöfn. Ef jafntefli verður niðurstaðan á laugardaginn verður replay í vikunni milli deildarleikjanna við Tottenham og Southampton. Líklega miðvikudaginn 7. febrúar. 

En upp úr sögubókunum og að leiknum á laugardaginn. Ég nenni lítið að velta fyrir mér þessu WBA liði, þeir eru á botninum með jafnmörg stig og Swansea, en rétt eins og Swansea hefur WBA verið að rétta úr kútnum upp á síðkastið. Liðið hefur aðeins tapað einum af síðustu sex leikjum í öllum keppnum.

James Pearce spáir því að Klopp spari slatta af lykilmönnum fyrir deildarleikinn gegn Huddersfield. Hann nefnir til að mynda framherjana Solanke, Sturridge og Ings sem myndi þýða að Klopp hvíldi Firmino, Mané eða Salah - eða jafnvel alla þrjá. 
Pearce segir að Sturridge hafi sannarlega ekki verið í hóp gegn Swansea vegna þess að Inter var búið að gera tilboð, en nú er allt útlit fyrir það að Sturridge fari ekkert fyrr en í sumar og Pearce segir að hann hafi staðið sig vel á æfingum í vikunni og verði að öllum líkindum í byrjunarliðinu á laugardaginn.  

Jordan Henderson er að skríða saman og gæti verið í hópnum á laugardaginn, en verður tæplega í byrjunarliðinu. Moreno og Clyne eru sem fyrr meiddir en annað merkilegt er held ég ekki að frétta af meiðslalistanum. 

Mér dettur ekki í hug að spá neinu um liðsvalið hjá Klopp gegn WBA, það verður bara að koma í ljós. Auðvitað vonar maður að hann stilli upp sterku liði og reyni að fara sem lengst í keppninni. 

Ég ætla að spá 3-1 sigri Liverpool. Solanke mun skora sitt fyrsta mark í alvöruleik fyrir Liverpool. 

YNWA!

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan