| Heimir Eyvindarson

Sakho frá í 6-8 vikur?

Mamadou Sakho meiddist í tapleiknum gegn Crystal Palace í gær. Óstaðfestar fregnir herma að hann verði frá í 6-8 vikur, en úr því fæst endanlega skorið á morgun. 

Sakho virtist sárkvalinn þar sem hann lá í grasinu á Anfield eftir tæplega 40 mínútna leik í gær. Eftir að hafa haltrað út af hristi hann sig þó og skeiðaði inn á aftur, en varð að játa sig sigraðan eftir skamma stund inni á vellinum.

Hann fór í læknisskoðun í morgun og samkvæmt Liverpool Echo er um liðbandaskaða í hné að ræða, en þó ekki slitin krossbönd eins og hjá liðsfélögum hans Joe Gomez og Danny Ings.

Sakho mun gangast undir frekari skoðun hjá sérfræðingi á morgun en samkvæmt fyrstu fréttum er allt útlit fyrir að hann verði frá í 6-8 vikur. Það er auðvitað gríðarleg blóðtaka fyrir Liverpool enda hefur Frakkinn verið besti varnarmaður liðsins í vetur, held ég að sé óhætt að fullyrða.

Fari svo að Sakho verði frá í heilar 8 vikur mun hann missa af 8 leikjum í deildinni, gegn Manchester City, Swansea, Newcastle, WBA, Watford, Leicester, Sunderland og West Ham. Þá mun hann missa af Evrópudeildarleikjunum gegn Bordeaux og Sion og Deildabikarleiknum gegn Southampton.  

Jordon Ibe meiddist einnig lítillega í leiknum í gær og dró sig af þeim sökum úr U-21 árs landsliðshópi Englendinga sem mætir Bosníu og Sviss í landsleikjahléinu sem nú er skollið á.

Það fer að verða alveg nóg komið af meiðslum í herbúðum Liverpool í vetur og eins fallegt að Lovren og Skrtel haldist heilir næstu vikurnar, úrvalið af fullfrískum miðvörðum í hópnum er hreint ekkert sérstakt.

   
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan