| Sf. Gutt

Enn hrasar Liverpool

Liverpool hrasar enn í baráttunni um eitt ef fjórum efstu sætunum í deildinni. Southampton mætti á Anfield og fór heim með eitt stig eftir að hafa pakkað í vörn og náð með því verðskulduðu markalausu jafntefli.

Philippe Coutinho var orðinn leikfær eftir meiðslin sem hann varð fyrir á móti Watford og var settur í byrjunarliðið. Með því var byrjunarliðið óbreytt þriðja leikinn í röð.

Liverpool hóf leikinn með því sækja enda hefði sigur fært liðið langt að Meistaradeildarsæti. Sókin var þó aldrei kröftug og áhorfendur hefðu haldið að blásið yrði til stórsóknar þar sem öllu yrði fórnað. Svo varð ekki hver sem ástæðan var. Southampton lá í vörn með allt sitt lið og bak við var Fraser Forster öryggið uppmálað. Eftir um stundarfjórðung dró loks til tíðinda þegar Roberto Firmino náði boltanum af varnarmanni utan við vítateiginn lék að markinu en varnarmaður komst fyrir skot hans. Þetta reyndist eina skiptið sem Liverpool kom gestunum í einhver vandræði í öllum hálfleiknum.

Síðari hálfleikur var alveg eins og sá fyrri. Gestirnir buðu heimamönnum að sækja og höfðu lítið fyrir því að verjast sóknum þeirra sem voru grútmáttlausar. En það hljóp á snærið hjá Liverpool á 65. mínútu. Lucas Leiva sendi boltann inn í vítateginn og þar handlék varnarmaður boltann og dómarinn dæmdi réttilega víti. James Milner tók vítaspyrnuna eftir langa mæðu en Fraser og nokkrir varnarmenn töfðu leikinn og reyndu með því að koma James úr jafnvægi. James spyrnti fast neðst í vinstra hornið fyrir framan Kop stúkuna en Fraser kastaði sér til hliðar og varði glæsilega. Fyrsta vítið sem James mistekst að skora úr eftir að hann kom til Liverpool. Þetta kom á versta tíma.  

Daniel Sturridge og Adam Lallana voru sendir á vettvang þegar rúmlega 20 mínútur voru eftir. Daniel lífgaði upp á sóknarleikinn og þegar 12 mínútur lifðu leiks lék hann sig laglega í færi  en hann náði ekki nógu föstu skoti og Fraser varði. Hvorki gekk né rak hjá Rauðliðum. Á lokamínútunni vildu leikmenn Southampton að Simon Mignolet fengi rautt spjald en hann fór þá í úthlaup og boltinn fór í hendi hans við vítateigslínuna. Svo var að sjá að hann hefði verið kominn út fyrir teiginn þegar hann handlék boltann. Í viðbótartíma þurfti Fraser að taka á þegar hann sló skalla Marko Grujic, sem var nýkominn inn á, yfir. Þessi markvarsla staðfesti jafntefli sem Southampton verðskuldaði. 

Liverpool á enn góða möguleika á að ná Meistaradeildarsæti en helst þarf að vinna síðustu tvo leikina. Það tekst ekki nema liðið spili mun betur en í þessum leik. Liðið var kraftlaust og olli miklum vonbrigðum. Liverpool hrasaði enn og einu sinni á móti liði sem ætti að vinna og nú er sjá hvort þessi hrösun verður afdrifarík.

Liverpool: Mignolet, Clyne, Lovren, Matip, Milner, Can, Leiva (Lallana 69. mín.), Wijnaldum (Grujic 87. mín.), Coutinho, Firmino og Origi (Sturridge 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Karius, Moreno, Alexander-Arnold og Klavan.

Gult spjald: Dejan Lovren. 

Southampton: Forster, Cedric, Yoshida, Stephens, Bertrand, Davis, Romeu, Ward-Prowse, Tadic, Boufal (Redmond 61. mín.) og Gabbiadini (Long 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Hassen, Rodriguez, Caceres, Hojbjerg og Pied.

Gul spjöld: 
James Ward-Prowse, Cédric Soares og Ryan Bertrand.

Áhorfendur á Anfield Road: 53.159.

Maður leiksins: Daniel Sturridge. Hann er ekki í leikæfingu en það var samt meira líf í honum þær mínutur sem hann spilaði en þeim félögum hans sem treyst var til að byrja leikinn. 

Jürgen Klopp:
Þetta var erfiður leikur leikur. Við náðum ekki stigunum þremur. Við þurftum bara eitt mark en það tókst ekki að skora. Við erum mjög vonsviknir en þetta var einn af þessum dögum. Við náðum einu stigi og höldum baráttunni áfram. 

Fróðleikur

- Liverpool hefur ekki unnið í síðustu þremur leikjum sínum á Anfield. 

- James Milner hafði fyrir leikinn skorað úr öllum vítaspyrnum sínum frá því hann kom til Liverpool. 

- James brást bogalistin af vítapunktinum í fyrsta sinn frá því í nóvember 2009 en þá lék hann með Aston Villa og Bolton Wanderes var mótherjinn. 

- Liverpool og Southampton léku fjórum sinnum saman á leiktíðinni. Liverpool tókst ekki að skora eitt einasta mark.

- Liverpool átti 32 marktilraunir í deildarleikjunum tveimur en Southampton náði engu skoti á rammann.

Hér eru
myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér er viðtal við Jürgen Klopp.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan