| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur okkar manna er gegn Brighton Hove & Albion á útivelli. Leikurinn hefst kl. 15:00 laugardaginn 2. desember.

Liverpool eru í fínu formi þessa dagana en það er alltaf erfitt að mæta nýliðum í deild á þeirra eigin heimavelli.  Níu stig skilja liðin að í deildinni, Liverpool eru í 5. sæti með 26 stig á meðan Brighton sitja í því 10. með 17 stig.  Þeir hafa spilað til þessa 7 leiki á heimavelli, unnið tvo, gert fjögur jafntefli og tapað einum leik, kemur kannski ekki á óvart að það var gegn Manchester City í fyrsta leik tímabilsins.  Það má því draga þá ályktun að þeir séu erfiðir heim að sækja.  Á útivelli hefur Liverpool unnið þrjá leiki, gert tvö jafntefli og tapað tveimur.

Á blaðamannfundi fyrr í dag sagði Jürgen Klopp að Joel Matip verði frá vegna meiðsla en hann kenndi sér einhvers meins eftir leikinn við Stoke og skal engan undra eftir alla háloftabaráttuna við Peter Crouch og félaga.  Ragnar Klavan hefur verið veikur í vikunni en ætti að vera búinn að ná sér, ákvörðun um það hvort að hann sé klár til að spila verður tekin seinnipartinn.  Adam Lallana er svo að byggja upp sitt form og væntanlega verður hann í mesta lagi á bekknum í þessum leik.  Það verður því enn og aftur fróðlegt að sjá hvernig vörninni verður stillt upp, það kæmi til dæmis ekki á óvart ef þeir Alexander-Arnold og Robertson komi inn í bakvarðastöðurnar.  Framávið verða þeir félagar Firmino, Mané og Salah væntanlega til taks en miðjan er álíka mikið spurningamerki og vörnin og er best að spá lítið fyrir um þá uppstillingu.

Liverpool og Brighton hafa mæst 25 sinnum í gegnum tíðina og ansi langt er síðan það gerðist í deildarleik eða nánar tiltekið 22. mars árið 1983 þar sem liðin skildu jöfn 2-2.  Síðan þá hafa liðin mæst sex sinnum í annaðhvort FA bikarnum eða Deildarbikarnum og Liverpool ávallt lagt Brighton að velli.  Síðast mættust liðin á Anfield í febrúar árið 2012 þar sem okkar menn unnu stórsigur í FA bikarnum 6-1 og er það stærsti sigur sem unnist hefur á Brighton í gegnum árin.  Tveir leikmenn eru á meiðslalistanum hjá Brighton fyrir leikinn, gamla kempan Steve Sidwell nær ekki þessum leik en varnarmaðurinn Gaetan Bong ætti að vera klár í slaginn, hann hefur spilað 6 leiki til þessa á tímabilinu og kemur líklega inn í byrjunarliðið að mér skilst.  Góðar gætur þarf svo að hafa á miðjumanninum Pascal Gross en hann hefur verið duglegur að leggja upp fyrir samherja sína, er með fimm stoðsendingar það sem af er og þrjú mörk.

Spáin að þessu sinni er sú að okkar menn halda áfram fínu gengi í deildinni og vinna 1-2 sigur.  Leikurinn verður erfiður og Brighton munu selja sig dýrt en þetta hefst með sigurmarki í síðari hálfleik.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur í deild hjá félaginu og heilt yfir í Úrvalsdeildinni með 12 mörk.

- Glenn Murray er markahæstur hjá Brighton með 4 mörk í deildinni.

- Salah hefur jafnframt komið við sögu í flestum leikjum hjá Liverpool á tímabilinu eða alls 21 leik, þar af öllum 14 deildarleikjunum.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan