| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Það er stórleikur á dagskrá á Anfield í hádeginu laugardaginn 1. apríl þegar nágrannarnir í Everton koma í heimsókn. Leikurinn hefst kl. 11:30 að íslenskum tíma og við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta að mæta á heimavöll okkar, Spot í Kópavogi og horfa á leikinn í góðra vina hópi.

Enn og aftur berast vondar fréttir af meiðslum okkar manna en Adam Lallana meiddist í landsleik með Englendingum og verður frá í mánuð í það minnsta.  Það þarf nú ekki að ræða það mikið hversu mikil blóðtaka það er fyrir liðið og erfitt er að spá fyrir um hver tekur sæti hans á miðjunni.  Til að bæta gráu ofaná svart er ekki víst að Jordan Henderson verði búinn að ná sér af sínum meiðslum fyrir þennan leik og þá er miðjan orðin ansi þunnskipuð.  Daniel Sturridge sást á æfingu í vikunni og hann gæti verið í leikmannahópnum í fyrsta skipti í nokkuð langan tíma.  Þá hefur Marko Grujic einnig náð sér af sínum meiðslum og komið sér í ágætt form með því að leika með U-23 ára liði félagsins undanfarið.  Þeir félagar Roberto Firmino og Philippe Coutinho eru svotil nýkomnir frá Brasilíu eftir landsleikjahléð en ættu nú að geta byrjað leikinn þrátt fyrir langt ferðalag.

Gestirnir eiga líka við sín meiðsli að stríða en bakvörðurinn Seamus Coleman fótbrotnaði í landsleik með Írum í síðustu viku og verður ekki meira með á tímabilinu.  Þá eru þeir Funes Mori, Morgan Schneiderlin og James McCarthy einnig meiddir en Schneiderlin gæti þó mögulega náð sér í tæka tíð fyrir þennan leik.  Þá eru þeir Yannick Bolasie og Mo Besic meiddir og spila ekki þennan leik.

Eins og áður sagði er ansi erfitt að segja til um hvernig Jurgen Klopp stillir upp liðinu að þessu sinni.  Dejan Lovren er orðinn góður af sínum meiðslum og mun líklega koma inn í vörnina í stað Ragnar Klavan og restin af vörninni verður líklega eins og áður með Joel Matip, James Milner og Nathaniel Clyne.  Miðjan er stórt spurningamerki en einhverjar fréttir bárust í morgunsárið þess efnis að Lucas muni koma þar inn og þá væntanlega með Gini Wijnaldum og Emre Can.  Framlínan verður svo vonandi með þá Sadio Mané, Philippe Coutinho og Roberto Firmino innanborðs.  Þetta lið ætti nú alveg að geta gert gott mót í þessum leik en það er vissulega ekki gott að vera án Henderson og Lallana.

Árangur Liverpool á Anfield gegn Everton hefur verið nokkuð góður í gegnum árin en þeir bláu hafa ekki unnið sigur á Anfield síðan árið 1999 og það þýðir nú kannski bara að það styttist í sigurleikinn hjá þeim.  Síðan úrvalsdeildin var sett á laggirnar hafa Everton aðeins unnið tvo deildarleiki á Anfield, 11 leikir hafa endað með jafntefli og Liverpool hafa unnið 11 leiki.  Við skulum þó vona að hann komi ekki í þessum leik því okkar menn mega illa við því að tapa í baráttunni um fjórða sætið.  Everton eru komnir óþægilega nálægt Liverpool, eru bara sex stigum á eftir með 50 stig í 7. sætinu á meðan okkar menn sitja í því fjórða með 56 stig.  Síðasti leikur liðanna á Anfield var í apríl í fyrra þar sem ótrúlega þægilegur 4-0 sigur vannst og allir muna nú eftir leiknum á Goodison Park fyrr á tímabilinu sem vannst með sigurmarki frá Sadio Mané í uppbótartíma, virkilega sætur sigur !

En sem fyrr má búast við hörkuleik þessara liða og leikmenn gefa ekkert eftir þegar þeir mæta í nágrannaslaginn, rauð spjöld hafa oft farið á loft í þessum viðureignum og engan skyldi undra þó að eitt eða fleiri slík myndu sjást í leiknum.  Spáin að þessu sinni er sú að okkar menn ná að kreista fram seiglusigur 2-1 í háspennuleik !

Fróðleikur:

- Sadio Mané er sem fyrr markahæstur leikmanna Liverpool á tímabilinu með 12 mörk sem öll hafa komið í deildinni.

- Næstur er Roberto Firmino með 10 mörk, þar af 9 í deild.

- Romelu Lukaku er markahæstur leikmanna Everton sem og markahæstur allra í deildinni það sem af er með 21 mark.

- Divock Origi hefur tekið þátt í flestum leikjum liðsins á tímabilinu eða alls 33 talsins.

- Nathaniel Clyne hefur þó spilað flesta deildarleiki eða 28 talsins.

- Philippe Coutinho mun væntanlega spila sinn 130. deildarleik fyrir félagið.
 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan