| Heimir Eyvindarson

Aftur tap fyrir United

Liverpool tapaði í dag sínum fyrsta leik í deildinni frá því 14. desember. Andstæðingurinn í dag var sá sami og þá, erkifjendurnir í Manchester United. Grátlegt tap. 
Það var vor í lofti á Anfield í upphafi leiks. Bjart veður og vonir stuðningsmanna Liverpool ansi miklar, enda höfum við varla getað beðið eftir því að ná fram hefndum á erkifjendunum frá því í desember. Sjálfur Pelé var mættur til að fylgjast með leiknum og það var álíka bjart yfir honum og stuðningsmönnum Liverpool í stúkunni, til að byrja með.

Leikurinn byrjaði nokkurn veginn eins og við var að búast, hátt spennustig og nokkuð jafnræði með liðunum. Smátt og smátt náðu gestirnir yfirhöndinni á miðjunni og á 14. mínútu skoraði Juan Mata fyrsta mark leiksins, eftir sendingu frá Herrera. Staðan 0-1 á Anfield.

Á 17. mínútu átti Henderson ágæta sendingu á Sturridge sem skaut að marki úr þröngu færi. Ágætis tilraun og jákvætt lífsmark með okkar mönnum sem voru heldur hugmyndasnauðir á þessum tímapunkti - og raunar út hálfleikinn.

Á 35. mínútu fékk Adam Lallana langbesta færi Liverpool í fyrri hálfleik eftir góðan undirbúning Henderson og Sturridge, en skot Lallana fór framhjá. Illa farið með gott færi.

Staðan í hálfleik var 0-1 fyrir gestina. Fyllilega sanngjarnt.

Í hálfleik kom Steven Gerrard inn fyrir Adam Lallana. Fyrirliðinn var hinsvegar ekki lengi inná því eftir 48 sekúndur fékk hann að líta rauða spjaldið fyrir að traðka á Herrera. Liverpool manni færri og marki undir og útlitið ansi dökkt í vorblíðunni í Liverpool.

Liverpool liðið var þrátt fyrir brotthvarf fyrirliðans mun skárra í seinni hálfleik en þeim fyrri. Coutinho átti ágæta marktilraun á 54. mínútu, en hafði ekki heppnina með sér og Sterling og Sturridge sýndu einnig ágæta takta á fyrstu 10-15 mínútum hálfleiksins. En á 59. mínútu kom rothöggið. Þá skoraði Mata öðru sinni, að þessu sinni stórglæsilegt mark eftir góða sendingu frá Di Maria. Staðan 0-2 og vonin orðin ansi veik.

Á 69. mínútu náðu okkar menn aðeins að klora í bakkann þegar Sturridge skoraði eftir sendingu frá Coutinho. Staðan 1-2 og smá von um stig kviknuð.

En Liverpool náði því miður ekki að skora fleiri mörk og undir lokin hefði Manchester United hæglega getað bætt þriðja markinu við þegar Martin Atkinson dæmdi víti eftir viðureign Can og Blind. Wayne Rooney tók vítið en Mignolet gerði sér lítið fyrir og varði glæsilega. 

Niðurstaðan 1-2 tap fyrir erkifjendunum í Manchester United. Því miður sanngjörn úrslit og fyrsta tapið í deildinni á árinu staðreynd.

Liverpool: Mignolet, Can, Skrtel, Sakho, Allen, Henderson, Moreno (Balotelli á 65. mín.), Lallana (Gerrard á 46. mín.), Sterling, Coutinho, Sturridge. Ónotaðir varamenn: Jones, Leiva, Johnson, Toure, Lambert.

Mark Liverpool: Daniel Sturridge á 69. mín.

Rautt spjald: Steven Gerrard.

Gul spjöld: Balotelli og Allen.

Manchester United: De Gea, Valencia, Jones, Smalling, Blind (Rojo á 90. mín.), Carrick, Herrera (Falcao á 83. mín.), Mata Young (Di Maria á 55. mín.), Rooney, Fellaini. Ónotaðir varamenn: Valdes, Rafael, Januzaj, Pereira. 

Mörk United: Mata á 14. og 59. mín.

Gul spjöld: Jones, Herrera

Áhorfendur á Anfield Road: 44,405.

Maður leiksins: Mignolet fær mitt atkvæði, fyrst og fremst fyrir að tryggja það að Wayne Rooney næði ekki að skora á Anfield. Frekar en fyrri daginn. 

Brendan Rodgers: Þetta var mjög svekkjandi. Við lágum allt of aftarlega í fyrri hálfleik og komumst aldrei í takt við leikinn. Við vorum betri í síðari hálfleik, en það var vitanlega mjög erfitt að spila einum færri nær allan hálfleikinn. 

Fróðleikur:


-Þetta var 25. sigur Manchester United á Liverpool frá því að Úrvalsdeildin var stofnuð. Liverpool hefur einungis unnið 13 sinnum. 

-Steven Gerrard bættist í dag í hóp þeirra Michael Owen, Danny Murphy, Sami Hyypiä, Javier Mascherano og Jonjo Shelvey, sem allir hafa fengið rauð spjöld í viðureignum við Manchester United frá stofnun Úrvalsdeildar. 

-Þetta var í síðasta sinn sem Steven Gerrard mun mæta Man U í Liverpool búningnum. Fyrirliðinn vill sjálfsagt gleyma þessum leik sem allra fyrst. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan