| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur okkar manna er stórleikur gegn Chelsea á Stamford Bridge.  Leiktíminn er kannski óvenjulegur en flautað verður til leiks kl. 19 að íslenskum tíma föstudagskvöldið 16. september.

Þetta er þriðja heimsókn okkar manna til Lundúna á tímabilinu en eins og flestir vita hafa okkar menn heimsótt Arsenal og Tottenham það sem af er leiktíðar.  Liðið er ósigrað úr þeim leikjum og vonandi verður engin breyting á því núna.  Heimamenn í Chelsea hafa byrjað tímabilið vel, unnu fyrstu þrjá leiki sína og gerðu jafntefli í síðasta leik, gegn Swansea á útivelli.  Þeir sitja í 2. sæti deildarinnar með 10 stig á meðan Liverpool er í því 6. með 7 stig.

Helsta umræða varðandi liðsuppstillingu Jurgen Klopp er núna sú hvort að Simon Mignolet haldi sæti sínu í markinu en menn bíða spenntir eftir því að sjá hvort Loris Karius fái tækifæri í byrjunarliðinu.  Það verður þó að teljast líklegra að Klopp haldi sig við Mignolet og láti Karius frekar byrja gegn Derby County í deildarbikarnum í næstu viku.  Það kemur þó allt í ljós og Karius verður ábyggilega til í slaginn ef kallið kemur.  Einnig velta menn því fyrir sér hvort að Philippe Coutinho muni byrja en hann var á bekknum í síðasta leik þar sem liðið allt spilaði mjög vel í 4-1 sigri á Leicester.  Eitt er þó víst að Dejan Lovren byrjar á morgun þá væntanlega við hliðina á Joel Matip en Króatinn gat ekki spilað gegn Leicester vegna heiftarlegs glóðurauga sem hann hlaut á æfingu daginn fyrir þann leik.  Emre Can mun ekki spila samkvæmt Klopp en hann vantar meiri leikæfingu eftir að hafa jafnað sig af síðustu meiðslum.

En hvað sem liðsuppstillingu varðar þá er ljóst að Antonio Conte og hans menn í Chelsea ætla sér ekkert annað en sigur á heimavelli í þessum leik.  Það veikir þó vörn þeirra vonandi eitthvað að John Terry er ekki með og Conte staðfesti á blaðamannafundi fyrr í dag að David Luiz muni byrja leikinn.  Sá ágæti varnarmaður gerir sig stundum sekan um mistök sem framlína Liverpool nýtir sér vonandi ef tækifæri gefst til.  Það þarf svo að hafa sérstakar gætur á Diego Costa, sóknarmanni Chelsea, sem lætur alltaf finna vel fyrir sér og hikar ekki við að ögra leikmönnum andstæðinga á allan hátt.  Jurgen Klopp sagði á blaðamannafundi fyrir leik að hann brýni fyrir leikmönnum sínum að mæta Costa af harðfylgi, það dugi alls ekki að hugsa þetta sem einhvern vináttuleik.  En að sama skapi tók hann það fram að hann vilji alls ekki að sínir leikmenn reyni hvað þeir geta til að fiska Costa útaf, heldur mæta honum heiðarlega og láta finna jafn mikið fyrir sér og hann gerir.

Það eru góðar minningar frá síðustu heimsókn Liverpool á þennan völl en frábær 1-3 sigur vannst á Chelsea síðasta dag októbermánaðar í fyrra.  Chelsea komust yfir snemma leiks en Coutinho jafnaði í uppbótartíma fyrri hálfleiks með flottu marki.  Hann var svo aftur á ferðinni í seinni hálfleik og Christian Benteke skoraði svo síðasta mark leiksins þegar lítið var eftir.  Á þeim tíma voru Chelsea menn í tómu basli og ekki svo löngu síðar var Jose Mourinho látinn taka pokann sinn.  Það verður því allt annað lið heimamanna sem mætir í þennan leik en vonandi verður þetta mikil skemmtun á föstudagskvöldi.

Ef við lítum á síðustu fimm viðureignir liðanna á þessum velli hafa okkar menn unnið tvo leiki, gert tvö jafntefli og tapað einum þannig að undanfarin ár má sjá að ágætis árangur hefur náðst gegn þeim bláu á þeirra eigin velli.

Spáin að þessu sinni er sú að leikurinn endar með jafntefli 2-2 og varla þarf að taka það fram að þetta verður hörkuleikur.  Liverpool skora fyrst, missa svo leikinn niður í 2-1 en jafna metin áður en lokaflautan gellur !  Vonum auðvitað þó að Sadio Mané og félagar sýni áfram hvað í þeim býr og að David Luiz og félagar vita ekki hvort þeir séu að koma eða fara í varnarleiknum.

Fróðleikur:

- Þeir Roberto Firmino, Philippe Coutinho, Sadio Mané og Adam Lallana hafa allir skorað jafn mörg mörk í deildinni til þessa eða 2 mörk hver.

- Firmino er þó markahæstur með þrjú mörk en hann skoraði eitt í deildarbikarleik fyrr á tímabilinu.

- James Milner spilar að öllum líkindum sinn 50. leik fyrir félagið í öllum keppnum.

- Milner hefur skorað 8 mörk til þessa fyrir liðið.

- Philippe Coutinho gæti að sama skapi spilað sinn 150. leik fyrir félagið í öllum keppnum.

- Brasilíumaðurinn hefur skorað 30 mörk til þessa.

- Diego Costa er markahæstur Chelsea manna með 4 mörk í deildinni á tímabilinu.

- Bæði lið hafa skorað 9 mörk til þessa í deildinni.

- Chelsea hafa fengið á sig 4 mörk til þessa en Liverpool 7.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan