| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool tekur á móti Englandsmeisturum Chelsea á Anfield seinnipart laugardags. Bæði lið eru á ágætu skriði og einungis þrjú stig skilja þau að í deildinni. 

Liverpool hefur ekki tapað gegn Chelsea í Úrvalsdeild í rúm þrjú ár, eða síðan í nóvember 2014 þegar liðið tapaði 1-2 á Anfield. Í þeim leik skoraði Emre Can sitt fyrsta mark fyrir Liverpool. 

Liverpool og Chelsea hafa mæst 50 sinnum í Úrvalsdeildinni. Hvort lið hefur unnið 19 leiki og 12 sinnum hefur orðið jafntefli. Liverpool hefur haldið hreinu í 7 af síðustu 8 heimaleikjum á yfirstandandi leiktíð og Chelsea hefur unnið 10 af 12 síðustu útileikjum sínum. Semsagt allt í járnum. 

Bæði lið léku í Meistaradeildinni í vikunni, Chelsea átti náðugan dag í Azerbaijan í gærkvöldi og landaði öruggum 0-4 sigri og sæti í 16 liða úrslitum, en Liverpool tókst að snúa gjörsigruðum leik í Sevilla í töpuð tvö stig á 45 mínútum á þriðjudagskvöldið. Chelsea fær vissulega lengra ferðalag og minni hvíld, en á móti kemur að kannski sitja vonbrigðin og mjólkursýran lengur í okkar mönnum eftir Sevilla rússibanann. 

Klopp og Conte stilltu báðir upp nokkuð sterkum byrjunarliðum í vikunni, þótt Conte hafi vissulega getað hvílt nokkra sterka og skipt öðrum snemma útaf. David Luiz kom til baka eftir meiðsli og Victor Moses er um það bil að komast á ferðina. Kenedy og Bathsuayi eru meiddir. 

Klopp sparaði svosem engan á þriðjudaginn, nema Coutinho sem fékk að fara út af eftir rúman klukkutíma til að safna kröftum fyrir helgina. Moreno fékk sömuleiðis að fara útaf eftir rúman klukkutíma, en það var af öðrum ástæðum. Aðrir byrjunarliðsmenn urðu að hafa ansi mikið fyrir hlutunum. 

Ég sé ekki fyrir mér að Klopp geri miklar breytingar á byrjunarliðinu. Mignolet fer í markið og ef Matip verður búinn að ná sér þá kemur hann inn í liðið, væntanlega fyrir Klavan. Svo er spurning hvað verður um Moreno kallinn. Hann missti af fæðingu frumburðarins á föstudaginn, spilaði heilan leik á laugardaginn og missti hausinn algjörlega á þriðjudaginn
þannig að það er óhætt að segja að vikan hafi verið viðburðarík hjá honum blessuðum.
Robertson heillar mig ekki, að minnsta kosti ekki ennþá, en ég mun samt kenna í brjósti um hann ef Milner verður settur í vinstri bakvörðinn. Sem getur alveg gerst. En gleymum því ekki að það er líka alveg eins líklegt að Klopp treysti Moreno áfram.   

Mané, Salah og Firmino hljóta að verða frammi og vonandi eiga þeir nóg eftir á tankinum til að tæta Chelsea vörnina í sig. Á miðjunni er Coutinho öruggur í byrjunarliðið og trúlega Wijnaldum og Henderson líka, en Klopp gæti líka alveg tekið upp á því að nota annaðhvort Milner eða Can sem áttu báðir ágæta innkomu á þriðjudaginn. 

Lallana er alveg að detta inn og það væri gaman að sjá hann í hópnum og fyrrum Chelsea mennirnir Sturridge og Solanke verða banhungraðir á bekknum.  

Það er mjög þétt prógramm framundan og deginum ljósara að það mun þurfa að rótera liðinu töluvert á næstu vikum ef allt á að ganga upp, en ég sé ekki fyrir mér að Klopp geri miklar breytingar á liðinu fyrir laugardaginn. Það hefði vissulega verið aðeins léttara ef Liverpool hefði álpast til að tryggja sig upp úr riðlinum á þriðjudaginn, en hvenær höfum við farið auðveldu leiðina? Afhverju ættu menn að fara að taka upp á því núna? 

Ég er ekkert voðalega svekktur með Spánarskituna á þriðjudaginn, það hefði svo sannarlega getað farið verr. Ég var svo heppinn að vera á Anfield á laugardaginn þegar liðið rúllaði yfir Southampton og ég trúi því að liðið smelli sér aftur í þann gírinn um helgina og taki öll stigin. Ég spái 3-1 sigri og eigum við ekki bara að segja að Moreno setji eitt. Milner eitt úr víti og Mané eitt. Moreno, Mané og Milner hljómar allavega ágætlega ljóðrænt. 

YNWA!

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan