| Elvar Guðmundsson

Spáð í spilin


Liverpool sækir Swansea heim annað kvöld í síðasta leik 29. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar. Okkar menn auðvitað á svakalegu skriði þessa dagana og síðan við töpuðum fyrir Man. Utd. höfum við unnið 9 leiki og gert jafntefli í 3. 

Gerrard orðinn heill aftur eftir meiðsli, sem og þeir Skrtel (höfuðhögg) og Sakho. Allen er sagður tæpur sem myndi líklega þýða Gerrard inn fyrir hann, en annars verður fyrirliðinn að mínu viti að byrja á tréverkinu. Annað spurningamerki varðandi byrjunarliðið er hvort Sakho ryðji Lovren úr vegi, er ekki viss um það en samt möguleiki í stöðunni. Moreno ætti að halda sinni stöðu vinstra megin og Sterling er líklegur hægra megin. Fremstu þrír yrðu þá Coutinho og Lallana fyrir aftan Sturridge.

Flestir klárir hjá Swansea að Gomis meðtöldum, en hann hefur fengið grænt ljós á að spila af sérfræðingum eftir yfirlið gegn Spurs í síðasta leik, og gerir því tilkall til fremsta manns hjá þeim. Swansea liðið er sterkt og ekki langt síðan þeir unnu Manchester United á þessum velli.

Síðan Swansea vann sér sæti í úrvalsdeildinni hafa þeir einungis unnið okkur einu sinni í 7 leikjum og þá með Brendan nokkurn Rodgers við stjórnvölin. Annars höfum við aðeins sigrað Swansea tvisvar í þrettán útileikjum. 

Swansea verða erfiðir á morgun enda aðeins tapað 3 heimaleikjum í vetur og af þeirra 40 stigum hafa 25 þeirra komið á Liberty vellinum. Verðum því að vona að okkar form reynist þeim of stór biti á morgun og við löndum enn einum sigrinum. Liverpool hefur haldið marki sínu hreinu í síðustu 5 útileikjum, síðasta útimark gegn okkur kom á 71. mínútu á Old Trafford um miðjan desember. 

Þetta verður hörkuleikur sem við vinnum ef við náum upp eðlilegum leik. Það er vonandi að Blackburn leikurinn hafi bara verið smá "pása" hjá okkar mönnum og þessi magnaða hrina haldi áfram sem lengst. Að þetta verði góð upphitun fyrir stórleikinn gegn ManU á Anfield næstkomandi sunnudag. 

Miðað við úrslit helgarinnar, þ.e. að United og Arsenal unnu sína leiki er nauðsynlegt að sækja þrjú stig til Swansea. Við slátruðum þeim í fyrri leiknum á Anfield og nú er bara að endurtaka leikinn strákar!

Er bjartsýnn á okkar menn þessa dagana, og spái því 0-2, með mörkum frá Sterling og Sturridge.

We go again!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan