| Sf. Gutt

Fullt hús stiga!

Liverpool hefur fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki leiktíðarinnar. Liðið hafði nauman 1:0 sigur á nýliðum Bournemouth í fyrsta heimaleiknum. Christian Benteke opnaði markareikning sinn.

Brendan Rodgers valdi sama byrjunarlið og í fyrsta leiknum í Stoke. Varamenn voru meira að segja þeir sömu. Það var góð stemmning fyrir leikinn og þjóðsöngurinn var sunginn af miklum þunga! Uppi í stúku voru hæstráðendur Liverpool, Tom Warner, John Henry og frú hans. Þótti gott að sjá eigendurna á Anfield en þeir hafa ekki mætt á leik frá því í vetur.

Leikurinn var fjörlega leikinn frá byrjun og eftir fimm mínútur lá boltinn í marki Liverpool eftir að Tommy Elphick skallaði í mark eftir horn. Markið var sem betur fer dæmt af en kannski var það strangur dómur. Dómarinn taldi að brotið hafði verið á Dejan Lovren en gestirnir voru ekki sammála honum. 

Það var hraði í leiknum og Philippe Coutinho var mjög áberandi. Hann átti margar góðar rispur og fallegar sendingar. Liverpool komst svo yfir á 26. mínútu. Jordan Henderson spilaði úr hornspyrnu, frá vinstri, í stað þess að senda strax fyrir markið. Hann fékk boltann til baka og þá sendi hann fasta sendingu fyrir markið. Philippe reyndi að ná til boltans í markteignum en varð ekki ágengt en Christian Benteke náði að komast fyrir boltann og stýra honum síðasta spölinn í markið. Vel gert hjá Belganum og ekki amalegt að skora sitt fyrsta mark fyrir Liverpool fyrir framan Kop stúkuna. 

Gestirnir voru argir þegar dómarinn dæmdi markið af þeim í byrjun en nú voru þeir fjúkandi reiðir. Núna höfðu þeir enn meira til síns máls. Christian var reyndar ekki rangstæður en Philippe var fyrir innan vörnina þegar hann reyndi að ná til boltans. Þó svo að hann hafði ekki komið við boltann þá hafði hann áhrif á gang mála og því hefði átt að dæma markið af.

Um fjórum mínútum seinna sendi James Milner á Jordan en fast langskot hans fór rétt yfir. Mínútu fyrir leikhlé hrökk boltinn fyrir fætur Philippe í miðjum teig eftir gott spil en hann hitti ekki markið. Þarna átti Brasilíumaðurinn að skora og gera út um leikinn. Liverpool leiddi í leikhléinu með markinu umdeilda. 

Ljóst var að Bournemouth myndi ekki gefa upp von um að ná einhverju úr leiknum fyrr en í fulla hnefana. Liverpool hafði svo sem nokkuð góð tök á leiknum en nýliðarnir voru alltaf sókndjarfir í hvert skipti sem færi gafst. Brendan varð að breyta liðinu sínu snemma í síðari hálfleik þegar Jordan fór af velli og kom Emre Can inn á. Jordan hafði átt við meiðsli að stríða fyrir leikinn og gat ekki haldið lengur áfram. Eftir klukkutíma átti Matt Ritchie óvænt skot utan vítateigs sem sleikti stöngina framhjá.

Á 74. mínútu náði Liverpool góðri sókn og Christian gaf á Philippe sem fékk gott skotfæri í vítateignum en varnarmaður komst fyrir skotið og bjargaði líklega marki.  Á lokamínútunni hefði Christain getað gulltryggt sigurinn eftir sendingu frá Nathaniel Clyne þegar hann skaut að marki af stuttu færi. Artur Boruc náði að krafsa í boltann sem fór í slána og yfir markið. Sigur og stigin þrjú féllu Liverpool í skaut. Liðið hefur því fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leikina og það er ekki hægt að biðja um meira! 

Liverpool: Mignolet; Clyne, Skrtel, Lovren, Gomez; Henderson (Can 52. mín.); Coutinho (Moreno 81. mín.), Milner, Lallana, Ibe (Firmino 70. mín.) og Benteke. Ónotaðir varamenn: Bogdan, Toure, Origi og Ings.

Mark Liverpool: Christian Benteke (26. mín.).

Gult spjald: Joe Gomez.

Bournemouth: Boruc; Francis, Elphick, Cook, Daniels; Ritchie, O'Kane (Gosling 87. mín.), Surman, Gradel (Smith 81. mín.); King (Tomlin 60. mín.) og Wilson. Ónotaðir varamenn: Federici, Distin, Mings og Pugh.

Gul spjöld: Eunan O’ Kane, Matt Ritchie, Lee Tomlin og Steve Cook.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.102.

Maður leiksins: Christain Benteke. Belginn opnaði markareikning sinn. Fyrir utan að skora var hann mjög sterkur í framlínunni og sýndi lipra takta. Vonandi heldur hann áfram á sömu braut.

Brendan Rodgers: Ég er ánægður með að við erum með tvo sigra, sex stig og höfum tvívegis haldið hreinu. Vörnin hefur verið í góðu lagi og það er mikilvægt fyrir okkur. Það hefur komið fullt af nýjum leikmönnum til félagsins og það mun taka þá svolítinn tíma að koma sér fyrir. En lið hefur sýnt skapstyrk og baráttuanda og það á eftir að vera mikilvægt fyrir okkur.

Fróðleikur

- Liverpool vann fyrsta heimaleikinn á leiktíðinni.

- Christian Benteke skoraði fyrsta mark sitt fyrir Liverpoool.

- Þetta var 50. deildarmark Belgans á Englandi. 

- Þetta var í fyrsta sinn sem Liverpool og Bournemouth hafa mæst í deildarkeppni. 

- Liverpool hefur spilað tvær síðustu leiktíðir við Bournemouth. Á síðustu leiktíð í Deildarbikarnum og leiktíðina á undan í F.A. bikarnum.  Liverpool vann báða leikina á Dean Court. 

- James Milner bar fyrirliðaband Liverpool í fyrsta sinn en hann tók við því af Jordan Henderson þegar hann fór meiddur af velli.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan