| Grétar Magnússon

Frábær sigur á West Ham

Liverpool hélt áfram góðu gengi sínu í London á leiktíðinni með 0-4 sigri á West Ham United.  Stigin þrjú voru mjög mikilvæg í baráttunni um að halda sér í efstu fjórum sætum deildarinnar og ná sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

Jurgen Klopp þurfti að gera nokkrar breytingar á byrjunarliði sínu frá síðasta leik gegn Southampton.  Roberto Firmino var ekki klár í slaginn vegna smávægilegra meiðsla og Lucas sat á varamannabekknum.  Inn komu þeir Adam Lallana og Daniel Sturridge en sá síðarnefndi var síðast í byrjunarliðinu gegn Southampton í seinni leik liðanna í undanúrslitum deildarbikarsins.  Spennan var mikil fyrir leik því leikmenn Liverpool vissu vel, eftir úrslit laugardagsins að sigur var í raun það eina sem myndi duga til að halda sér í topp fjórum.

Heimamenn, sem eiga við mikil meiðsli að stríða í sínum leikmannahóp, byrjuðu þó eilítið betur og Sam Byram fékk ágætt færi hægra megin í teignum eftir skyndisókn en skot hans fór framhjá markinu.  Skömmu síðar fengu Liverpool hornspyrnu sem Coutinho tók.  Spyrnan var góð og Joel Matip stökk manna hæst á fjærstönginni og átti skalla sem fór í grasið og boltinn skoppaði svo upp í slána.  Varnarmenn West Ham náðu svo að bægja hættunni frá.  Þarna hefði boltinn svo sannarlega mátt skoppa upp í þaknetið en heppnin ekki með Matip þarna.  Heimamenn héldu áfram að reyna að skora fyrsta markið og Mignolet þurfti að vera vel á verði þegar langskot frá Fernandes kom að marki en Belginn kastaði sér niður og varði skotið vel.  Fyrsta markið leit svo dagsins ljós á 35. mínútu.  West Ham sóttu upp hægri kantinn en Liverpool unnu boltann við sinn eigin vítateig.  James Milner fékk boltann vinstra megin og kom honum til Coutinho sem sá gott hlaup hjá Sturridge og sendi langa sendingu innfyrir.  Sturridge var kominn einn í gegn, engin rangstaða og þegar sóknarmaður af þessum gæðaflokki fær svona færi þá nýtir hann það.  Lék boltanum framhjá Adrian í markinu og eftirleikurinn auðveldur, 0-1 !  Markinu að sjálfsögðu vel fagnað.

Rétt fyrir hálfleik fengu heimamenn svo hornspyrnu, boltinn barst á fjærstöngina þar sem Ayew var óvaldaður og í dauðafæri.  Hann skaut boltanum í stöngina á frekar óskiljanlegan hátt, náði frákastinu og skaut þá aftur í stöngina og Mignolet náði svo höndum á boltann.  Þarna sluppu gestirnir með skrekkinn og jöfnunarmark þarna hefði svo sannarlega breytt seinni hálfleik mikið.  Skömmu síðar flautaði dómarinn til hálfleiks og gestirnir önduðu léttar.

Í seinni hálfleik var í raun bara eitt lið á vellinum og það var lið Liverpool.  Á 47. mínútu átti Origi þrumuskot fyrir utan teig sem Adrian varði vel í markinu, Adam Lallana náði að skalla boltann fyrir markið þar sem Sturridge náði ekki valdi á boltanum og varnarmenn hreinsuðu frá.  Það dugði ekki til því Milner fékk boltann úti vinstra megin og kom boltanum á Lallana á teignum og hann þrumaði að marki en Adrian varði aftur vel.  Áfram hélt Liverpool að þjarma að markinu og sóknin endaði á því að Wijnaldum skaut að marki úr teignum en Adrian var þar aftur vel á verði á nærstönginni.  Tíu mínútum síðar komst Liverpool í 0-2.  Wijnaldum þrumaði viðstöðulaust að marki fyrir utan teig og boltinn hafnaði í þverslánni og skoppaði aftur út þar sem Reid skallaði frá en beint í fæturnar á Coutinho.  Brasilíumaðurinn tók boltann yfirvegað niður, lék aðeins nær markinu og skaut svo boltanum hnitmiðað í fjærhornið, óverjandi fyrir Adrian.  Virkilega vel gert þarna hjá litla töframanninum.  Fjórum mínútum síðar skoruðu Liverpool sitt þriðja mark.  Heimamenn áttu hornspyrnu og Wijnaldum virtist handleika boltann í skallabaráttu við Reid í teignum og um leið virtist hann líka gefa Reid olnbogaskot þannig að varnarmaðurinn lá óvígur eftir á teignum.  Dómarinn dæmdi hinsvegar ekki neitt og leikmen Liverpool skeiðuðu upp völlinn.  Það endaði með því að Coutinho fékk boltann á teignum, lék léttilega framhjá Collins á markteig og þrumaði svo boltanum í markið.  Leikmenn og stuðningsmenn West Ham voru allt annað en kátir með þessa ákvörðun dómarans en þegar flautið kemur ekki má auðvitað ekki hætta að spila.

Eftir þetta var leikurinn frekar auðveldur fyrir gestina og þeir bættu við einu marki í viðbót þegar Origi skoraði af stuttu færi eftir klafs í teignum og hálfskot frá Wijnaldum að marki.  Þar á undan hafði Origi þrumað að marki en boltinn lenti ofaná þverslánni þannig að ljóst var að mótspyrna West Ham var ekki mikil.  Fátt markvert gerðist eftir þetta og 0-4 sigur staðreynd og honum var gríðarlega vel fagnað af fjölmörgum stuðningsmönnum Liverpool og leikmönnum félagsins.

West Ham:  Adrián, Fonte (Fletcher, 55. mín.), Reid, Collins, Byram, Fernandes, Nordtveit, Cresswell, Ayew (Snodgrass, 77. mín.), Lanzini, Calleri (Feghouli, 55. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Randolph, Ogbonna, Quina, Rice.

Gul spjöld:  Collins og Fernandes.

Liverpool:  Mignolet, Clyne, Lovren, Matip, Milner, Can, Wijnaldum, Coutinho (Woodburn, 89. mín.), Lallana (Grujic, 89. mín.), Sturridge (Lucas, 87. mín.), Origi.  Ónotaðir varamenn:  Karius, Klavan, Moreno, Alexander-Arnold.

Mörk Liverpool:  Daniel Sturridge (35. mín.), Philippe Coutinho (57. og 61. mín.) og Divock Origi (76. mín.).

Áhorfendur á London Stadium:  56.985.

Maður leiksins:  Philippe Coutinho skoraði tvö mörk og lagði upp fyrsta markið og valið er því auðvelt að þessu sinni.  Hann spilaði gríðarlega vel í leiknum, að þessu sinni aðeins aftar á miðjunni en hann er vanur en hann stjórnaði leiknum þaðan og var allt í öllu í sóknarleiknum.

Jurgen Klopp:  ,,Þetta var stórkostlegur leikur en erfiður.  Þegar upp var staðið var þetta mjög gott en við byrjuðum ekki nógu vel.  Við skoruðum nokkur góð mörk en West Ham fengu sín færi og hefðu átt að jafna rétt fyrir hálfleik.  Þetta var óheppilegt fyrir þá en að sama skapi heppilegt fyrir okkur, West Ham hafa því miður ekki verið mjög heppnir á þessu tímabili."

Fróðleikur:

- Liverpool hafa nú unnið sigra á 52 leikvöngum í úrvalsdeildinni og hefur ekkert lið unnið á fleiri völlum, næst koma Arsenal og Manchester United með sigra á 50 völlum.

- Á tímabilinu hafa Liverpool unnið fjóra leiki og gert eitt jafntefli í London og er þetta í fyrsta sinn frá tímabilinu 1988-1989 sem liðið er taplaust í höfuðborginni.

- Coutinho skoraði í þriðja sinn á ferli sínum með félaginu tvö mörk í sama leiknum.  Í hin tvö skiptin var það líka í London, gegn Chelsea í október 2015 og Arsenal í ágúst 2016.

- Brasilíumaðurinn hefur nú skorað 12 mörk í Úrvalsdeildinni og og 13 alls á tímabilinu og er þetta þar með orðið hans markahæsta tímabil til þessa.  Hann hefur nú skorað jafnmörg mörk og Sadio Mané.

- Divock Origi skoraði sitt 7. deildarmark á tímabilinu og er hann kominn með 11 mörk alls.

- Daniel Sturridge skoraði sitt 3. deildarmark á tímabilinu og er hann með 7 mörk alls.

- Liverpool sitja í 3. sæti deildarinnar með 73 stig eftir 37 leiki.

- West Ham sitja í 12. sæti með 42 stig eftir 37 leiki.


Hér má sjá myndir úr leiknum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan