| Grétar Magnússon

Fyrsti heimaleikur tímabilsins

Fyrir dyrum er fyrsti heimaleikur okkar manna á tímabilinu og eru það nýliðar Bournemouth sem koma í heimsókn. Suðurstrandarliðið er sýnd veiði en ekki gefin.

Þetta er síðasti leikur 2. umferðar Úrvalsdeildarinnar og flautað verður til leiks kl. 19:00 að íslenskum tíma á morgun, mánudag.

Bournemouth eru eins og áður sagði nýliðar í deildinni og leika þar í fyrsta skipti í sögu liðsins. Liðið var nærri því fallið úr ensku deildakeppninni tímabilið 2008-09 en tímabilið á eftir náði liðið að vinna sig upp í League One eins og deildin heitir í dag. Þar var liðið þangað til tímabilið 2012-13 er sæti í næst efstu deild varð að veruleika. Var það í aðeins annað skiptið í sögu félagsins sem það var með lið svo ofarlega í deildarkeppni. En öskubuskuævintýrið var ekki á enda og til að gera langa sögu stutta unnu þeir deildina á síðasta tímabili og þar með keppnisrétt í ensku Úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í sögu félagsins.

En nóg af sögu þeirra í bili. Okkar menn vilja ólmir sækja þrjú stig í sínum fyrsta heimaleik eftir góðan útisigur á móti Stoke City um síðustu helgi. Margir hafa verið að spá og spekúlera í liðsuppstillinguna í þessum leik og það er talið næsta öruggt að Brendan Rodgers geri ekki miklar breytingar enda er þess svosem ekki þörf eftir góðan sigur. En það má nú reyndar segja að sóknartilburðir liðsins á móti Stoke hafi ekki verið mikið til að hrópa húrra fyrir og þess vegna er ekki talið ólíklegt að Roberto Firmino komi inn í liðið á kostnað Adam Lallana, eða þá að Emre Can geri það sem færir þá James Milner og Jordan Henderson framar á miðjunni. Eftir innkomu þeirra tveggja á móti Stoke má segja að sóknarleikurinn hafi aðeins batnað.

Allt verður þetta að koma í ljós þegar byrjunarliðið verður tilkynnt en það mikilvægasta er að ná í öll stigin sem eru í boði. Ekki er hægt að líta til sögunnar hvað varðar úrslit leikja þessara liða í deildarkeppni því þau hafa aldrei mæst þar. Það má því segja að leikurinn sé ákveðið sögulegur að því leyti. Liðin mættust þó á síðastliðnu tímabili í Deildarbikarnum, nánar tiltekið þann 17. desember og margir bjuggust við mjög erfiðum leik gestanna. Sú var þó ekki raunin er þeir Raheem Sterling og Lazar Markovic skoruðu sitt markið hvor í fyrri hálfleik. Sterling bætti svo við þriðja markinu á 57. mínútu, heimamenn minnkuðu svo muninn sex mínútum síðar og þar við sat, lokatölur semsagt 1-3. Liðin mættust líka í ensku bikarkeppninni í tímabilið 2013-14 og þar sigruðu okkar menn 0-2. Alls hafa liðin mæst 6 sinnum en fyrstu viðureignir liðanna voru árið 1927 er leika þurfti tvisvar til að ákvarða hvort liðið kæmist í 4. umferð keppninnar. Það sama var uppá teningnum árið 1968 en í bæði skiptin komst Liverpool áfram í næstu umferð með 4-1 sigri á Anfield. Sömu lokatölur á morgun væru vel þegnar !

Bæði lið eru með þrjá menn á meiðslalistanum en þeir MacDonald, Atsu sem er á láni frá Chelsea og Arter eru meiddir en tveir fyrstnefndu ættu að vera klárir í slaginn á morgun. Sem fyrr eru það svo Daniel Sturridge og Jon Flanagan sem eru frá vegna meiðsla hjá okkar mönnum og við þann lista bætist Joe Allen. Bournemouth hafa ekki verið mjög iðnir við kolann í leikmannakaupum í sumar eins og svosem mátti búast við en þeir hafa þó á að skipa sterku liði sem vill spila skemmtilega knattspyrnu og reyna að hafa skemmtanagildið í hærra lagi.

Það er óskandi að stemmningin verði góð á Anfield á morgun í fyrsta heimaleik leiktíðarinnar. Eitt er víst að stemmningin verður góð á heimavelli klúbbsins okkar á Spot í Kópavogi og hvetjum við sem flesta til að fjölmenna þangað til að horfa á leikinn á höfuðborgarsvæðinu.

Ég er nokkuð viss um að Bournemouth muni skora mark á morgun en mín spá er sú að okkar menn skora einu marki meira, lokatölur verði því 2-1. En það er oftar en ekki segin saga að þegar nýliðar mæta á Anfield í Úrvalsdeildinni að þá er erfiður leikur í aðsigi. Óþarflega oft hef ég orðið vitni að því að svona leikir verða mun erfiðari en upphaflega lítur út fyrir og stundum er bara ákveðið vanmat í gangi. Sigurinn verður því torsóttur eins og Liverpool liðsins er von og vísa. En stigin skipta máli þegar upp er staðið og vonandi verður liðið með fullt hús stiga þegar flautað verður til leiksloka annað kvöld.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan