| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur í deildinni er ekki síður erfiður en leikurinn gegn Chelsea á þriðjudaginn var en okkar menn heimsækja Hull City laugardaginn 4. febrúar og hefst leikurinn klukkan 15:00.

Það þarf lítið að fjölyrða um þá staðreynd að þegar Liverpool mætir liði í fallbaráttu á útivelli er ástæða til að hafa áhyggjur.  Í gegnum tíðina hafa þessir leikir reynst afskaplega erfiðir á að horfa fyrir okkur stuðningsmenn og oftar en ekki mæta leikmenn varla tilbúnir í baráttuna og úrslitin yfirleitt ekki góð.  En það má þó vonandi segja að menn hafi náð að snúa við blaðinu að einhverju leyti í leiknum við Chelsea þar sem baráttan virtist vera kominn aftur og þrátt fyrir að jafntefli hafi verið niðurstaðan voru jákvæð teikn á lofti.  En á móti kemur þá hafa leikmenn liðsins oft verið 100% klárir í baráttuna þegar mikið liggur við en strax í næsta leik gegn liði sem hefur engu að tapa lenda menn í ströggli.

Við sjáum auðvitað hvað setur í þessum leik en það er þó ljóst að Sadio Mané mun væntanlega byrja leikinn og er það vel.  Jurgen Klopp sagði svo á blaðamannafundi á fimmtudaginn var að engin ný meiðslavandræði væru komin upp fyrir leikinn við Hull þannig að við sjáum líklega nánast okkar sterkasta lið mæta til leiks.  Á meiðslalistanum er fjórir leikmenn, Ovie Ejaria, Marko Grujic, Adam Bogdan og Danny Ings.  Heimamenn bættu við sig töluvert af mönnum í janúarglugganum en seldu reyndar á móti tvo af burðarásum sínum.  Á meiðslalistanum hjá þeim eru sjö leikmenn, Davies, Mason, Henriksen, Keane, Odubajo, Luer og Lenihan og enginn af þeim er líklegur til að ná sér í tæka tíð fyrir þennan leik.  Nýr stjóri hjá Hull hefur náð ágætum árangri með liðið og náðu þeir góðu jafntefli á Old Trafford í síðasta leik auk þess sem þeir sigruðu seinni leikinn í undanúrslitum heima gegn United en það dugði ekki til að komast í úrslit.  Þeir sitja þó sem stendur í fallsæti fyrir þennan leik, eru í næst neðsta sætinu með 17 stig eftir 23 leiki, hafa skorað alls 20 mörk og fengið á sig 47.  Okkar menn sitja í fjórða sætinu með 46 stig og hafa skorað 52 mörk en fengið á sig 28.

Eins og áður sagði ætti byrjunarliðið að vera það sterkasta sem völ er á með þá Matip og Lovren í miðvarðastöðunum og Clyne og Milner sem bakverði, Mignolet verður svo í markinu.  Á miðjunni er ekki ólíklegt að þeir Jordan Henderson, Gini Wijnaldum og Adam Lallan verði saman og frammi verða svo líklega þeir Mané, Coutinho og Firmino.  Þetta er að mínu mati sterkasta liðið sem er í boði og er ansi langt síðan að það náðist að stilla liðinu upp með þá Lallana, Coutinho, Mané og Firmino saman en það var síðast þann 6. nóvember þegar 6-1 stórsigur vannst á Watford á heimavelli.  Vonandi eru meiðslavandræði lykilmanna að baki það sem eftir er tímabils og nú þegar liðið hefur ekki að neinu öðru að keppa en deildinni verður nægur tími til að hvíla á milli leikja sem er vel.

En leikurinn verður að sjálfsögðu erfiður og liðið þarf að snúa við slæmu gengi á þessum velli í deildinni.  Liðin hafa aðeins mæst fjórum sinnum á KC Stadium í úrvalsdeildinni en aðeins hefur náðst að vinna einn þeirra, nánar tiltekið fyrstu viðureign liðanna árið 2009 þegar 1-3 sigur vannst.  Næst mættust liðin 9. maí 2010 í síðasta leik þess tímabils og jafnframt síðasta leik Rafael Benítez með liðið og voru lokatölur 0-0.  Síðan þá hafa liðin mæst tvisvar og hafa þeir leikir tapast 3-1 og 1-0.  Þetta er fyrsta heimsókn Jurgen Klopp á þennan völl og vonandi verður það góð heimsókn fyrir hann og leikmennina.

Spáin að þessu sinni er sú að þetta verður mjög erfiður leikur.  Oft þarf maður ekki langan tíma til að átta sig á því hvernig leikurinn kemur til með að spilast þegar hann er byrjaður og vonandi mæta menn nú með kassann út og verða tilbúnir til að berjast.  Hull City munu ná að skora í þessum leik en það munu okkar menn gera einnig og niðurstaðan verður 1-1 jafntefli.  Vissulega ekki góð úrslit svona fyrirfram en því miður þá segir sagan okkur of oft að Liverpool strögglar í svona leikjum.

Fróðleikur:


- Roberto Firmino og Sadio Mané eru sem fyrr markahæstir það sem af er tímabili með 9 mörk hvor.


- James Milner spilar væntanlega sinn 50. deildarleik fyrir félagið.


- Hann hefur skorað 11 mörk í deildinni fyrir Liverpool til þessa.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan