| Grétar Magnússon

Frábær sigur á Brighton

Liverpool sótti þrjú stig með stæl á suðurströnd Englands í dag.  Lokatölur voru 1-5 !

Liðsuppstilling Klopp kom nokkuð á óvart en fyrir leik leit allt út fyrir að Emre Can væri í miðverði með Lovren og bakverðir væru Alexander-Arnold og Andy Robertson.  Á miðjunni Henderson, Wijnaldum og Milner og fremstu þrír væru Coutinho, Salah og Firmino.  En þegar leikurinn byrjaði var uppstillingin töluvert önnur.  Þrír öftustu varnarmennirnir voru Lovren, Can og Wijnaldum og vængbakverðir voru fyrrnefndir bakverðir og á miðjum velli þeir Henderson og Milner og leikkerfið einhverskonar útgáfa af 3-4-3.  En þessar hræringar á vörninni hjá Klopp voru eitthvað sem hann neyddist til að gera þar sem Joe Gomez veiktist í vikunni og Joel Matip á við meiðsli að stríða.  Ragnar Klavan sat á varamannabekknum væntanlega ekki búinn að ná sér 100% eftir veikindi.

En hvað sem liðsuppstillingunni líður þá byrjuðu gestirnir betur og voru meira með boltann eins og við var að búast, heimamenn sáttir með að liggja til baka og beita skyndisóknum.  Aðeins 45 sekúndur voru liðnar þegar Mohamed Salah lét að sér kveða þegar hann reyndi skot fyrir utan teig en varnarmaður komst fyrir.  Ryan, markvörður heimamanna varði svo frá Salah ekki svo löngu síðar og úr hornspyrnunni skallaði Firmino boltann rétt yfir markið.  Brighton bættu aðeins í eftir þetta og Glenn Murray sóknarmaður þeirra hefði átt að gera betur þegar hann fékk sendingu inná teiginn, lagði boltann fyrir sig en hitti hann svo illa þegar hann hugðist skjóta og boltinn fór framhjá.  Eftir hálftíma leik kom svo fyrsta mark leiksins.  Coutinho tók hornspyrnu og þar reis Emre Can hæst í teignum og skoraði með föstum skalla.  Glæsilega gert hjá Can og hornspyrnan hjá Coutinho auðvitað í toppklassa.  Ekki þurfti að bíða lengi eftir næsta marki en það kom eftir aðeins 79 sekúndur.  Gestirnir unnu boltann og geystust fram völlinn þar sem Salah sendi út til vinstri á Coutinho, hann sendi frábæra sendingu inná teiginn og þar var Firmino mættur og skoraði örugglega.  Brighton menn skyndilega lentir 0-2 undir og vissu varla hvort þeir voru að koma eða fara.  Þannig hélst staðan fram að hálfleik og gleðin töluverð á meðal stuðningsmanna Liverpool sem höfðu ferðast langa leið á leikinn.


Stjóri Brighton hefur líklega sagt sínum mönnum í hálfleik að byrja sterkt og reyna að minnka muninn sem fyrst.  Það munaði litlu að það tækist þegar Murray fékk frábæra sendingu inná vítateig og það virtist auðvelt að skora.  En Mignolet varði mjög vel og boltinn var hreinsaður frá marki.  Þar fékk Coutinho boltann og sendi hann á Salah sem tók á rás fram völlinn.  Hann gerði vel þegar hann var kominn upp við vítateig og sendi til hægri á Firmino sem þrumaði boltanum í netið ! Virkilega vel gert og staðan orðin 0-3 þegar aðeins 14 sekúndum áður hefði hún getað verið 1-2.  Á 51. mínútu fengu heimamenn svo nánast gefins vítaspyrnu þegar dómarinn taldi að Henderson hefði ýtt hressilega við Brighton manni í teignum eftir hornspyrnu.  Eitthvað virtist það nú vera lítið þegar atvikið var skoðað í endursýningu en Murray skoraði örugglega úr vítinu.  Nú héldu margir að eitthvað Sevilla hrun væri í uppsiglingu og Brighton menn fengu blóð á tennurnar.  Þeir fengu nokkur ágæt færi til að skora og var Murray yfirleitt þar fremstur í flokki en úr einu slíku færi skaut hann rétt framhjá.  Leikmenn Liverpool gerðu líka betur í því að halda boltanum innan liðsins þannig að ekki var um stöðuga pressu frá heimamönnum að ræða.  Á 87. mínútu skoraði Coutinho svo mark beint úr aukaspyrnu með snyrtilegum hætti þegar hann skaut boltanum undir varnarvegginn og í markhornið.  Veislan var svo ekki búin því að í uppbótartíma skoraði Dunk sjálfsmark eftir skot frá Coutinho og lokatölur því 1-5.

Brighton:  Ryan, Bruno (Schelotto, 77. mín.), Duffy, Dunk, Bong, Knockaert (March, 70. mín.), Stephens, Pröpper, Brown (Izquierdo Mena, 70. mín.), Gross, Murray.  Ónotaðir varamenn:  Krul, Kayal, Hemed, Goldson.

Mark Brighton:  Glenn Murray (vítaspyrna, 51. mín.).

Gult spjald:  Bruno.

Liverpool:  Mignolet, Can, Lovren, Wijnaldum, Alexander-Arnold, Milner, Henderson (Grujic, 90. mín.), Coutinho, Robertson, Salah (Oxlade-Chamberlain, 80. mín.), Firmino (Solanke, 88. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Karius, Klavan, Mané, Sturridge.

Mörk Liverpool:  Emre Can (30. mín.), Roberto Firmino (31. og 48. mín.), Philippe Coutinho (87. mín.) og sjálfsmark (90. mín.).


Maður leiksins:  Philippe Coutinho sýndi og sannaði snilli sína enn á ný með tveimur stoðsendingum og einu marki í leiknum.  Hann hefur kannski ekki verið í aðalhlutverki á þessu tímabili en mikilvægi hans er óumdeilt og þegar hann spilar vel eiga andstæðingarnir ekki von á góðu.

Jürgen Klopp:  ,,Naut ég leiksins, nei í rauninni ekki allan tímann.  Í byrjun þurftum við að vera þolinmóðir hvað leikstíl Brighton varðar, við þurftum að venjast.  Við skoruðum tvö glæsileg mörk, það var gaman að sjá það.  Við skoruðum svo það þriðja sem er góð hugmynd í leik eins og þessum.  Í síðasta leik vorum við heppnir með ákvarðanir dómara og í dag greiddum við fyrir það.  Markið hjá Brighton gerði leikinn aðeins meira spennandi en í við lokuðum leiknum í endann á snyrtilegan hátt."

,,Við höfðum ekki hugmynd um hvernig uppstillingin yrði í leiknum fyrr en á liðsfundi í gær (föstudag) og ég er ánægður fyrir hönd strákanna.  Þeir náðu að aðlagast aðstæðum.  Uppstilling okkar kom öllum á óvart.  Það er gott að geta gert þetta, leikmenn vöndust og unnu sitt verk.  Við þurfum að geta spilað mörg mismunandi kerfi, þannig á þetta að vera."

Fróðleikur:

- Þetta var þriðji útisigur Liverpool í röð en í síðustu fimm útileikjum fyrir það hafði bara unnist einn sigur.

- Simon Mignolet spilaði sinn 150. deildarleik fyrir félagið.

- Dejan Lovren spilaði sinn 90. deildarleik fyrir Liverpool.

- Roberto Firmino spilaði deildarleik númer 80 fyrir Liverpool og í þeim hefur hann skorað 26 mörk.

- Brasilíumaðurinn skoraði sitt fjórða og fimmta deildarmark á leiktíðinni og alls eru mörkin orðin 11 á tímabilinu.

- Coutinho skoraði sitt fjórða mark í deildinni og það sjötta á tímabilinu.

- Þetta var fyrsta deildarmark Emre Can á leiktíðinni en áður hafði hann skorað þrjú mörk í Meistaradeildinni (og undankeppni hennar).

Hér má sjá myndir úr leiknum.







TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan