| Grétar Magnússon

Mótherjarnir hituðu upp með sigri

Það styttist óðum í seinni undanúrslitaleik Liverpool og Villarreal og það er því ekki úr vegi að skoða hvernig spænska liðinu gekk í sínum leik um helgina en þeir mættu nágrönnum sínum í Valencia á heimavelli.

Ólíkt okkar mönnum náðu Villarreal að vinna sinn leik 2-0 þrátt fyrir að gera 10 breytingar frá leiknum á fimmtudagskvöldið.  Aðeins Roberto Soldado hélt sæti sínu í byrjunarliðinu um helgina.

Þeir Samu Garcia og Adrian Lopez, sem skoraði einmitt sigurmarkið gegn Liverpool, skoruðu mörkin fyrir Gula kafbátinn.  Það sem meira er þá náðu þeir að gefa argentínska varnarmanninum Matteo Musacchio 70 mínútur af leiknum til að koma sér í leikform en hann hefur verið meiddur undanfarna mánuði.  Það kemur sér vel fyrir þá gulu því að Eric Bailly sem var miðvörður gegn okkar mönnum meiddist í þeim leik og verður væntanlega ekki tilbúinn á fimmtudaginn kemur.

Með sigrinum náðu Villarreal að gulltryggja sig í umspil fyrir laust sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á næsta tímabili en þeir eru nú öruggir með 4. sæti deildarinnar.

Okkar menn hafa nú ekki unnið í þrem síðustu leikjum sínum, jafntefli gegn Newcastle og tvö töp gegn Villarreal og Swansea.  Það hlýtur því að styttast í næsta sigurleik og vonandi kemur hann á fimmtudagskvöldið.  Það er að minnsta kosti ljóst að stemmningin á Anfield verður rafmögnuð og nú bíða allir spenntir eftir fimmtudagskvöldinu !
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan