| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Í hádeginu á morgun mæta erkifjendur okkar í Manchester United á Anfield og freista þess að fylgja eftir sætum 3-0 sigri sínum á okkar mönnum á Old Trafford í desember. Það má alls ekki gerast.

14. desember 2014 mætti vængbrotið lið Liverpool til leiks á Old Trafford í Manchester. Okkar menn voru þá nýfallnir út úr Meistaradeildinni og allt hafði gengið á afturfótunum í deildinni, svo að segja allt tímabilið. Manchester United vann leikinn 3-0 eins og við munum öll, en það sást sólarglæta í leik Liverpool. Brendan stillti upp þriggja manna vörn, sem hann hefur haldið sig við æ síðan, og þrátt fyrir tapið var allt annað yfirbragð á leik liðsins. 

Eftir tapið á Old Trafford í desember var Liverpool í 10. sæti, 10 stigum á eftir Manchester United og hátt heyrðist í þeim stuðningsmönnum Liverpool sem vildu losna við Brendan Rodgers. Síðan þá hefur gengi Liverpool snúist algerlega við. Liðið hefur ekki tapað leik í deildinni á þessum rúmu þremur mánuðum sem liðnir eru og hefur náð sér í 33 stig af 39 mögulegum. Tap gegn Chelsea í deildabikarnum í endurteknum leik og gegn Besiktas í Evrópudeildinni, eftir vítakeppni, eru einu töpin á þessu tímabili. 

Eftir að það fór að rofa til hjá liðinu höfum við stuðningsmennirnir varla getað beðið eftir sunnudeginum 22. mars. Þá er tími hefndarinnar runninn upp. Við höfum smátt og smátt saxað á forskot efstu liðanna og erum sem stendur tveimur stigum á eftir Manchester United sem situr í hinu dýrmæta 4. sæti.

Saga þessara tveggja liða er auðvitað stórkostleg. Þetta eru einfaldlega tvö sigursælustu liðin í enska boltanum og þótt einn og einn stuðningsmaður Liverpool líti enn á Everton sem okkar helstu andstæðinga held ég að staðan í dag sé sú að ef við mættum velja þá myndum við flest helst af öllu vilja leggja Manchester United að velli.

Spennustigið er alltaf mjög hátt í þessum leikjum og ekki óalgengt að rauð spjöld fari á loft. Mikill rígur hefur jafnan verið á milli stjóra liðanna og oftar en ekki verið mikið sálfræðistríð í gangi. Brendan Rodgers og Louis Van Gaal hafa þó verið rólegheitin uppmáluð á blaðamannafundum í vikunni, Van Gaal sagði reyndar frá því að hann hefði undirbúið leikmenn sína undir mjög neikvætt andrúmsloft og þétta heimadómgæslu! Rodgers fór fögrum orðum um Van Gaal, sem kemur reyndar ekki á óvart því hann hefur áður lýst aðdáun sinni á hugmyndafræði Hollendingsins. Reyndar vildi Rodgers alls ekki að FSG réði Van Gaal sem yfirmann knattspyrnumála hjá Liverpool sumarið 2012, en það er önnur saga.  

Sagan er að sumu leyti okkur í vil. Manchester United hefur að vísu vinninginn þegar litið er á úrslitin í öllum þeim 174 leikjum sem liðin hafa leikið gegnum tíðina. United hefur unnið 69, Liverpool 60 og 45 hafa endað með jafntefli. Þessi munur skýrist að stærstum hluta af því að Liverpool hefur einungis rúmlega 18% sigurhlutfall á Old Trafford. Á Anfield gegnir hinsvegar öðru máli. Þar er sigurhlutfall Liverpool tæp 50%. Liverpool hefur unnið 41 leik, United 23 og 19 hafa endað með jafntefli.

Þótt Liverpool hafi gengið ágætlega með Rauðu djöflana á Anfield þarf ekki að fara langt aftur til þess að finna tímabil þar sem Manchester United sigraði í báðum viðureignum liðanna í deildinni. Það var á leiktíðinni 2012-2013, en þá vann United báða leikina 2-1. Fram að því hafði Man U ekki unnið á Anfield síðan í desember 2007.

Það er ólíklegt að Brendan Rodgers geri miklar breytingar á liðinu frá leiknum við Swansea á mánudaginn. Hugsanlega kemur þó Steven Gerrard inn í liðið, en hann kom sterkur inn í seinni hálfleik á mánudaginn. Gerrard vill ábyggilega ólmur fá að taka þátt í leiknum, því þetta verður væntanlega í síðasta skipti sem hann mætir Manchester United í Liverpool búningi. Eitt er víst að honum leiðist ekki að sigra Rauðu djöflana. 

Þá er spurning hvort Mario Balotelli fái tækifæri í framlínunni, en Daniel Sturridge hefur ekki enn fundið sitt rétta form eftir meiðslin. Sjálfur set ég spurningamerki við Emre Can í vörninni í þessum leik. Tala nú ekki um ef annaðhvort Lallana eða Sterling verða á hægri vængnum, honum til aðstoðar. Ég er handviss um að Van Gaal mun leggja áherslu á að menn geri árásir þeim megin á vellinum. Can hefur virkað óöruggur varnarlega að undanförnu og átti í miklu basli með Swansea í síðasta leik. Ég er enginn aðdáandi Dejan Lovren, en ég held að mér liði betur með hann eða King Kolo í stöðu Can á morgun. En Rodgers veit mun meira um fótbolta en ég þannig að það breytir auðvitað engu hvað mér finnst. 

Ég get ekki beðið eftir þessum leik, en ég er alveg hrikalega stressaður og svartsýnn. Mér finnst eins og væntingar okkar stuðningsmannanna - og jafnvel leikmannanna líka - séu orðnar of miklar. Við höfum beðið lengi eftir þessum leik og þráum ekkert heitar en að ná fram hefndum - og erum farin að trúa því að það verði niðurstaðan á morgun. Ég er því miður ekki viss um það. Ég hræðist þennan leik, en það kemur samt ekki til greina að ég spái okkar mönnum tapi. Ég ætla að spá 2-2 jafntefli í hörkuleik. Það er enginn heimsendir. Það þýðir einfaldlega að við verðum ennþá tveimur stigum á eftir þeim. Hvernig sem fer á morgun er ég alveg handviss um að við endum ofar í deildinni í vor en Manchester United. Þótt mér lítist illa á morgundaginn get ég lofað því. 

YNWA! 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan